24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

212. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég veitti því athygli, að hæstv. menntmrh. lagði til, að þessu frv. yrði vísað til hv. menntmn. Ég minnist þess samt sem áður, að síðast þegar endurskoðun laga þessa skóla fór fram hér á Alþ., þá var málið til meðferðar í sjútvn. d., sem ekki virðist vera óeðlilegt, því að þar eru þó komnir nokkrir þeir menn saman hér úr röðum alþm., sem nokkuð þekkja til sjávarútgerðar og þessa skóla, en ég efa á margan hátt, að slíkir menn finnist í menntmn. Ed., eftir það að þeir létu þetta frv. fara frá sér óbreytt. En vegna þess að ætla má, að frv. verði vísað til menntmn. hér í hv. d., þá vildi ég gjarnan strax við 1. umr. minnast á nokkur efnisatriði til athugunar fyrir n. Ég vil þó áður minna hv. alþm. á það, að 1963 var samþ. þáltill. hér í Sþ., sem ég flutti ásamt núv. hæstv. sjútvrh., Eggert G. Þorsteinssyni, um endurskoðun laga stýrimannaskólans o.fl. Í þeirri till. var m.a. drepið á það, sem er staðreynd og virðist eiga að fylgja enn, þótt við samþykkjum þetta frv., en það er, að áfram verði við það búið, að nám nemenda úr þessum skóla sé einskorðað við þessi störf á sjónum, hafandi í huga aðra þá, sem á skipum eru og þurfa fræðslu með vegna síns starfs, að nám þeirra allra nýtist, ef þeir þurfa að leita sér atvinnu í landi, hvort sem er vegna veikinda, slysa eða af öðrum orsökum. Hafandi einnig í huga þá miklu grósku, sem verið hefur í frv. hér á Alþ. í vetur og þær röksemdir, sem þar m.a. hafa komið fram um það, að svokallaðir flöskuhálsar megi ekki myndast í sambandi við nám nemenda í þessum og hinum skólanum, þá virðist mér orðin brýn ástæða til þess, að einmitt núna gangi Alþ. á undan og sýni verðugt fordæmi í því að gefa þessari stétt manna verðugt tækifæri á því námi, sem menn verða að afla sér í þessum sérskóla, að þeir geti aflað sér í þeim sama skóla menntunar, sem þeim dugi, ef þeir þurfa að fara í atvinnuleit í landi.

Fyrsta ábending mín til hv. menntmn. er í sambandi við 4. gr. Það er eiginlega hlálegt, þegar við erum að tala um betra eftirlit og meðferð á fiski, að þá skuli þarna standa, að það skuli leitazt við að veita nemendum fiskimannadeildar fræðslu um fiskverkun. Þarna á sjálfsagt að standa: „Skal veita“ — alveg skilyrðislaust, enda hefur sjútvn. þessarar hv. d. í sambandi við frv. um Fiskvinnsluskóla orðað breytingu á því frv. á þann veg, að kennurum Fiskvinnsluskólans verði skylt að halda námskeið í meðferð sjávarafla fyrir nemendur í Stýrimannaskólanum. Og einmitt í sambandi við þær brtt., þar sem ég var hér að ræða um nýtingu náms þessara manna, ef þeir þyrftu að fara í land, má geta þess, að við breyttum einnig eða leggjum til, að breyting verði gerð á frv. um Fiskvinnsluskólann á þann veg, að þeir, sem lokið hafa prófi úr fiskimannadeild Stýrimannaskólans, geti sleppt fyrsta stiginu, svokallaða undirbúningsstiginu, í væntanlegum fiskvinnsluskólum. En það þarf að ganga miklu lengra. Það eru fleiri en fiskimenn, sem ljúka prófi frá Stýrimannaskólanum. Það á skilyrðislaust að taka inn ákvæði um nútíma verkstjórakennslu hjá þessum skóla, einfaldlega vegna þess að þeir fást ekki eingöngu við meðferð á fiski eða öflun hans eða siglingu skipa. Yfirmenn á skipum eru jafnframt verkstjórar og leiðbeinendur sinna undirmanna í verkum og þar á móti mætti kannske koma þessum skoðunum, sem ég hef lengi haft um, að það þyrfti að tryggja mönnum þessi réttindi, svo þeir a.m.k. hefðu þau, ef í land þyrftu að fara.

Ég hefði með hliðsjón af þessu viljað sleppa úr 2. gr. ákvæðum um námstíma, en að í reglugerð yrði ákveðið eitthvað um slíkt, ef til þess skyldi koma, að hægt væri að lengja námstímann. Fyrst búið er að taka út úr 1. um Stýrimannaskólann, eins og gert er með þessu frv., ákvæðið um, hvað þeir skuli læra, þá fæ ég ekki séð, hvaða ástæða er til að láta standa í 1. nákvæmlega, hvaða tíma þeir eigi að vera í skólanum.

Og þá er það ein aths. enn, sem ég vildi gera nú þegar við 1. umr. og beina til menntmn. að athuga. Það er við 14. gr. um skipan skólanefndar. Þar er lagt til, að það verði skipaðir fimm menn í skólanefnd, sem ég tek eindregið undir og hef reyndar lengi mælt með, að verði gert, en samkv. frv. er talað um, að tveir verði skipaðir samkv. tilnefningu Farmanna– og fiskimannasambands Íslands. Þetta er alrangt. Ég læt vera, þó að annar maðurinn verði þaðan, en við skulum minnast þess, að meðan allir nemendur þessa skóla eru við nám í skólanum öll sín ár, nema kannske þegar kemur að 4. stiginu, landhelgisnáminu, þá eru þessir menn aðilar að félögum sjómanna og þar með Sjómannasambandi Íslands. Þessir menn eru oft á tíðum á sínum skólaferli að leita til þessara félaga sinna, bæði um fjárhagslegan styrk og aðra fyrirgreiðslu, þannig að þarna ætti skilyrðislaust annar aðilinn, sem skipaður er af samtökum sjómanna, að vera skipaður af Sjómannasambandi Íslands og hinn þá af Farmanna— og fiskimannasambandi Íslands, sem bæði tekur við þessum mönnum á seinna stigi sem meðlimum í sínum félögum, fyrir utan það, að það eru líklega fáir aðrir, sem hafa sýnt þessum skóla jafnmikla ræktarsemi og þeir, sem þar hafa farið með stjórn.

Ég vildi aðeins, herra forseti, eins og ég hef þegar tekið fram, benda á þessi atriði og biðja hv. menntmn. að taka þau til athugunar, þegar málið verður tekið fyrir þar.