11.03.1971
Efri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

248. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Það voru aðeins örfá atriði, sem ég tel rétt, að komi hér fram.

Ég vil í fyrsta lagi leggja áherzlu á það, að eins og ég í upphafi sagði, er frv. þetta samið af n., sem ég að vísu ber ábyrgð á að hafa skipað, en það ber ekki að líta á hverja einstaka till. í frv. sem persónulega skoðun mína, þannig að það geti verið ýmis atriði, sem ég gæti vel fallizt á, að rétt væri að breyta og hafa með öðrum hætti. Ég tek sem dæmi það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. vék að og beitti sér harðlega gegn, þær hugmyndir að ráða nokkra embættismenn til óákveðinna starfa í þjónustu ríkisins. Ég get alveg fallizt á það með honum, að þetta yrði að gerast með mikilli varúð. Ég sá hins vegar enga ástæðu til þess að taka þessa hugmynd út úr frv. n. og taldi það ekki nema gott, að þetta kæmi til athugunar hér á hinu háa Alþ., vegna þess að mér finnst hugmyndin út af fyrir sig í einhverju formi ekki vera svo fjarstæð, m.a. vegna þess að ég hef í mínu starfi rekið mig á það oftar en einu sinni, að það getur verið mjög slæmt að hafa ekki á að skipa einhverjum slíkum mönnum um takmarkaðan tíma, sem hægt væri að setja til endurskipulagningar vissrar starfsemi í ríkisrekstrinum, jafnvel veigamikillar starfsemi. Ég tel ekki rétt að vera að nefna nein ákveðin dæmi, en ég hef fyrir mér alveg ákveðna reynslu, sem olli því, að ég taldi rétt að viðra þessa hugmynd n., ef svo mætti segja. Hvort þetta verður til að opna þann möguleika, að ríkisstj., hver sem hún verður, eða fjmrh. geti hyglað einhverjum gæðingum sínum, skal ég láta ósagt. Hætturnar á því sviði eru vissulega margar, ef menn eru þannig skapi farnir, að þeir vilja gera það, en ég geri ekki alltof mikið úr þeim, vegna þess að pólitískt aðhald hlýtur að vera hér mikið. Það yrði að sjálfsögðu vitanlegt hverju sinni, hvaða starfsmenn væru á vegum ríkisins með þessum hætti og ég tel, að það kæmi aldrei til greina að hafa nema mjög fáa starfsmenn, sem féllu undir þetta ákvæði. Ég tek skýrt fram, að ég álít, að það þurfi að athuga þetta ákvæði nánar og því er ekki nema gott, að hv. þm. benti á, að það hafi líka sína annmarka.

Ég vi1 taka það sérstaklega fram út af því, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði áðan, að það yrðu að ráða hlutlæg sjónarmið, er losna skyldi við óhæfa starfsmenn, að ég er honum algerlega sammála í því efni, enda tel ég, að frv. tryggi það mjög vendilega. Sannast sagna eru ekki í því mörg nýmæli varðandi þetta atriði, heldur er hér verið að lýsa ákveðnu stefnumiði fyrst og fremst í þeim orðum, sem hann las upp, en það hlýtur að verða ráðandi, ef það á að vera „aktiv“ ríkisstarfsemi, að það verði leitazt við að losa ríkið við menn, sem ekki standa í stöðu sinni. Þá tek ég það skýrt fram, að það á auðvitað að metast eftir hæfileikum mannanna, en ekki eftir pólitískum skoðunum þeirra og ég tel, að þannig sé frá því gengið í frv. varðandi rétt þessara manna til að fá úrskurð um slíkar athafnir, að það verði ekki hægt að koma mönnum frá af stjórnmálalegum orsökum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða í einstökum atriðum það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði. Ég var honum sammála um eitt og annað af því og raunar flest af því. Ýmislegt af því voru nánast hugleiðingar um einstök atriði frv., sem vissulega er þörf á að taka til athugunar og ég sé ekki, að neitt af því, sem hann sagði, sé þess eðlis, að ég finni ástæðu til þess að mótmæla því. Allmörg þeirra atriða, sem hann nefndi, voru um það að gera skýrari ýmis atriði frv. og allt er það auðvitað til bóta. Frv. eiga að vera skýr lög og þarf ég ekki að kenna honum sem starfandi prófessor í lögum og sæti ekki á mér að gera það. En það er einmitt ein meginástæðan fyrir því, að þessi endurskoðun l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins hefur verið framkvæmd. Það er vegna þess, að á þessum árum, sem liðin eru frá setningu laganna, hefur reynslan leitt í ljós, að í þeim eru mörg atriði, sem má skilja á fleiri en einn veg og hefur það leitt af sér óþarfa ágreining og árekstra milli samtaka opinberra starfsmanna og rn., ekki af því að illvilji væri á aðra hvora hliðina í því efni, heldur vegna þess, að menn höfðu ekki alveg ljósar reglur um það, eins og l. hljóðuðu, hvernig með mál ætti að fara.

Varðandi það atriði, að rétt væri, að þetta mál færi saman við endurskoðun kjarasamningalaganna, þá kann vel að mega færa rök fyrir því, en ég vil aðeins upplýsa það hér, að þessi endurskoðun, sem hér sér dagsins ljós, á þessum lögum, er framkvæmd í samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, þannig að frá þeirra hálfu var það ekki talin nein sérstök nauðsyn að tengja þessi tvö mál saman. Enda hygg ég, að þess gerist ekki brýn þörf. Ég tek hins vegar undir það, sem hv. þm. sagði og vil gjarnan láta það koma fram hér, að ég tel mjög mikla nauðsyn á að endurskoða kjarasamningalögin sjálf. Ég skal játa það fúslega, að ég hef staðið gegn því að breyta þeirri aðild, sem er að þeim samningum, þ.e.a.s. að það er eingöngu Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem fer með samningsaðildina og það stafaði að sjálfsögðu af því, sem hv. þm. sagði, að það mundi verða til hins verra, ef fleiri aðilar kæmu til. Það er ekkert nýstárlegt við það og það væri held ég til bóta — þó að það væri kannske ekki sami aðili, sem færi með samningsrétt allra að það væru stærri samtök, sem hlut ættu að máli, en nú, er örfáir menn geta stöðvað þjóðfélagið. Það held ég, að liggi í augum uppi, að hljóti að vera orðin úrelt þróun, sem verður að koma í veg fyrir.

Hitt er svo annað mál, að ég hef lagt áherzlu á það og fyrst og fremst við Bandalag háskólamanna, úr því að við nefnum hér ákveðin nöfn, sem hefur sótt ákaflega fast að fá samningsaðild, að ég teldi það á allan hátt óskynsamlegt og væri því andvígur, að þessum 1. væri breytt, fyrr en þá eftir að lokið væri þeim kjarasamningum, sem nú eru nýafstaðnir. En með þeim kjarasamningum var farið inn á algerlega nýjar brautir, þ.e.a.s. hið svokallaða starfsmat, sem ég tel, að hefði verið óframkvæmanlegt að ná samkomulagi um, nema af því að það var einn aðili, sem stóð að samningsgerðinni, ella hefði það aldrei tekizt. Þó að ýmislegt sé gallað í þessu starfsmati, held ég, að báðir aðilar séu sammála um það, að það sé mjög jákvætt og hljóti að verða grundvöllur að framtíðarsamningum og það má segja, að eftir að þetta starfsmat er fengið sem grundvöllur, þá sé ekki eins hættulegt, þó að það komi fleiri aðilar til við samningsgerð, þó að ég álíti auðvitað, að æskilegast væri, að þeir aðilar gætu haft sem mesta samstöðu um aðild að þeim nefndum og ráðum, sem gengið er út frá í kjarasamningalögunum og ég hirði ekki að telja hér. En ég vil upplýsa það hér, úr því að þetta mál ber á góma og báðir hv. þm., ,sem talað hafa, hafa lagt á það áherzlu, að þeir telji, að hér eigi að gera breytingu á, að ég hef þegar snúið mér til beggja þessara heildarsamtaka, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, og tjáð þeim, að ég óskaði eftir því, að hafin yrði heildarendurskoðun kjarasamningalaganna og ég vænti þess, að þessir aðilar muni báðir fallast á það, þannig að sú endurskoðun geti hafizt innan tíðar. Ég álít, að það sé orðið tímabært að byggja á þeirri reynslu, sem fengin er og það tjóar auðvitað ekki að neita að horfast í augu við þá staðreynd, að mjög fjölmennir starfshópar eru þegar utan vébanda þeirra samtaka, sem nú hafa ein samningsréttinn. Að öðru leyti vil ég ekki efnislega binda mig og mína skoðun í þessu efni, hvernig þessu verði bezt fyrir komið, heldur aðeins láta þetta koma fram af þessu gefna tilefni, að ég er sammála þessum hv. þm. um, að endurskoðun kjarasamningalaganna þurfi nú að eiga sér stað.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að ræða málið frekar að sinni, en tel ekki nema gott að fram hafi komið þær ábendingar, sem hér hafa komið frá tveimur hv. þm.