06.04.1971
Efri deild: 95. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2653)

309. mál, stofnun og slit hjúskapar

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta er all mikill bálkur og hefði verið ástæða til að fylgja því úr hlaði með ýtarlegri ræðu. En vegna anna þingsins og naums tíma nú á þessum næst síðasta degi þinghaldsins skal ég stytta mjög mál mitt.

Frv. hefur orðið nokkuð síðbúið vegna þess, að n. sú, sem það samdi, gerði á því nokkrar breytingar við síðustu yfirferð. Má þó segja, að það komi ekki að sök, því að það var aldrei ætlunin að ýta eftir afgreiðslu málsins á þessu þingi, þó að fyrr hefði tekizt að leggja það fram.

Eins og fram kemur í grg. með frv., er það samið af íslenzku sifjalaganefndinni. Formaður hennar er Ármann Snævarr, fyrrum háskólarektor, en í n. eiga sæti auk hans Baldur Möller, ráðuneytisstjóri í dómsmrn., og ég sem var þriðji nm.

Núgildandi lög um stofnun og slit hjúskapar eru frá árinu 1921 og eru því orðin hálfrar aldar gömul. Þau voru á sínum tíma sniðin að fyrirmynd frv., sem samið hafði verið af n. frá Norðurlöndunum þremur, Danmörku, Svíþjóð og Noregi, sem hóf störf upp úr 1910. Þessi lög okkar um stofnun og slit hjúskapar hafa tekið nokkrum breytingum síðan, ekki miklum þó og þær breytingar, sem gerðar hafa verið á lögum hinna Norðurlandanna um þessi efni, hafa verið veigameiri. En í þeim löndum voru ný lög um stofnun og slit hjúskapar lögleidd á árunum 1914—1929.

Á fundi Norðurlandaráðs 1955 var samþ. að beina því til aðildarríkjanna, að fram yrði látin fara endurskoðun á hjúskaparlögum landanna, — endurskoðun, sem beindist að því að samræma þau, að svo miklu leyti sem mögulegt væri, í hinum ýmsu löndum og fella þau að þeim breytingum, sem orðið höfðu í þjóðfélögunum á þessum langa tíma, sem liðinn var frá fyrstu setningu l. Á hinum Norðurlöndunum hafa nú á allra seinustu árum ýmist verið samþ. ný lög um stofnun og slit hjúskapar eða gerðar verulegar breytingar á eldri 1. og hefur það orðið í framhaldi af þeirri endurskoðun, sem unnið var að á árunum frá 1960—1968 og við höfum tekið þátt í. Við Íslendingar erum síðastir í röðinni til að setja ný lög um stofnun og slit hjúskapar. Íslenzka n. vildi fara sér hægt, bíða og sjá, hver yrði niðurstaðan í hinum löndunum og hver yrðu viðbrögð og afgreiðsla þjóðþinga þeirra landa á frv. frá sifjalaganefndunum.

Ég skal svo stikla á stóru og minnast aðeins á nokkur aðalatriðin ti1 breytinga, sem þetta frv. hefur að geyma. Ég skal þá í upphafi geta þess, að úr frv. eru felld niður þau ákvæði núgildandi l., sem fjalla annars vegar um festar og hins vegar um lýsingu. Um festar er talið, að rétt sé að gildi ákvæðin um bætur vegna festaslita, en ákvæði núgildandi l. fjalla eiginlega eingöngu um það. Í þeim efnum er talið eðlilegt, að farið sé eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Það má geta þess, að t.d. í norsku 1. um stofnun og slit hjúskapar hafa aldrei verið nein ákvæði um festar. Þá er einnig sleppt hér ákvæðum núgildandi l. um lýsingar. Lýsingar tíðkast yfirleitt alls ekki og má heita, að undantekning sé, að lýsingarákvæðunum sé beitt nú, heldur kaupa menn sig undan lýsingarskyldu með leyfisbréfi.

I. kafli fjallar um hjónavígslu skilyrðin og er þá fyrst að geta um hjónavígslualdurinn. Hann er nú, eins og menn vita, 18 ár fyrir konur, en 20 fyrir karla. Með frv. er lagt til, að hann verði samur fyrir bæði kynin, 18 ár. Í Noregi og Svíþjóð hefur það þegar verið lögleitt. Í Finnlandi hins vegar er hjúskaparaldurinn 17 ár fyrir konur, 18 fyrir karla. Danir hafa enn ekki breytt því, sem gilt hefur hjá þeim eins og hér 18 og 20 ár, en eins og ég síðar vík að eru lögin, þó að þau séu nýlega sett, til meðferðar hjá nýrri endurskoðunarnefnd og kemur þá sjálfsagt hjúskaparaldurinn þar til athugunar meðal annarra ákvæða.

Þá eru í núgildandi l. tilteknir sjúkdómar sem hjúskapartálmar. Þeir eru smitandi berklaveiki, holdsveiki, flogaveiki og kynsjúkdómar. Þessi ákvæði slíkra hjúskapartálma hafa verið felld niður á öllum Norðurlöndunum, að því undanskildu, að í Noregi er í l. áskilin skylda til þess að tilkynna eða skýra tilvonandi maka frá, ef aðili er haldinn kynsjúkdómi. Þetta ákvæði er ekki tekið upp í frv. Bann við vígslu geðveikra manna og hálfvita, sem er í núgildandi l. og er fortakslaust, svo sem einnig er um líkamlega sjúkdóma, er samkv. frv. gert undantækt. Gildir sú regla alls staðar á hinum Norðurlöndunum. Þá er í núgildandi l. lagt bann við því að vígja aðila og skyldmenni þess, er hann áður átti, í beinan legg. Þetta bann er fortakslaust í okkar hjúskaparlögum nú, en með frv. er lagt til, að það sé gert undantækt. Hins vegar er ekki tekið í frv. það ákvæði, sem er í núgildandi lögum, að bannað sé að vígja mann og afkvæmi bróður eða systur, nema leyfi dómsmrn. komi til. Þetta hefur verið fellt niður á hinum Norðurlöndunum og þykir sjálfsagt, að svo sé einnig gert hér, þannig að skyldmenni, sem stofna til slíks hjúskapar, þurfa nú ekki að sækja til þess um leyfi.

Í III. kafla frv. er fjallað um hjónavígsluna og hverjir hana framkvæmi. Það er kveðið svo á, eins og einnig er í núgildandi l., að kirkjulega hjónavígslu annist prestar þjóðkirkjunnar og forstöðumenn hérlendra trúfélaga, sem til þess hafa fengið löggildingu rn. Þá er gert ráð fyrir því, að kirkjumálarn. setji, að fengnum till. biskups, reglur um, hvaða prestar innan þjóðkirkjunnar hafi heimild til að framkvæma hjónavígslu. Nú er það svo, eins og hv. alþm. er kunnugt, að prestsþjónustu gegna ekki eingöngu þjónandi þjóðkirkjuprestar, heldur höfum við, t.d. með l. frá síðasta þingi, fengið í lög tekin ákvæði um fangelsispresta og sjúkrahúsapresta og er sem sé í þessari 16. gr. frv. gert ráð fyrir, að reglur séu settar um, hvaða prestar skuli hafa heimild til að framkvæma hjónavígslur.

Þá er í niðurlagi þessarar gr. ákvæði, sem rétt er að vekja athygli á, þar sem segir, að frá 1. janúar 1972 skuli telja þjóðkirkjuprestum, sem látið hafa af prestsembætti, óheimilt að framkvæma hjónavígslur. Þetta mun, að ég ætla, hvergi tíðkast nú í okkar nágrannalöndum, að prestar, sem látið hafa af embætti, framkvæmi hjónavígslur, þó að hins vegar þetta sé orðin löghelguð venja hjá okkur. Þess er skemmst að minnast, að fyrir Hæstarétti féll dómur í máli, sem einmitt snerist um þetta atriði — heimild presta, sem látið hafa af embætti, til þess að framkvæma hjónavígslur og leit Hæstiréttur svo á, að þetta væri orðin löghelguð venja og var því talið, að til þess hjónabands, sem þar var um að ræða, væri löglega stofnað. Hinu verður ekki unnt að líta framhjá, að það verður að teljast heldur óeðlilegt, að embættismenn, sem 1átið hafa af störfum, geti framkvæmt embættisathafnir, sem hafa slíkar réttarverkanir sem stofnun hjúskapar hefur og engum mundi sjálfsagt detta í hug, að embættismenn, sem framkvæma borgaralega vígslu, sýslumenn og bæjarfógetar, hefðu heimild til slíks, eftir að þeir hafa hætt sem embættismenn.

Þá eru í 19. gr. nokkur nýmæli. Það er nú fyrst, að kirkjumrn. geti löggilt íslenzka presta til að framkvæma hjónavígslur erlendis og síðan að utanrrn. geti, að höfðu samráði við dómsmrn., sett reglur um heimild starfsmanna í íslenzkum sendiráðum, sem hafa diplómatíska stöðu, til að framkvæma hjónavígslur erlendis og einnig um heimild ræðismanna Íslands erlendis til hins sama. Borgaralegar hjónavígslur annast sýslumenn, bæjarfógetar og lögreglustjórar. Eins og nú er, mundi þetta því ná til lögreglustjórans í Bolungarvík. Þá mun ekki vera fleira í þessum kafla, sem ég sé ástæðu sérstaklega til þess að minnast á.

IV. kaflinn fjallar um ógildingu hjúskapar. Það var nokkuð um það rætt í n., hvort halda skyldi þessum kafla inni í l., því að það hefur aldrei komið til þess hér á landi, að ákvæðum kaflans væri beitt og hjúskapur ógiltur. Þó þótti eftir atvikum rétt að halda kaflanum í l. með smávægilegum breytingum. Þar með eru m.a. ákvæði 27. gr., sem geta skipt máli í öðru sambandi, sem ég mun síðar koma að.

Þá kem ég að V. kafla frv., sem er um hjónaskilnaði. Í honum felast nokkrar breytingar frá því, sem er í núgildandi l. Það er yfirleitt horfið frá því að láta sakaratriði skipta máli um skilnaðarleyfi eða skilnaðarskilmála, enda að sjálfsögðu oft erfitt að staðreyna slík atriði. Skilnaðarfrestir eru samkv. núgildandi l. þeir, að þegar ár er liðið frá skilnaði að borði og sæng, geta hjón fengið lögskilnað, ef bæði eru sammála um það. Setji annað hvort hjóna sig á móti lögskilnaði, þá getur hann ekki orðið veittur fyrr en 2 ár eru liðin, frá því að skilnaður frá borði og sæng varð. Með frv. er lagt til, að aðeins gildi einn frestur, eitt ár og að þeim tíma liðnum verði lögskilnaður veittur, þó að hjón séu ekki um það sammála.

Þá er þess að geta, að ákvæði um hjúskaparbrot, sem eru lögskilnaðarástæða, eru nokkuð breytt í frv. Samkv. núgildandi l. skal veita lögskilnað, þegar um slíkt er að ræða, en eftir frv. er heimilt að kveða svo á, að eingöngu skuli veita heimild til skilnaðar að borði og sæng, þó að brot sé staðreynd. Þar um veldur mestu tillitið til barna, sem eru sá aðilinn, sem oft og einatt líður kannske mest við hjónaskilnað, en skilnaðarmál í sambandi við hjúskaparbrot eru oft svo mikið tilfinningamál, að fólk rasar oft um ráð fram, eða sá aðilinn, sem misgert er við. Er þessi heimild til þess að staðnæmast við skinað að borði og sæng því hugsuð sem leið til þess að fyrirbyggja fljótráðnar ákvarðanir í þessum efnum.

Þá er í 47. gr. frv. nýmæli, þar sem kveðið er á um umgengnis rétt foreldra við börn. Slíkt ákvæði er ekki í okkar núgildandi l., en hins vegar í 1. ýmissa Norðurlandanna, ef ekki allra. Mér er ekki fullkunnugt um það. Að lokum skal þess svo getið, að í 49. gr. í þessum kafla er rýmkað nokkuð um heimildir til þess að úrskurða framfærslueyri, eftir að lögskilnaður hefur farið fram.

Í VI. kafla frv. eru ákvæði um fjárskipti við hjónaskilnað. Í sambandi við skipti koma þá til greina ákvæði l. um réttindi og skyldur hjóna frá 1923 og ákvæði skiptalaga, enda til þeirra vísað í 1. gr. í þessum kafla, þ.e.a.s. 51. gr. Rétt þótti að taka inn í þennan kafla nokkur önnur ákvæði og það er alveg sérstök ástæða ti1 þess að kveða svo á, að um skipti skuli fara eftir 27. gr. l., þ.e.a.s. eins og þegar skipt er búi, þegar hjúskapur hefur verið ógiltur. Aðalreglan um réttarstöðu hjóna í hjúskapnum og við skilnaðinn er sú, að ef ekki er öðruvísi ákveðið með kaupmála eða af hálfu gefenda eða arfleifenda, sem hjónin hafa fengið frá gjafir eða arf, þá sé um sameign að ræða, sem skiptist til helminga við skilnaðinn. Í þessari gr. er sem sé kveðið svo á, að frá þessu sé heimilt að víkja, ef viss skilyrði eru fyrir hendi, t.d. að helmingaskipti væru bersýnilega ósanngjörn, einkum vegna þess að hjúskapur hefur staðið skamma stund og hefur ekki leitt til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu hjónanna. Þá er einnig í 60. gr. nýmæli varðandi íbúðarhúsnæði, sem hjón hafa á leigu, hvernig um leigurétt skuli fara við skilnað.

VII. kaflinn fjallar um réttarfar í hjúskaparmálum o.fl. Ég sé ekki ástæðu til að víkja sérstaklega að ákvæðum þess kafla.

Ég hef nú hér drepið á nokkur atriði frv., sem hafa að geyma breytingar frá núgildandi 1., en vil að öðru leyti vísa til frv. og þeirrar mjög svo ýtarlegu grg., sem því fylgir.

Lög um stofnun og slit hjúskapar hljóta óhjákvæmilega að tengjast mjög ákvæðum l. um réttarstöðu hjóna — um fjármál hjóna, eins og fólk nefnir þau mál í daglegu tali og notar þá nafn á eldri löggjöf um þessi efni. L. um réttindi og skyldur hjóna, sem eru, eins og ég áður sagði, frá 1923, eru einnig í endurskoðun hjá sifjalaganefndinni og ég vil láta þess hér getið, að væntanlega verður þeirri endurskoðun lokið í haust, svo að unnt verði að leggja fram frv, um það efni fyrir næsta þing.

Ég skal svo að lokum geta þess, að Svíar og Danir, sem nú á allra síðustu árum hafa ýmist breytt verulega sínum hjúskaparlögum eða sett sér ný hjúskaparlög, hafa talið, að þar hafi vart verið nógu langt gengið til þess að samræma lögin því breytta þjóðfélagi, sem við lifum í nú á tímum. Þeir hafa því skipað hjá sér nýjar sifjalaganefndir og ég ætla, að Finnar hafi þegar gerzt aðilar að því samstarfi. Það er enn óráðið, hvort við munum taka virkan þátt í þeirri endurskoðun, eða hvort við munum, að dæmi Norðmanna, fylgjast með þeirri endurskoðun og því samstarfi með áheyrnarfulltrúa.

Herra forseti. Ég sé ekki að svo komnu ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað ti1 2. umr. og hv. allshn.