02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

11. mál, fiskiðnskóli

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það vantar ekki, að þegar um þetta mál er talað, bæði hér innan sala hv. Alþ. og eins á mannfundum annars staðar, þá séu allir sammála um, að hér sé um mikilvægt og brýnt hagsmunamál þjóðarinnar að ræða. En það stingur allmjög í stúf við þá reynslu, sem við höfum af framkvæmdum í þessum efnum og þá sérstaklega nú seinustu 6—7 árin, eftir að skriður komst á þetta mál með skipun þeirrar n., sem hér hefur verið vikið að og framlagningu þess frv., sem hún samdi. En frá þeim tíma og allt til þessa dags hefur raunverulega lítið sem ekkert gerzt í þessum málum, sem umtalsvert er.

Sú ræða, sem hæstv. menntmrh. hélt áðan, var mér að nokkru kunn, af því að ég minnist þess, að hann flutti svo að segja nákvæmlega sömu ræðu, þegar þetta mál var til umr. á síðasta þingi vegna fsp. frá mér um það efni. Þá staðhæfði hæstv. ráðh., eins og hann reyndar gerir nú, að málið hefði engan veginn hlotið þá athugun og þá rannsókn, sem nauðsynleg væri til þess að frambærilegt væri að leggja það fyrir hv. Alþ. Nú er hæstv, ráðh. vafalaust manna kunnugastur því, að með þessu er hann að fella áfellisdóm um samráðh. sinn og samflokksmann, hæstv. núv. sjútvrh., sem hefur haft frv. frá fiskiðnskólanefndinni undir höndum allt frá árinu 1966, án þess, að því er virðist, að gera nokkurn hlut í því að kynna það, hvað þá að koma því á framfæri á hv. Alþ. En það er ekki sízt þeirra mál, flokksbræðranna, hvernig frammistaða hæstv. sjútvrh. í þessu máli er metin og hygg ég, að betri eða óvilhallari dóm um frammistöðu hæstv. sjútvrh. í þessu efni verði tæpast hægt að fá en þann, sem hæstv. menntmrh. lét uppi áðan um undirbúningsleysi málsins.

Hæstv. menntmrh. er með þá afsökun, sem hann raunar hafði í fyrra, að ekki væri ljóst, hvort heppilegt væri, að fiskiðnskóli væri sjálfstæð stofnun, sjálfstæður skóli í skólakerfi okkar, eins og fiskiðnskólanefndin var öll sammála um, að heppilegt væri, — allir þeir menn, sem í fiskiðnskólanefndinni sátu, voru um það sammála — eða hvort bregða bæri á það ráð að setja þetta mikilvæga nám inn í Tækniskólann. Hann talaði enn fremur um, að það þyrfti að vera samhengi í þessari menntun í hinu almenna skólakerfi og það þyrfti að taka afstöðu til þess, hvernig ætti að koma kennslu í fiskvinnslumálefnum inn í hið almenna skyldunám skólanna. Nú vil ég halda því fram, að þótt segja megi, að viss rök hnígi að því, að ekki væri óeðlilegt, að sumir þættir fiskiðnfræðslunnar færu fram í Tækniskóla Íslands, þá séu þau rök þó þyngri á metunum og hafi augljósa kosti umfram það, að stofna til sjálfstæðs fiskiðnskóla, eins og fiskiðnskólanefndin var öll sammála um. Þetta leiðir m.a. af því, að allir kunnugir þessum málefnum eru sammála um, að fiskiðnskóla þurfi að reka í sambandi og samvinnu við starfandi frystihús. Bezt væri að sjálfsögðu, að það yrði gert í sama húsnæðinu, ef það einhvers staðar væri fyrir hendi, a.m.k. í næsta nágrenni þess. Í öðru lagi kemur svo það, sem við hér á hv. Alþ., hvar í flokki sem við erum, höfum verið með miklar áhyggjur af og segjumst allir vilja í einhverju um breyta og það er sú þróun, að yfirleitt hafa skólar landsmanna allir komið hingað til Reykjavíkur, eða svo til allir. Tækniskólinn er hér, eins og menn vita og það eru engin rök, nema síður væri, að það sé nauðsyn á því, að fiskiðnskóli eða kennsla á þeim fræðum þurfi líka að vera í Reykjavík til viðbótar allri þeirri skólastarfsemi, sem hér fer fram. Við í fiskiðnskólanefndinni vorum allir sammála um, og það er í frv. því, sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. flytjum hér, sem er algerlega í samræmi við það frv., sem fiskiðnskólanefndin undirbjó — í því er ákveðið, að skólinn skuli vera á Suðvesturlandi. Og ég fyrir mína parta og fleiri í fiskiðnskólanefndinni höfum látið þá skoðun okkar uppi, að við teljum, að þessum skóla sé bezt fyrir komið í Keflavík af ýmsum ástæðum, sem ég ætla ekki að rökstyðja hér, af því að ég vil ekki lengja umr. með því að fara að telja þau augljósu rök, sem til þess liggja.

Ég held, að þetta stóra mál undirstriki vel, að ekki einungis á æðstu stöðum meðal ráðamanna, heldur og víðast um þjóðfélagið þurfi að knýja fram gjörbyltingu á því hugarfari, sem landsmenn almennt því miður hafa eða virðast hafa til fræðslu í sambandi við fiskvinnslu. Við vitum, að kröfur markaðanna um vöruvöndun eru sífellt harðnandi og fiskvinnsla og fiskiðja í víðtækustu merkingu er, eins og fyrri flm. vék hér að áðan, er að verða sérgreint skólafag víðast hvar með þjóðum, sem vilja starfa af skynsemi að þessum málefnum. Það hlýtur að koma að því hér fyrr en síðar, að sá hugsunarháttur lúti í lægra haldi með þjóðinni almennt, að það sé nægilegt í þessum efnum, að t.d. eldri matsmaður, sem starfar við frystihús, kenni yngri manni, sem kemur inn algerlega ómenntaður, það sem hann hefur lært vegna starfa síns undanfarandi ár. Þessum málum verður aldrei kippt í lag, ef sá hugsunarháttur á að verða viðurkenndur í verki, að ekki sé öðruvísi staðið að þessum fræðslumálum sjávarútvegsins, en gert hefur verið til þessa. Við fengum smá aðvörun um, hvað það getur kostað þjóðina sem heild, ef við ætlum að halda áfram sama sofandahættinum um þetta og verið hefur. Ég á hér við þá skemmdu vöru, sem upplýst var, að seld var á Bandaríkjamarkaði nú fyrir nokkru síðan og vakti talsvert umtal og blaðaskrif hér.

Þessi afskiptasemi eða þessi léttúð í sambandi við framleiðslumál okkar í sjávarútveginum speglast víðar í þjóðlífinu. Það er t.d. eftirtektarvert, að í íslenzkri fræðslulöggjöf, skilst mér, að til séu um 60 löggiltar iðngreinar. En í allri fræðslulöggjöfinni er ekki viðurkennt, að til sé iðngrein, sem heitir fiskiðnaður. Það mun ekki vera stafkrók að finna, er lýtur að þeim mikilvæga málaflokki. Og þó á þessi þjóð kannske ekki meira undir öðru um langa framtíð, en því að okkur takist að þjálfa og fræða starfsfólk fiskiðnaðarins það vel, að við getum í krafti þeirrar þekkingar, sem þetta fólk hefur og vegna þess að við eigum að geta fengið gott hráefni hér við land, framleitt betri vöru, sem við seldum dýrar en aðrir keppinautar okkar og á þann hátt haldið uppi þeim lífskjörum, sem við höfum kynnzt á Íslandi síðustu tvo áratugina og viljum allir reyna að halda. Það eru engir smáræðis hagsmunir, sem eru í húfi, að eitthvað sé gert í þessum málum, svo að um muni.

Ég athugaði litillega, hvað þau fyrirtæki væru mörg, sem þyrftu nauðsynlega á því að halda, að menntaðir yrðu bæði verkstjórar og matsmenn og jafnvel framkvæmdastjórar í sambandi við fiskiðnaðar málefni. Mér sýnist, að í landinu muni nú vera starfandi á milli 90—100 hraðfrystihús, um 200 aðilar, sem framleiða saltfisk á marga markaði, um 180—190 skreiðarframleiðendur eða þeir voru það til skamms tíma, það hefur kannske eitthvað breytzt í þeim efnum, vegna borgarastyrjaldarinnar í Nígeríu. Við munum hafa um 60—70 síldar— og fiskimjölsverksmiðjur í landinu. Við höfum um 15 niðursuðuverksmiðjur í landinu, við höfum tvær lýsishreinsunarstöðvar í landinu og eina lýsisherzlustöð og þar á ofan höfum við upp undir 200 söltunarstöðvar í landinu. Sú mikilvæga starfsemi, sem fram fer í öllum þessum fyrirtækjum og er að langmestu leyti undirstaða þeirra lífskjara, sem við Íslendingar njótum, hún líður öll fyrir það; að það vantar sérþjálfað kunnáttufólk til þess að vinna að þessum verkum. Og fiskiðnskólinn er fyrsta og veigamesta skrefið, sem við getum stigið til þess að bæta úr í þessum efnum.

Nú munu vera starfandi í sambandi við fiskiðnaðinn um 20 verkfræðimenntaðir menn. Flestir þeirra, eða rúmur helmingur, starfar á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Við þyrftum vissulega að hafa fleiri verkfræðinga og verkfræðimenntaða menn, sem störfuðu á þessu sviði, af því að við þyrftum að hafa fleiri rannsóknastofnanir en þá einu, þar sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er. En hlutverk fiskiðnskólans hefur ekki af okkur flm. eða þeim, sem t.d. skipuðu fiskiðnskólanefndina á sínum tíma, verið hugsað slíkt, að þar yrðu framleiddir háskólamenntaðir menn eða þar væru verkefni fyrir háskólamenntaða menn. Hlutverk hans er fyrst og fremst, eins og vikið hefur verið að áður, að mennta menn til þess að geta orðið matsmenn, verkstjórar, framkvæmdastjórar og eftirlitsmenn í þessum fræðum. Það er þar, sem kreppir fyrst og fremst að í þessum efnum. Það er þar, sem slysin geta orðið stærst og okkur dýrust og það er að þessu hlutverki, sem fiskiðnskólinn mundi fyrst og fremst vinna. Hitt er svo annað mál, að víða með þjóðum,— sem lengra eru komnar og eru ríkari en við, fer mikill og verulegur hluti fiskiðnfræðslunnar fram í háskólunum. Og það væri hugsanlegt, að hér við okkar háskóla, Háskóla Íslands, þar sem hefur verið stofnaður vísir að efnafræðideild, mætti taka inn í þá deild eða í samvinnu við hana vissan þátt menntunar í fiskiðnfræðslu og þá fyrst og fremst fyrir fólk, sem ætlaði að starfa í Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eða öðrum hliðstæðum stofnunum, ef þær verða til hér í landinu.

Ég vil svo ekki lengja þessar umr. Ég vil undirstrika, að hér er um mjög mikilvægt málefni að tefla, sem af hálfu hæstv. ríkisstj. hefur verið sýnt vítavert afskiptaleysi á undanförnum árum. Hún hefur algerlega sofið á verðinum og afsakanir eins og þær, sem hæstv. menntmrh. hafði hér frammi áðan, verða ekki teknar lengur gildar af hugsandi mönnum um þessi mál. Nú er það krafa stærri hóps, en nokkru sinni í þessu þjóðfélagi, að einhverjar framkvæmdir verði í þessum efnum, af því að mönnum dugir ekki lengur óljóst tal um eitthvert undirbúningsleysi, sem sagt er, að sé þröskuldur í vegi þessa máls.