02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2665)

11. mál, fiskiðnskóli

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég tel, að þessar umr., sem hafa orðið nokkuð langar, hafi líka orðið gagnlegar, þó að eitt og annað skorti á niðurstöðurnar, til þess að við getum verið ánægðir með þær. Það kannske sannar bezt, það sem ég sagði hér í frumræðu minni um áhuga ríkisstj., að það hefur lengst af verið þannig, meðan þessar umr. hafa staðið nú, á annan klukkutíma, að hér hefur varla sézt nokkur ráðherra í salnum. Lengst mun þó, held ég, hæstv. landbrh. hafa setið undir þessum umr., en auðvitað var hann búinn að fá nóg af þeim, eins og hæstv. menntmrh. virtist líka gera, þó hann hafi í upphafi tekið þátt í umr., en mér skilst, að hann fari með þessi mál núna. Nú sé ég, að hæstv. utanrrh. er kominn í salinn og líklega þá sem fulltrúi ríkisstj. til þess að fylgjast með þessu mikilsverða máli. Ég man nú ekki, hvort hann fór með þetta mál á sínum tíma, þó minnir mig það, að sem sjútvrh. hafi hann e.t.v. skipað n., sem upphaflega fór með þetta mál hér á vegum Alþ., fiskiðnskólanefndina frá 1964. Ég man ekki betur, en að hann hafi þá verið sjútvrh., en fljótlega upp úr því tók eftirmaður hans, hæstv. ráðh. Eggert G. Þorsteinsson, við þessum málum og líklega hafa þau lengst af verið á hans vegum, en nú vill svo til að hæstv. menntmrh. Gylfi Þ. Gíslason kvað vera búinn að taka við þessum málum og hann er að vísu búinn að flytja hér eina ræðu um þetta efni, en svo er hann farinn út úr þingsalnum, áður en umr. er lokið og nokkur niðurstaða fæst í þessu máli. Þó hafa komið hér fram margs konar sjónarmið, sem vissulega hefði verið hollt fyrir ráðh. að hlusta á.

Það er náttúrlega erfitt að fara að taka til umr. ræðu hæstv. menntmrh., að honum fjarstöddum, en því fer fjarri, að ég hafi verið ánægður með margt af því, sem hann hafði að segja. Þó virtist mér það vera niðurstaðan af ræðu hans, að það væri stefnt að því af hálfu hans og ríkisstj., að hægt yrði að taka upp kennslu í fiskiðnfræðum, þ.e.a.s. verkþjálfun fyrir verkstjóra og slíka, á næsta hausti. Gott er, ef satt er. Hins vegar virtist mér af ræðu hæstv. ráðh., að hann og ráðunautar hans vissu ekki enn, í hvaða formi þessi kennsla skyldi vera. Ég held þess vegna, að það standi í öllum aðalatriðum, það sem við höfum lagt til hér, við hv. 2. þm. Reykn., að heppilegast muni vera að halda sig að áliti fiskiðnskólanefndarinnar. Það er áreiðanlega sá bezti undirbúningur, sem þetta mál hefur fengið hingað til og eins og ég sagði í frumræðu minni, þá hef ég enga trú á því, að þetta mál breytist verulega til batnaðar, þó að því verði hent á milli n. og rn. og stofnana nú næstu misseri eða e.t.v. ár. Ég sé ekki, að svo verði, því eins og ég segi, þá hefur þetta mál fengið mjög góðan undirbúning og verið rækilega kynnt stjórnvöldum og það er raunverulega ekki verið að gera annað nú en flækja þetta mál, draga það á langinn og drepa því á dreif.

Hæstv. menntmrh. minntist á það, að það þyrfti að gera eitt og annað hér í verkmenntun eða verknámi á gagnfræðastigi o.s.frv. Þessi skóli, sem við flytjum frv. um, fjallar engan veginn um það, hvaða nám skuli stunda á gagnfræðastigi. Það er mál út af fyrir sig. Ég er því alveg sammála, að það er mikil nauðsyn á því að taka verknámið til endurskoðunar og að gera verknámsdeildir gagnfræðaskólanna miklu virkari, en þær eru og raunverulegar verknámsdeildir, en ekki að þær séu kannske bekkir fyrir tornæmari nemendur, eins og nú virðist vera framkvæmt í ýmsum gagnfræðaskólum. Vissulega er þörf á því að breyta þarna til, en þessar vangaveltur mega ekki verða til þess, að menn horfi fram hjá aðalmálinu, sem vitanlega er það, að við fáum það þjálfaða starfslið í frystihúsin og fiskvinnslustöðvarnar, sem brýn nauðsyn er til. Við erum áreiðanlega að því leyti til mjög á eftir öðrum þjóðum, sem reka slíkan iðnað og hljótum og verðum að taka þær til fyrirmyndar í þessu efni. Það hefur líka komið fram hér, eins og raunar oft áður, að við stöndum ekki vel að vígi með menntun starfsfólks í fiskiðnaðinum, sem er þó okkar höfuðatvinnugrein.

Hv. 3. þm. Sunnl. flytur frv. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Ég minntist á það í ræðu minni áðan og taldi þá, að það væri mjög lítill munur á þessum frv., því, sem við flytjum, hv. 2. þm. Reykn. og ég og því frv., sem hann flytur og ég hygg nú, að ég breyti ekki skoðun minni um það, að þessi munur er ekki meiri en svo, að ef hans till., þar sem á milli ber, þykja fýsilegri, þá held ég, að það væri fyllilega á valdi þn. að breyta því. Það ber nú ekki meira á milli en svo, því um öll höfuðatriðin, markmið skólans o.s.frv., ber lítið eða ekkert á milli. Um það atriði, hvort skólinn eigi að starfa í eigin húsakynnum eða kannske í leiguhúsnæði til að byrja með, þá finnst mér þetta ekki skipta öllu máli, en þó hygg ég, og raunar kom það fram í ræðu hv. þm., að vitanlega verði að lokum svo, að skólinn hljóti að starfa í sínum eigin húsakynnum og hafa sína eigin fiskvinnslustöð — ráða sem sagt sínum húsum og sinni aðstöðu að öllu leyti sjálfur. Það tel ég ákaflega mikið atriði og ég held, að þó auðvitað sé rétt að fara af stað með allri gætni og skynsemi, þá verðum við þó að hafa hug til þess, Íslendingar að búa þannig að þessum skóla frá upphafi, ef við á annað borð reisum hann, að það sé sómasamlegt miðað við það, hvað í húfi er og miðað við það hlutverk, sem honum er ætlað, en það er að efla fiskiðnað okkar, sem er undirstöðuatvinnugreinin í landinu.

Um staðsetningu þessa skóla skal ég ekki verða fjölorður. Við flm. þessa frv. ákváðum það að leggja til grundvallar að öllu leyti álit fiskiðnskólanefndarinnar og þar á meðal að leggja þetta frv. fyrir óbreytt, eins og hún hafði samið það. Ég tel, að það sé það góður nauturinn að þessu frv., að við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir það að bjóða upp á það og ég vil endurtaka það, að ég hef enga trú á því, að það muni neitt lagast eða breytast svo til batnaðar, þó að það gangi nú á milli nýrra n., að það svari kostnaði að láta málið bíða. Hvað varðar staðsetningu þessa skóla, þá breyttum við heldur ekki þeirri grein frv., sem um það fjallar. Og þó að ég sé þm. Norðlendinga, þá sé ég enga ástæðu til þess að fara að gera það að neinu sérstöku kappsmáli, að þessi skóli verði þar niður settur út af fyrir sig. Ég tel það höfuðatriðið, að við fáum slíkan skóla í landið og vissulega þyrfti hann að vera þar í sveit settur, þar sem fjölbreytt fiskframleiðsla á sér stað. Það er án efa mikið atriði og vissulega eru slíkir staðir víða um landið og þeir eru hér suðvestanlands rétt sem annars staðar, ekki endilega í Reykjavík. Það eru til fleiri staðir. Hins vegar ef Sunnlendingar geta ekki komið sér saman um staðarvalið, þá get ég bent þeim á, að við fyrir norðan mundum vel þiggja það að fá fiskiðnskólann settan niður þar.

Ég skal nú ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. En í tilefni af því, að hæstv. menntmrh. lagði til, að þetta mál gengi til menntmn., þá vil ég fyrir mitt leyti segja það, að ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því. Þó tel ég, að sú till., sem ég gerði, um að málið gengi til sjútvn., sé fullt eins eðlileg. En ég skal ekki gera þetta að ágreiningsefni og jafnvel fela það á vald hæstv. forseta að skera úr því.