16.12.1970
Neðri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

59. mál, sala á íbúðum framkvæmdanefndar byggingaáætlunar

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 259, hefur heilbr.- og félmn. haft þetta mál til athugunar og mælir með, að það verði samþ. óbreytt. Efni frv. gerir ráð fyrir, að lögfest verði ákvæði hliðstæð því, sem áður var í l. um verkamannabústaði, þannig að Húsnæðismálastofnun ríkisins fái nú forkaupsrétt að þeim íbúðum, sem byggðar hafa verið af framkvæmdanefnd byggingaáætlunar — þó þannig, að íbúðareigendur fái hækkun miðað við það, sem þeir hafa greitt niður af lánum frá húsnæðismálastjórn, sem hvíla á íbúðunum, og eru reglurnar um það, eins og ég sagði, samhljóða því, sem var í l. um verkamannabústaði. Þetta frv. gerir einnig ráð fyrir, að sams konar ákvæði gildi varðandi þær íbúðir, sem byggðar hafa verið eftir þeim kafla l. um húsnæðismálastjórn, sem fjallar um íbúðir, sem byggðar hafa verið vegna útrýmingar á heilsuspillandi íbúðum nema að því leyti, að þar hafi sveitarstjórnir forkaupsrétt að íbúðum, ef til sölu þeirra kemur.