23.03.1971
Neðri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. ég vil taka það fram í upphafi, að ég hef rökstudda von um það, að menntmrh. geti mjög fljótlega komið hér, af því að hann hefur sjálfur áhuga á að vera við þessa umr. og taka þátt í henni.

Frv. það, sem hér er um að ræða, er um Námskostnaðarsjóð. Nú á síðustu árum hefur athygli Alþ. og raunar þjóðarinnar allrar mjög beinzt að því, að ungmenni hafa mismunandi góða aðstöðu ti1 að sækja skóla eftir því, hvar búseta þeirra er á landinu. Alþ. hefur sýnt áhuga sinn með því að veita fyrst á fjárl. 1970 10 millj. kr. til að styrkja námsfólk, sem varð að sækja skóla fjarri heimilum sínum og á fjárl. fyrir 1971 voru 15 millj. veittar í sama skyni. Ekki fylgdi það ákvörðunum Alþ., hvernig ætti að úthluta þessu, nema hin almenna skilgreining, til hvers féð væri ætlað og hefur því menntmrn. orðið að þreifa sig áfram um leiðir til þess að úthluta þessu fé. Hefur komið í ljós, að það er engan veginn einfalt mál að finna leiðir til þess að úthluta slíkum fjármunum, hvort sem það eru 10—15 millj. eða meira, og má segja, að það sé unnið að þessu á algeru byrjunarstigi nú á öðru ári, sem slíkar fjárveitingar eru veittar.

Hv. flm. þessa frv. eru samt það stórhuga, að þeir vilja nú þegar ákveða allmikla fjáröflun, sem að vísu er nú m.a. með því að taka hluta af ágóða Áfengisverzlunarinnar, svo og að ríkissjóður leggi fram ákveðna upphæð fyrir hvern íbúa landsins og verður því ekki sagt, að hér sé um sérlega frumlegar eða nýjar fjáröflunarleiðir að ræða, heldur tvær þær lindir, sem sótt er í fyrir svo að segja öll góð mál, sem hér eru rædd. Þeir hafa enn fremur viljað setja upp ákveðinn sjóð til þess að annast þetta hlutverk.

Menntmn. hefur klofnað í afstöðu sinni til þessa máls og eins og svo oft áður, er ekki ágreiningur um þá þörf, sem þarna er fyrir hendi og ekki ágreiningur um það, að Alþ. eigi að gera það, sem það framast getur til þess að bæta úr þeirri þörf. Meiri hl. menntmn. hefur tekið þá afstöðu, að það sé of snemmt að ákveða framtíðarskipan þessara mála með lagasetningu um sjóð og starfsemi hans. Nú sé verið í annað skipti að úthluta fé í þessum tilgangi, það sé að fást í fyrsta skipti örlítil reynsla af fangbrögðum við þetta erfiða viðfangsefni og það sé rétt að hinkra við og sjá, hver þessi reynsla verður, áður en mál þessi eru sett í það fast form að mynda sjóð og setja um hann löggjöf. Á þessum grundvelli er það till. meiri hl., að frv. sé vísað til ríkisstj.

Nú hefur það gerzt, eftir að það kom í ljós í n., að hún mundi klofna um málið, að þar var ekki þörf á frekari umr. og eftir að meiri hl. skilaði sínu áliti skilaði minni hl. ekki aðeins álitsgerð, heldur og till. Og í þessari till. er málinu breytt frá því að fjalla um erfiðleika þeirra nemenda, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum meðan á námi stendur, í það að bæta þar við „eða eiga við erfiðar fjárhagsástæður að búa af öðrum ástæðum.“ Upphaflega er málið flutt eingöngu um þá nemendur, sem eiga í erfiðleikum vegna þess, að þeir verða að dveljast fjarri heimilum sínum. En með þessari einu till., sem kemur fram svona seint, er málinu raunverulega gerbreytt og það er stækkað margfaldlega með því, að þar eru teknir með allir þeir, sem eiga við erfiðar fjárhagsaðstæður að búa af öðrum ástæðum.

Nú skal ég síður en svo andmæla því, að þetta sé kannske kjarninn í málinu öllu, það er, hvernig eigi að jafna aðstöðu manna, hvort sem aðstöðumunurinn stafar af búsetu eða öðrum ástæðum. Það hafa að vísu verið í l. alllengi ákvæði, sem fyrirskipa ríkisvaldinu, eða heimila því a.m.k., að jafna slíkan mun, en þau ákvæði hefur aldrei verið unnt að framkvæma. Og eitt af stóru atriðunum í sambandi við lagasetningu um skipan skólamála, sem bíður næstu þinga verður að finna þessu eitthvert form. En ég vil benda á það, hversu lausar hugmyndir flm. þeirra, sem skipa minni hl. menntmn., eru í sambandi við þetta, að málið skuli geta vaxið svona gífurlega í höndum þeirra, svona rétt á meðan þeir skrifa niður fjögurra línu till., eftir að búið er að afgreiða málið í n. og eftir að meiri hl. er búinn að skila áliti sínu. Þetta er sem sagt kjarni ágreiningsins.

Þetta frv. er sett fram af mjög góðum vilja, það efast ég ekkert um. Það er sett fram af mjög einlægri ósk um það að reyna að ýta áfram allri viðleitni til að jafna aðstöðu nemenda. En þegar málið vex svo í höndum flm., sem hér sýnir, þá tek ég það sem dæmi þess, að hugmyndir þeirra séu ekki verulega fast mótaðar og hitt muni vera hyggilegra, sem við leggjum til, að mál þetta verði örlitið betur athugað, bæði af yfirvöldum og hér á Alþ. — að það verði fengin meiri reynsla, áður en við setjum lög um það, á hvern hátt við ætlum að glíma við þessi verkefni. Það er þegar, eins og ég sagði í upphafi, búið að veita á tveimur árum 25 millj. kr. í fyrsta skipti til þess að koma til móts við þetta vandamál og það er þegar verið að vinna að því og það er þegar verið að safna saman reynslu og þekkingu, þannig að málið stendur engan veginn kyrrt. Það er sem sagt till. meiri hl. menntmn., að málinu verði vísað til ríkisstj.