25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið til 2. umr. um sinn og eitt og annað verið sagt í því sambandi. Nú hefur hæstv. menntmrh. flutt hér ræðu, þar sem hann vill leysa þetta mikla mál, sem hér er formað í frv. um Námskostnaðarsjóð, með auknum Fjölskyldubótum og barnalífeyri. Að öðru leyti tók hæstv. ráðh. jákvætt undir höfuðefni þessa máls eða það markmið, sem þetta frv. stefnir að. Því miður er þessi lausn hæstv. ráðh. um það að leysa þessi mál með auknum fjölskyldubótum og barnalífeyri svo nýlega tilkomin hugmynd, að það er dálítið erfitt að ætla sér að ræða hana. Vel má vera, að í þessu felist einhver lausn, en fljótt á litið sé ég ekki, að þar sé um heppilegri aðferð að ræða en við flm. frv. bendum á með stofnun sérstaks Námskostnaðarsjóðs, sem hafði það markmið að greiða beinlínis þann kostnað, sam sannanlega hlýzt af því, að börn og unglingar verða að sækja skóla fjarri heimilum sínum, auk þess sem nýtt kæmi til, ef samþ. yrði brtt. frá minni hl. menntmn. um það að gera nemendum kleift að sækja skóla, sem af fjárhagsástæðum geta ekki sótt skóla, þó að þeir búi nálægt þeim. Sem sagt, ég hygg, að það þurfi að athuga mjög gaumgæfilega og nánar þessa hugmynd hæstv. ráðh. um það að leysa málin með fjölskyldubótum og barnalífeyri. Mér lízt þannig á, að þar sé sízt um færari leið eða betri að ræða fyrir almenning en það, sem við höfum bent á.

Þetta mál um að jafna aðstöðumun til náms hefur verið til umr. hér á hv. Alþ. nú um langt skeið og víða verið rætt í þjóðfélaginu og það má segja, að hér sé um viðurkennt vandamál að ræða, sem úr þurfi að bæta. Þetta mál var fyrst vakið hér á Alþ. árið 1965, þegar þrír þm. Framsfl. fluttu till. til þál. um ráðstafanir til þess að draga úr þessum mun. Síðan hefur málið verið til umr. með einum eða öðrum hætti hér á hv. Alþ. öll þessi ár og nú síðast er þess að minnast, að þetta mál er sérstaklega tekið fyrir í skólamálafrv. ríkisstj., sem fram komu í vetur og þar er lögð á það sérstök áherzla, að nauðsynlegt sé að stefna að því að jafna þennan aðstöðumun, og má telja, að það sé eitt höfuðatriði þessara frv. Að vísu eru ýmsar leiðir til úrbóta í því að jafna aðstöðumun nemenda til náms og hæstv. ráðh. hefur komið hér inn á sumar þeirra, eins og það að byggja skóla sem víðast um landið. Það er að sjálfsögðu ein leiðin og sú leið er yfirleitt farin hér á landi og hefur verið farin ætíð. En einnig er hægt að jafna hinn fjárhagslega aðstöðumun, sem leiðir af því, að nemendur verða að sækja skóla utan heimilis, með beinum fjárframlögum. Og þriðja atriðið er svo það, sem minni hl. menntmn. bendir á, það er að styrkja þá nemendur til náms, sem ekki geta stundað nám vegna fátæktar.

Það er búið að ræða svo mikið og almennt um þetta mál, að ég veit ekki, hvort ástæða sé til að fara um það fleiri orðum að því leyti. En mig langar til í sambandi við þessar umr. að minna á það, að námsaðstoð hér á landi er mun minni en nú tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, a.m.k. á þeim Norðurlandanna, sem búa við svipuð skilyrði og við, sem eru þá fyrst og fremst Noregur og Svíþjóð. Þar nær námsaðstoð til miklu fleiri námsmanna, en gerist hér á landi. Það má segja, að við séum alltaf í sama farinu að því leyti, að námsaðstoðin nær fyrst og fremst til háskólastúdentanna og þeirra, sem eru í lengra námi, en aftur á móti verða aðrir nemendur og hinn fjölmennari hópurinn, þarna út undan. Og það er einmitt það, sem við höfum viljað leiða athygli að með þessu frv., að úr þessu þurfi að bæta. Námsaðstoðarkerfið þarf að vaxa og það þarf að ná til miklu fleiri sviða en nú gerist. Að því leyti getum við lært af frændum okkar á Norðurlöndum, ekki sízt af Svíum og Norðmönnum, því að báðar þessar þjóðir eru komnar mjög langt á þessu sviði og Svíar líklega manna lengst. Þeir hafa verið frumkvæðisþjóð í þessum efnum, að jafna aðstöðumun til náms og forustuþjóð. Um allmörg ár hafa gilt lög og reglur í Svíþjóð um mjög víðtæka námsaðstoð, sem ekki nær aðeins til háskólastúdenta og annarra langskólamanna, heldur til allra framhaldsskólanemenda og raunar nemenda á lægri skólastigum. Og þarna er um að ræða bæði námslán og bein námslaun samkv. þeim l., sem gilda í Svíþjóð um þessi efni. Eins og eðlilegt má teljast, þá njóta háskólastúdentar og þeir, sem eru líkt settir og háskólastúdentar, hvað beztra kjara í þessu sambandi og þar er beinlínis gert ráð fyrir því, að samanlögð lán og laun svari normal námskostnaði, þannig að nemandi geti gefið sig óskiptan að náminu. Þetta er um þær reglur eða þau lög, er gilda um námsaðstoð í Svíþjóð, að segja.

En ef við lítum líka til Noregs, því að Norðmenn hafa sett sér mjög víðtækar reglur um þessi efni, þá er um það að segja, að þar hefur orðið gerbreyting nú á síðustu árum og Norðmenn hafa tekið þessi mál mjög föstum tökum. Þeir hafa sífellt verið að byggja ofan á námsaðstoðarkerfi sitt. Þar var byrjað svipað og hjá okkur, að styrkja háskólastúdenta og námslánasjóður Noregs var stofnaður fyrir um það bil 25 árum og var þá fyrst og fremst ti1 styrktar háskólastúdentum, en eftir 1956 hefur þessi sjóður verið stórefldur og hann hefur smám saman verið látinn ná til fleiri námsmanna. Og það síðasta, sem ég veit til að gerzt hafi í Noregi í þessum efnum, er það, að í júli 1969 voru sett ný lög um námsaðstoð til nemenda, sem stunda nám í framhaldsskólum og sérskólum, auk þess sem í hinum almennu fræðslulögum eru ákvæði um það, að allur aukakostnaður vegna náms barna og unglinga á skyldunámsstigi sé greiddur af hinu opinbera, þ.e.a.s. dvalarkostnaður, ferðakostnaður og fæðiskostnaður.

Af þessu má sjá, að námsaðstoð í Noregi er miklu viðtækari en gerist hér á landi og er það ekkert sambærilegt. Þannig að fólk, sem stundar nám í gagnfræðaskólum, í lýðháskólum, í menntaskólum, á ýmsum tæknilegum undirbúningsnámskeiðum, — slíkir nemendur geta notið námsaðstoðar og þannig koma undir þetta margs konar sérskólar, eins og húsmæðraskólar, fóstruskólar, búnaðar—, garðyrkju— og skógræktarskólar, námskeið í meðferð landbúnaðarvéla, stýrimannaskólar, loftskeytaskólar, vélstjóraskólar, matsveinaskólar, verkstæðisskólar, norski niðursuðuskólinn, listiðnskólinn, eða handiðaskólinn norski, listaskólar, verzlunarskólar og kennaraskólar einnig. Þess er líka að geta, að Norðmenn hafa í sínum lögum ákvæði um það, að styrkja megi efnalitla nemendur af þessum sjóði. Það er heimilt að styrkja nemendur, sem eiga efnalitla foreldra, svo að ákvæðið sé tekið beint upp sem eiga efnalitla foreldra, þótt þeir búi hjá þeim. Á þetta fyrst og fremst við nemendur upp að 12. skólaári. Einnig er heimilt að styrkja efnalitla háskólastúdenta og sérskólanemendur eftir þessari grein, ef þeir eiga við sérstaklega erfiðan fjárhag að stríða og þunga framfærslubyrði. Og þetta er til viðbótar þeim möguleikum, sem stúdentarnir hafa til lána úr námslánasjóði. En þessi norsku lög, frá 10. júní 1969, sem ég var að minnast á, heita í lélegri þýðingu: Lög um stuðning við æskufólk, sem stundar framhaldsnám. Og þetta eru mjög víðtæk lög. En eins og ég sagði áðan, þá er einnig gert ráð fyrir því í grunnskóladögunum norsku, að börn og unglingar á skyldunámsstigi njóti ókeypis skólanáms að öllu leyti. En samkvæmt lögunum um stuðning við æskufólk, sem stundar framhaldsnám, eru þar bæði ákvæði um styrki og námslán. Þar er að finna ákvæði um ferðastyrki til nemenda, um dvalarstyrki þeirra, sem verða að sækja skóla utan heimilis, styrk til efnalítilla, styrk vegna skólagjalda og bókakaupa o.s.frv., styrk til listnáms, námslán og fleira, sem geta mætti um. Þannig að augljóst er, að námsaðstoðarkerfið í Noregi er mun víðtækarak, en gerist hjá okkur og ég fæ ekki betur séð en Norðmenn séu komnir miklu lengra á því sviði að greiða allan aukakostnað, sem leiðir af skyldunámi. En það er einmitt sú hugsun, sem ekki sízt liggur á bak við það frv., sem hér er flutt, að allur slíkur aukakostnaður verði greiddur af hinu opinbera og fyrr getum við ekki talað um ókeypis skólavist á Íslandi eða um fullkomið lýðræði, „demókratiseringu“, í okkar fræðslukerfi.

Svo að ég víki beint að frv. um Námskostnaðarsjóð, sem hér liggur fyrir, þá er efni þess það, að lagt er til að lögfesta reglur um jöfnun aðstöðumunar í námi og er lagt til að afla fjár í þessu skyni með sérstökum hætti. Það er ekki meiningin að leggja byrði á ríkissjóð alfarið, án þess að sjá fyrir tekjum í þennan sjóð. 1. flm. frv. hefur gert mjög rækilega grein fyrir því, en svo virðist sem meiri hl. hv. menntmn. hafi ekki gert sér grein fyrir þessu atriði, að þarna er um að ræða sérstaka fjáröflun, sem full ástæða er til þess að vekja athygli á og ræða. En sú fjáröflun, sem þarna er um rætt, er annars vegar, sérstakt álag á áfengis— og tóbaksvörur og á öl og gasdrykki. Með þessu álagi má gera ráð fyrir, að fá megi verulegt fé, líklega svo að skiptir tugum milljóna. Þá er einnig gert ráð fyrir sérstöku framlagi úr ríkissjóði, sem mundi nema um 30 millj. kr., ef þessi ákvæði yrðu lögfest. Nú er þegar búið að ákveða að greiða úr ríkissjóði 15 millj. kr. þannig að hækkunin á beinu framlagi ríkissjóðs yrði þá ekki nema um þessar 15 millj. og fæ ég ekki séð, að þar sé um neina sérstaka ofrausn að ræða.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál almennt, en ég tel það miður farið, að hv. menntmn. skyldi ekki taka frv. öðrum tökum og ræða það með öðrum hætti. Það má vel vera, eins og oft er um frv., sem fram eru lögð, að þau eru ekki alfullkomin og það getur verið ástæða til að breyta þeim og oft er það svo, að þegar n. leggja sig fram, tekst þeim að bæta frv., sem fram eru lögð. Við höfum fyrir okkur ýmis dæmi um það, án þess að ég ætli að nefna nokkur sérstök. Þó vil ég nefna frv. um Fiskvinnsluskólann, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram um daginn. Það hefur gengið með miklum hraða, ánægjulegum hraða, í gegnum þá þn., sem hafði málið til meðferðar og með þeim hætti, að ég tel, að frv. hafi stórlega batnað í meðförum n. Sama held ég, að hefði mátt ske í hv. menntmn., að hefði þetta frv. okkar um Námskostnaðarsjóð verið rætt með sama hugarfari, hefði sjálfsagt mátt bæta úr einhverjum á göllum, sem á því kynnu að vera og afgreiða það hér jákvætt og samhljóða út úr deildinni.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð að sinni, en endurtek það, að mér þykir miður, að hv. menntmn. skyldi ekki sjá sér fært að mæla með samþykkt frv.