25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Inn í þessar umr. hefur blandazt tal um störf n., sem fjallað hefur um úthlutun þeirra 10 millj., sem á síðasta ári voru ætlaðar til þess að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli, og síðasti hv. ræðumaður gerði einnig grein fyrir, að þessi fjárhæð hefur nú verið hækkuð í fjárl. yfirstandandi árs í 15 millj. Hv. 1. þm. Vestf. vék að störfum n., sem úthlutar þessu fé og gerði heldur lítið úr þeim styrkjum, sem þarna koma fram. Hv. þm. nefndi, að þriðjungur þeirra nemenda, sem hlotið hefðu styrk, hefðu einungis fengið kr. 1.323 hver. Með því að hv. þm. nefndi ekki annað, en þennan hluta styrkþega, má skilja þetta á þann veg, að með þessu væri gerð tilraun til að halla réttu máli, því að auðvitað hefði hann átt að geta einnig hinna, sem hærra fengu. Hið rétta er, að alls var úthlutað til nálægt 1.500 nemenda, en skýrsla um það liggur ekki endanlega fyrir enn þá, vegna þess að styrkbeiðnir, sem komu fram seint og allt fram á þetta ár, hafa verið afgreiddar allt til þessa, en nú verður þó að segja, að það fé, sem til þessa var ætlað, er þrotið. Til mótvægis við það, sem hv. þm. nefndi, má nefna, að helmingur styrkþega hlaut 10.647 kr. í styrk, en meðaltal allra styrkja var rúmlega 7.000 kr. Styrkirnir voru, sem kunnugt er, bæði ferðastyrkir og dvalarstyrkir og það leiðir af sjálfu sér, að þeir sem fengu einungis ferðastyrki, hlutu mun lægri fjárhæð.

Á yfirstandandi ári er ætlað að verja 15 millj. til þessara hluta og hafa þegar verið send út umsóknareyðublöð. Umsóknir eru að berast til rn. og úthlutun er þegar hafin til þeirra skóla, sem ljúka kennslu fyrr en almennt gerist. Stefnt verður að því af hálfu n. að ljúka þessari úthlutun það tímanlega, að nemendur geti fengið þessa styrki áður en þeir hverfa heim úr skólum í vor. Reglum um úthlutun hefur nokkuð verið breytt. Þar er gert ráð fyrir að taka upp ferðastyrki til tveggja ferða í stað einnar áður, þannig að nemendur fái nú ferðastyrk fyrir ferð heim í jólaleyfi. Enn fremur er ferðastyrkur hækkaður um 20% vegna hækkana á fargjöldum. Dvalarstyrkur verður hins vegar óbreyttur eða 1.200 kr. á mánuði, en með því að hækka ferðastyrkina umfram dvalarstyrkina, þá má ætla, að komið sé meir til móts við þá nemendur, sem langt þurfa að sækja og hafa þar með erfiðustu aðstöðuna til þess að sækja skólanám. Reglunum hefur auk þess nokkuð verið breytt á þann veg, að þetta fé nýtist sem bezt í samræmi við hinn eiginlega tilgang þess, þ.e.a.s. til þess að bæta aðstöðu þeirra nemenda, sem verst skilyrði hafa til þess að sækja skóla og leggja í mestan kostnað við það.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, vegna þess að ég á sæti í þeirri n., sem fjallar um úthlutun þessa fjár og með tilliti til þeirra orða, sem ég greip úr ræðu hv. 1. þm. Vestf.