27.10.1970
Neðri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

30. mál, verðstöðvun

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Með frv. á þskj. 30 leggjum við þm. Alþb. í Nd. til, að nú þegar verði sett löggjöf um verðstöðvun. Meginefni frv. er í ranuinni tekið upp úr eldri verðstöðvunarlögum, sem hér hafa verið sett. Þó eru atriðin varðandi verðstöðvun gerð í þessu frv. nokkru ákveðnari. Þarna er um nokkur fyrirmæli að ræða beinlínis um verðstöðvun, þar sem áður var um að ræða heimildir ti1 handa ríkisstj., svo að segja má, að þetta frv. er að öllum búningi nokkuð svipað því, sem hliðstæð frv. hafa verið samþykkt um áður hér á landi.

En aðalefnið er hins vegar það, eins og skýrt kemur fram í grg. frv., að gengið er út frá því, að ákveðin verði almenn verðstöðvun, sem miðist við 15. október nú á þessu ári og skuli gilda fram til 1. september á næsta ári. Það er þó gengið út frá því, að verðlagsyfirvöld og stjórnarvöld geti í einstaka tilfellum vikið frá þessari verðstöðvun, þar sem óhjákvæmilegt þykir. Það er einnig gert ráð fyrir því í frv., að breytingar á ýmsum opinberum gjöldum skuli falla undir verðstöðvunina, þar skuli sem sagt gilda hliðstæðar reglur og áður hafa gilt um álagningu nokkurra opinberra gjalda. Það fer væntanlega ekki fram hjá neinum hv. alþm., hvaða ástæður liggja til þess, að frv. sem þetta er nú flutt. Á þessu ári hafa gengið yfir óvenjulega miklar verðhækkanir og þessar verðhækkanir eru enn að ganga yfir og það er í rauninni öllum kunnugt, að fjöldamargir aðilar bíða enn eftir því að fá leyfi til þess að hækka verðlag á vörum og þjónustu, en hafa ekki fengið sín mál afgreidd enn að fullu, svo að það má enn búast við áframhaldandi verðhækkunum til viðbótar við það, sem komið er, nú á næstunni, verði ekki gerðar sérstakar ráðstafanir til, til þess að koma í veg fyrir þær. Glöggt dæmi um það, hvað þessar verðhækkanir hafa að segja, er það, sem nefnt er hér í þessu frv. eða í grg., að það er talið, að breytingar á almennu kaupgjaldi í landinu verði svo miklar, að sé miðað við það kaupgjald, sem almennt var greitt í maímánuði á þessu ári og síðan aftur við það kaup, sem sennilegt er, að eigi að greiða, þegar kemur fram í desembermánuð á þessu ári, þá má búast við því, að kauphækkunin verði í krónum talið í kringum 32% hækkun. Þó liggur það fyrir, að almennt kaupgjald verkafólks hefur ekki verið hækkað nema sem nemur 15–18% og þrátt fyrir svona mikla hækkun á kaupi í krónum talið, er sem sagt ekki um að ræða hækkaðar rauntekjur þessa vinnandi fólks nema sem nemur kringum 15, 16 eða kannske í mesta lagi 18%. En kaupgjaldsbreytingar, sem verða á ekki lengri tíma, en þessum og nema kringum 32%, hljóta vitanlega að hafa sín áhrif í ýmsum greinum atvinnulífsins og er ákaflega hætt við, að það leiði til þess, að í vissum greinum geti orðið hér um vandræði að ræða.

Það er enginn vafi á því, að þær kauphækkanir, sem samið var um í júnímánuði á s.1. sumri og námu, eins og ég hef sagt, í kringum 15–18%, voru ekki meiri en rétt til þess að jafna þá kauplækkun, sem knúin hafði verið fram á árunum 1968 og 1969, en talið var, að á þeim tíma hefði raunkaup eða kaupmáttur launa raunverulega lækkað í kringum 18% hjá mjög mörgum aðilum, auðvitað nokkuð mismunandi eftir því, hvar þeir voru í launastiga. Þegar það er nú einnig haft í huga, hvernig aðstæður voru í okkar efnahagslífi um það leyti, sem þessar kauphækkanir voru gerðar, þá held ég, að það ætti ekki að leika neinn vafi á því, að það voru öll skilyrði til þess að geta staðið undir þessari kauphækkun, sem þá var samið um, án þess að til meiri háttar efnahagsörðugleika hefði átt að koma. Það lá þá fyrir, að um mjög verulega framleiðsluaukningu var að ræða í þýðingarmestu framleiðslugreinum þjóðarinnar og það lá einnig fyrir, að þýðingarmestu útflutningsvörur okkar höfðu hækkað mjög verulega í verði. Þessi bætta ytri aðstaða í efnahagslífinu átti að veita möguleika til þess að tryggja í reynd kauphækkunina. Og menn höfðu gert sér vonir um það, að atvinnureksturinn í landinu almennt séð gæti tekið á sig þessa kauphækkun, bæði með tilliti til þess, að kaupið hafði áður verið lækkað sem þessu nam og svo vegna breyttra ytri aðstæðna í efnahagsmálum, þá gæti atvinnureksturinn tekið á sig þessa kauphækkun, án þess að hann þyrfti yfirleitt að heimta meira sér til handa en áður var. En reynslan hefur hins vegar orðið þessi, sem allir vita, að verðlag hefur hækkað í flestum greinum mjög mikið frá því að þessir kaupgjaldssamningar voru gerðir. Verðlagsyfirvöldin í landinu hafa veitt heimild til verðhækkana, opinberir aðilar hafa breytt verði á vörum og þjónustu í ýmsum tilfellum, sem þeir ráða yfir og svo hafa þeir aðrir, sem ekki eru beint undir neinu verðlagseftirliti, ákveðið sjálfir verðhækkun, sér til handa. Og því stöndum við nú frammi fyrir þessum miklu verðhækkunum og þeim vanda, sem þeim fylgir.

Við, sem stöndum að þessu frv., gerum okkur fyllilega grein fyrir því, að verðstöðvun ein út af fyrir sig leysir ekki allan þann vanda, sem við er að glíma í þessum verðbólgumálum. Hún er í eðli sínu aðeins frestun á tilteknum vanda. En við álítum, að þannig sé nú ástatt, að það sé nauðsynlegt að taka þennan frest, stöðva með beinu banni frekari verðhækkanir og snúa sér síðan að því að reyna að setja ákvæði um varanlegri ráðstafanir, sem gætu miðað að því að hamla gegn verðbólguvexti eða jafnvel að því að lækka verðlag í ýmsum tilfellum. Það er enginn vafi á því, að það eru uppi misjafnar skoðanir um það, til hvaða ráðstafana eigi helzt að gripa í þessum efnum. Í grg. frv. bendum við á nokkrar ráðstafanir, sem við teljum, að ætti að grípa til. Við nefnum t.d. það, að það þurfi að setja hér lagaákvæði, sem miði að því, að það sé hægt að skattleggja verðbólgugróða. Á meðan það stendur, að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu geta sannanlega stórgrætt á verðbólgunni, þá er mjög hætt við því, að þá verði þrýstingurinn á það, að verðbólgan fái að halda áfram, æðimikill. Það er að vísu rétt, að það getur verið nokkrum vanda bundið að setja réttlátar reglur um það, hvernig skuli skattleggja verðbólgugróðann og hvað skuli í rauninni í hverju einstöku tilviki flokkast undir verðbólgugróðann. En eigi að síður þarf að setja um þetta reglur, sem miði sterklega að því að koma í veg fyrir það, að einstaka aðilar geti grætt verulega á verðbólgunni. Við teljum, sem flytjum þetta frv., að það sé mjög erfitt að setja reglur í þessu skyni án þess að fyrst fari fram almenn eignakönnun í landinu og fyrir geti legið nokkuð rétt mat á því, hverjar eignir hinna einstöku aðila í landinu raunverulega eru. Ef slík eignakönnun færi fram, þá hefði þar með skapazt grundvöllur til þess að skattleggja á eftir verðbólgugróða, sem ti1 kynni að falla í einstaka tilfellum. Við bendum einnig á það í grg. frv., að við teljum, að það þurfi að setja ný lagafyrirmæli og nýjar reglugerðir, sem miði að því að koma í veg fyrir skattsvik eða að veita aðstöðu til þess að skattleggja þann hagnað, sem nú er skotið undan skattlagningu. Það fer ekkert á milli mála og verður varla véfengt hér af nokkrum, að um það er að ræða í allstórum stíl í okkar þjóðfélagi, að hagnaði sé skotið undan, þannig að hann komi ekki til skattlagningar. Ef snúið væri sér að því verkefni að koma í veg fyrir þessi skattsvik eða skapa aðstöðu til þess að skattleggja þennan hagnað, sem nú er skotið undan, þá mundi á þennan hátt falla til allmikið fé, allmiklar skattatekjur, sem hið opinbera gæti notað til þess að létta af öðrum sköttum, sem nú eru á lagðir og eiga sinn þátt í of háu verðlagi í landinu. Eða þá að þetta fjármagn yrði notað til beinna niðurgreiðslna á verðlagi eða á annan hátt til þess að reyna að standa gegn verðhækkunum. Þá bendum við á þá ráðstöfun í þriðja lagi, að það sé rétt að lækka eða sumpart fella að öllu leyti niður söluskatt og tolla á helztu nauðsynjavörum. Ef það væri gert, væri hægt að lækka verðlagið allverulega frá því, sem nú er. Á því er enginn vafi, að hinn síhækkandi söluskattur, sem á hefur verið lagður hin síðari ár, hefur orðið til þess að almennar nauðsynjavörur hafa hækkað óhóflega mikið í verði. Við teljum, að það sé hægt að fara inn á þessa braut, þó að hér yrði um það að ræða, að tekjur ríkisins mundu að sjálfsögðu minnka við þetta, vegna þess að við álítum, að það sé hægt að afla þessara tekna á annan og hagkvæmari hátt og eðlilegri hátt jafnhliða því, sem við álítum einnig, að það sé hægt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á ýmsum sviðum.

Þá bendum við á það, að það ætti að gera núverandi verðlagseftirlit hald betra og virkara í framkvæmd, en það er. Það er okkar skoðun, að á undanförnum árum hafi verðlagseftirlitið sífellt verið að slappast og stefna stjórnarvalda hafi beinlínis miðað að því að gera verðlagseftirlitið allt lakara og lakara, en við álítum, að eins og nú er ástatt í okkar verðlagsmálum, þurfi einmitt að herða þar á ýmsum ákvæðum, það þurfi að gera heildarkerfið, verðlagseftirlitið, mun virkara en það er nú. Og þeir, sem hafa þar yfirumsjón með verðlags ákvörðunum og verðlagseftirliti, þurfi að hafa þar fullnaðarvald yfir enn þá fleiri verðákvörðunum en nú er.

Í fimmta lagi bendum við á þá ráðstöfun, sem þurfi að vinna að, að afnema sem mest eða lækka verulega hina fjölmörgu núverandi nefskatta. En það er enginn vafi á því, að þessir skattar eru í eðli sínu ósanngjarnir og orðnir óbærilega háir fyrir hinn óbreytta mann að greiða og þeir eru einn liðurinn í því að gera útgjöld hins almenna manns svo há, að það hlýtur vitanlega að segja til sín aftur í sambandi við annað, það sem snertir þessi verðlagsmál almennt. Það er auðvitað enginn vafi á því, að ef ætti að fella niður nefskattana alla, þá er þar um verulega háa fjárhæð að ræða. Ég hygg, að gert sé ráð fyrir í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, að þessir skattar nemi í kringum 800 millj. kr. eða rúmlega 700 millj. kr og þá kemur auðvitað upp sú spurning, hvernig eigi að afla nýrra tekna í staðinn fyrir þessa, en þar bendum við m.a. á það, að við álítum, að hækka eigi skatta á hæstu eignum eða mestu eignum og það sé einnig hægt að hækka skatta til ríkisins, þar sem er um mestan beinan gróða að ræða í atvinnurekstrinum.

Í sjötta lagi bendum við á það, að það þurfi að fara fram gaumgæfileg athugun á núgildandi verðlagi almennt. Við teljum, að í mörgum greinum hafi verðlag það, sem nú gildir, verið ákveðið án þess að full rök hafi staðið til þess að ákveða það eins og það er. Við álítum því, að það eigi að rannsaka það mjög vandlega, þetta verðlag, sem nú gildir og færa það niðum í öllum þeim tilvikum, þar sem unnt er. Við erum ekki á þeirri skoðun, að það eigi að slá því föstu, að það verðlag, sem nú gildir, sé rétt. Við álítum, að það sé einnig hægt með nákvæmri athugun á þessum málum að vinna þarna nokkuð til verðlækkana, sem gætu þá hamlað g:gn verðhækkunum almennt séð eða öðrum hækkunum.

Við höfum í þessum efnum tilnefnt hér sex atriði. Við vitum, að miklu fleiri geta hér vissulega komið til greina, en við álítum, að ef Alþ. snéri sér að því að setja lög og reglur t.d. um öll þessi atriði, þá væri stefnt í rétta átt til þess að hamla gegn hækkandi verðlagi og þá væri stefnt í þá átt að miða að verðlækkunum í ýmsum tilfellum. Þetta álítum við, að eigi að gera. Það eigi að vinna að því að setja lög og reglur um þetta á þeim tíma, sem vinnst á meðan verðstöðvunin er í gildi. Það er einnig okkar skoðun, að verðstöðvunin hefði það almennt gildi, eins og nú er ástatt, að þeir fjölmörgu aðilar, sem nú reyna eftir öllum hugsanlegum leiðum að fá samþykki fyrir því að hækka sitt verðlag, hættu þessum mikla þrýstingi sínum, þeir féllu frá kröfum sínum og yrðu að sætta sig við að bíða a.m.k. fram yfir verðstöðvunartímann með frekari kröfur. Þannig mundi verðstöðvunin verða til þess að slá nokkuð á þessa sívaxandi bylgju, sem alltaf er að rísa hærra og hærra í þessum efnum.

Það er í rauninni furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa gert Alþ. enn grein fyrir því, hvað hún ætlast fyrir í þessum málum. Frá ríkisstj. hefur lítið ákveðið enn þá heyrzt um það, hvað til stendur að gera. Það er talað um það með óljósum orðum af hálfu ríkisstj., að það þurfi að stefna að verðstöðvun í áföngum, sem sagt, það er verið að reikna með því, að það megi nú bæta nokkru við enn af verðhækkunum, áður en numið sé alveg staðar. Það er mikið talað um það af hálfu ríkisstj., að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir víxlhækkanir. En hvers konar víxlhækkanir er hér verið að tala um? Spurningin mikla er sú, gáfu kauphækkanirnar á s.l. sumri, þar sem var um að ræða kauphækkun, sem sniðaði að því að jafna kaupið við það, sem það hafði áður verið eða fyrir kauplækkunina, gáfu þessar kauphækkanir tilefni til þess að miklar verðhækkanir ættu að ganga hér yfir? Eru menn á þeirri skoðun, að þær verðhækkanir, sem síðan hafa gengið yfir, séu þess eðlis, að það sé þá ekki réttmætt, að launþegar fái þær verðhækkanir bættar með hækkandi kaupi? Ef menn eru á þeirri skoðum, að það eigi nú að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það, að launþegar fái í gegnum vísitölu uppbætur á laun hækkanir á sínu kaupi vegna þeirra verðhækkana, sem nú hafa orðið að undanförnu, þá hafa þeir raunverulega álitið, að sú kauphækkun, sem um var samið í sumar, hafi þá verið of mikil og það þurfi að taka hana til baka aftur með hækkandi verðlagi. Þá hefur það einnig heyrzt frá hæstv. ríkisstj., að hún gæti hugsað sér, að þessi verðstöðvun í áföngum, sem ætti að koma, gæti verið framkvæmd jafnhliða framkvæmd á verðgæzlufrv., .sem lagt var hér fyrir síðasta Alþ., en það frv. gerði beinlínis ráð fyrir því, að þeir, sem með sölu á varningi og þjónustu hafa að gera, fengju til muna frjálsari hendur um verðákvarðanir, en verið hefur. Dettur nokkrum manni það til hugar í alvöru, að ráðstöfun í þá átt að veita þessum aðilum enn þá meiri rétt til ákvörðunar um verðlag og verð á þjónustu, muni draga úr verðhækkunum frá því, sem nú er?

En í sambandi við þessi mál þykir mér ástæða til þess að beina nú sérstökum spurningum til forsvarsmanna stjórnmálafsokkanna hér á Alþ. um afstöðu þeirra til þessa þýðingarmikla máls. Hver er í raun og veru afstaða stjórnmálaflokkanna á Alþ. nú til þessara verðlagsmála? Hver er afstaða Sjálfstfl.? Vill hann stöðva verðlagið, þar sem það er komið nú, um einhvern tíma eða treystir hann sér ekki til þess? Og hvaða ráðstafanir vill þá Sjálfstfl. gera í þá átt að hamla gegn hækkandi verðlagi og þeim afleiðingum, sem af því mundu leiða? Ja, ég spyr einnig: Hver er afstaða Alþfl. til þessa máls? Mér hefur skilizt það, að Alþfl. hafi gert um það samþykkt á sínu síðasta flokksþingi, að hann væri með verðstöðvun. En mér finnst full ástæða til þess að spyrja um það hér, þegar þetta mál er til umr., spyrja hæstv. viðskrh., formann Alþfl., um það, hver er afstaða Alþfl.? Er hann með því, að sett verði lög nú þegar um verðstöðvun, eins og mér skilst, að samþykktir Alþýðuflokksþingsins hafi borið vitni um, eða er eitthvert hik á Alþfl. í þessum efnum? Og hvaða tillögur hefur þá Alþfl. um viðnám gegn sívaxandi verðbólgu? Hvað vill hann gera? Getur það verið tilfellið, að Alþfl. líti svo á, að það væri gagnlegt í þessum efnum að samþykkja frv., sem lagt var fyrir síðasta Alþ. um nýskipan verðgæzlumála? Telur hann, að það mundi gagna í þessum efnum? Eða getur það verið, að Alþfl. telji, að það verði eins og nú standa sakir að koma í veg fyrir víxlhækkanir á kaupgjaldi og verðlagi í þeirri merkingu, að það megi ekki hækka kaupið frá því, sem nú er orðið, til þess að vega upp á móti þeim verðhækkunum, sem samþykktar hafa verið að undanförnu? Ég vil einnig beina mínum spurningum í þessum efnum til talsmanna Framsfl. Hvað vill Framsfl. gera í þessum efnum? Styður hann það, að nú þegar verði ákveðin verðstöðvun um einhvern tiltekinn tíma og sá tími síðan notaður til þess að gera ráðstafanir, sem gætu miðað að því að koma í veg fyrir sífellt vaxandi verðbólgu eða draga úr verðbólguvextinum? Eða hikar Framsfl. eitthvað í þessum efnum og telur ekki rétt að samþykkja verðstöðvun fyrr, en búið sé að gera ýmsar aðrar ráðstafanir? Það væri einnig kannske ástæða til þess að beina hér þessum spurningum til talsmanna flokks Frjálslyndra og vinstri manna. Styðja þeir verðstöðvun nú þegar eða er eitthvert hik á þeim? Telja þeir, að það sé betra að láta verðlagið nokkurn veginn laust, eins og það hefur verið í reynd, á meðan sé verið að leita að öðrum ráðum, sem gætu unnið gegn verðbólgu?

Við Alþb: menn lítum þannig á málið, að það sé nú þegar búið að heimila allt of miklar verðhækkanir og því eigi nú að nema staðar, stöðva frekari verðhækkanir með öllu, en við viðurkennum, að þetta er engin varanleg lausn á vandamálinu og því viljum við, að sá tími, sem vinnst í verðstöðvun, verði notaður til þess að settar verði reglur, sem mundu í reynd draga úr verðbólguhraðanum. Og við höfum reynt að gera hér nokkra grein fyrir því, á hvað við bendum sem tiltækustu úrræðin í þessum efnum.

Það, sem sérstaklega vekur athygli manna, þegar þessi mál eru rædd, er það, að það er alveg augljóst mál, að ýmsir helztu talsmenn ríkisstj. láta mjög að því liggja í röksemdafærslu sinni, að sá verðbólguvandi, sem nú sé við að glíma hér á landi, stafi raunverulega af tvennu: Annars vegar af því, að kaupgjald hafi verið hækkað um of á s.l. sumri, það kaupgjald, sem verkalýðsfélögin þá sömdu um og hins vegar af hinu, að verð á landbúnaðarafurðum hafi hækkað of mikið nú í haust. Ég er á þeirri :skoðun, að kenningar, sem fari í þessa átt, séu algerlega rangar. Það var veruleg þörf á því að hækka laun hinna lægst launuðu í sumar og það voru allar aðstæður til þess í hagkerfinu að tryggja á varanlegan hátt þessar kauphækkanir. Og það er einnig mín skoðun, að á því hafi heldur ekki leikið neinn vafi, að bændastéttin í landinu átti að fá sambærilegar eða sams konar kauphækkanir sér til handa, og það hafi ekki verið ástæður til þess, að hér yrðu meiri verðhækkanir almennt séð í landinu, þrátt fyrir þessar breytingar, hækkun á launum verkamanna og bænda en svo, að það hefði ekki átt að skapa neitt vandamál í íslenzku efnahagslífi. Hitt er svo allt annað mál, hvort verð á landbúnaðarafurðum hefur hækkað á s.l. hausti verulega mikið meira en sem nam eðlilegri hækkun á kaupi bóndans og það hafi verið vegna þess, að ýmsar rekstrarvörur búanna hafa að undanförnu hækkað í öllu verðbólguflóðinu, það er allt annað mál. Það flokkast undir þær verðlagshækkanir, sem ég tel, að hafi verið óeðlilegar og átt hafi að koma í veg fyrir og hafi verið skylda stjórnarvalda að hamla gegn, en sem ekki var gert.

Ég vildi spyrja þá, sem efast um það, að það hafi verið samið um réttláta og eðlilega kauphækkun til verkamanna á s.l. sumri um það, hvers konar ástand þurfi í raun og veru þá að vera til staðar í efnahagslífinu, ef ekki hefur verið grundvöllur til þess að veita raunhæfar kauphækkanir til hinna lægst launuðu á s.l. sumri. Eða eru menn virkilega komnir á það stig að halda því fram, að í hvert skipti, sem um er að ræða kauphækkun, verði sú kauphækkun að ganga áfram út í hækkandi verðlag. Ég efast ekkert um það, að þetta sjónarmið er ríkjandi hjá ýmsum atvinnurekendum. Þeirra sjónarmið er einfaldlega það, að hafi þeir í eitt skipti fengið þá aðstöðu, að fyrirtæki þeirra hafi verið rekið með verulegum gróða, þá eigi þeir ekki að láta af þeim gróða á neinn hátt, þá eigi þeir að haga sínum vinnubrögðum þannig. Komi þá til kauphækkunar, þá eigi þeir áfram að halda sömu gróðaaðstöðu og þeir áður höfðu og velta hinum nýju útgjöldum, hinu hækkaða kaupi aðeins af sér og út í hið almenna verðlag. Það hefur t.d. komið hér fram í umr. á þessu þingi, að olíufélögin þrjú hafi haft góðan eða hagstæðan rekstur á s.1. ári og jafnvel nefndar hér upphæðir um það, að þau hafi þá haft í gróða um eða yfir 100 millj. kr. Ef sú upphæð er rétt tilfærð og þá sennilega miðuð við reikninga fyrirtækjanna, þá tel ég nú alveg víst, að gróðinn sé miklum mun meiri en þar er skráð í reynd. Þá kemur þetta þannig fram, t.d. hjá þessum þremur stóru fyrirtækjum, að þau vilja halda þessari stöðu sinni um rekstrarafkomu og krefjast þess með nýrri verðlagningu að losna við öll óþægindi af hækkuðu kaupgjaldi eða yfirleitt öðrum kostnaði, sem kunni á þau að falla til hækkunar frá því, sem áður var og þau heimta því nýja verðlagningu, sem gefur þeim aðstöðu áfram til a.m.k. jafngóðrar afkomu og áður var. Það er mín skoðun, að það verði að brjóta á bak aftur kenningar, sem fara í þessa átt. Það verði að sannfæra atvinnureksturinn almennt um það, að til þess er ætlazt, að sá hagnaður, sem til fellur, t.d. fyrir hagstæð ytri áhrif, falli ekki síður ti1 vinnandi fólks við fyrirtækin en til fyrirtækjanna sjálfra og þau verði því að taka hér á sig nokkurn hluta af eðlilegum kauphækkunum, en þau eigi ekki að fá aðstöðu til .þess að velta af sér kauphækkuninni út í verðlagið með þeim afleiðingum, sem það hlýtur að hafa fyrr en síðar fyrir atvinnulífið sem heild.

Eins og ég sagði, voru hér og hafa verið hér á þessu ári allar aðstæður til þess, að hægt væri að veita kauphækkanir, án þess að til meiri háttar erfiðleika hefði átt að koma í okkar hagkerfi. Verðhækkanirnar á útflutningsvörum þjóðarinnar hafa verið gífurlega miklar og í gegnum þær verðhækkanir hafa okkur áskortnazt fjárhæðir, sem eru svo miklar, að það var full aðstaða til þess að þær yrðu nýttar til kauphækkana. Eins og því var haldið fram áður, að það þyrfti að lækka launin, þegar hinar ytri aðstæður voru óhagstæðar, eins voru vitanlega sams konar rök fyrir því eða eru nú á þessu ári fyrir því að hækka kaupið um leið og þessar ytri aðstæður breytast okkur í hag. Í þessum efnum tel ég alveg nauðsynlegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir því, hvernig okkar verðmyndunarkerfi raunverulega er í framkvæmd. Það er enginn vafi á því, að eins og háttar hér hjá okkur, þá ráða ýmis stórfyrirtæki og ýmsar stofnanir nokkurn veginn ein verðlaginu á þýðingarmiklum vörum og þjónustu í landinu. Það er t.d. ekkert um það að villast, að það verð, sem olíufélögin ákveða á hverjum tíma og fá samþykki verðlagsyfirvalda fyrir, það er alveg gildandi verð í landinu, það er ekki um neina samkeppni á milli þeirra að ræða. Þessu er líka svona varið með ýmis þýðingarmikil samgöngufyrirtæki í landinu. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að hafi Flugfélag Íslands ákveðið hækkun á fluggjöldum innanlands, þá ræður það verðlaginu í þeim efnum algerlega og á svipaðan hátt ræður raunverulega Eimskipafélag Íslands alveg flutningsgjöldunum á ýmsum eða flestum vörum hér til landsins. Að því leyti til, sem erlend skipafélög taka þátt í því að flytja hér vörur að og frá landinu, þá notfæra þau sér í öllum aðalefnum þau flutningsgjöld, sem þetta tiltöluloga sterka félag hér á landi hefur ákveðið. Það eru því svona aðilar, sem hafa gífurlega mikið að segja um það að ákveða verðmyndunina í landinu. Eins ráða hér ýmsir opinberir aðilar mjög miklu um verðmyndunarkerfið. Það eru stjórnarvöldin sjálf, sem ákveða það að hækka síma– og póstgjöld hér, hækka gjöld á rafmagni, heitu vatni o.s.frv. eða hækka tryggingagjöld. Það eru þessir aðilar, sem hafa hér gífurlega mikið vald á því, hvernig til tekst með alla verðmyndun í landinu, með verðlag almennt. Og svo koma einnig til í mörgum öðrum greinum bein samtök þeirra aðila, sem fást t.d. við vörudreifingu. Þeir koma sér saman um það, að verðlag skuli ekki vera lægra, en eitthvað tiltekið eða álagning ekki minni en einhver tiltekin prósenta. Og það eru mörg dæmi um það, að þessi samtök — það verður upplýst um það — megi reyna að beita þá vissum refsiráðstöfunum, sem brjótast undan þessum samþykktum. Það er því enginn vafi á því, að á því er brýn nauðsyn hér í okkar litla hagkerfi, að yfirvöld landsins hafi nánar gætur á því, hvernig verðlagið í landinu þróast, hvernig verðmynduninni er háttað á hverjum tíma og allar kenningar um það, að frjálst framboð og eftirspurn ráði verðlaginu hér, fá ekki staðizt. Þær eru í eðli sínu rangar, eins og málum er háttað hér hjá okkur. Og engar yfirborðskenndar reglur um eftirlit með hringamyndunum eða annað þess háttar mundi breyta neinu í þessum efnum. Hér þarf strangt verðlagseftirlit, stofnun sem getur gripið inn í varðandi verðákvörðun, ef á að vera hægt að halda verðlagsþróuninni innan eðlilegra marka. Það er heldur enginn vafi á því, að auk þessara aðila, .sem ég nefndi nú og hafa hér gífurlega mikil áhrif á ákvörðun verðlagsins, kemur svo ríkisvaldið sjálft, t.d. með ákvarðanir sínar um beina skattheimtu, inn í þetta dæmi. Það fer t.d. ekki á milli mála, að sú stefna, sem miðar að því að lækka nokkuð tolla á ýmsum þeim varningi, sem tæplega eða að litlu leyti getur flokkazt undir nauðsynjavarning, en að hækka að sama skapi söluskattinn, sem liggur með jöfnum þunga á nauðsynlegustu vörum og hinum, sem telja má jafnvel sem lúxusvörur í vissum tilvikum, það er enginn vafi á því, að þegar þessi stefna er tekin upp um skattheimtu, þá miðar hún að því að hækka verðlagið í landinu og skapa hér vanda í okkar verðlagsmálum.

Ég hef nú gert hér í stórum dráttum grein fyrir þessu frv. okkar Alþb.–manna. Það er skoðun okkar, að það hefði átt að vinna þannig að þessu máli, að um leið og þetta frv. kom hér fram á Alþ. hefði átt að taka það til sérstakrar meðferðar og afgreiða það fljótlega sem lög frá þinginu. Við erum á þeirri skoðun, að nú ætti Alþ. að taka þetta frv. og snúa sér að því að afgreiða það mjög fljótlega, en það ætti ekki að vísa þessu frv. til n. með því hugarfari, sem oftast er nú gert með þau frv., sem koma frá okkur í stjórnarandstöðunni, að senda það þangað til þess, að frv. hreyfist þar ekki meir og meira heyrist ekki af því. Hér er gripið á slíku vandamáli, að það er í rauninni ekki forsvaranlegt að afgreiða frv. eins og þetta á þennan hátt, sem gert er oft með frv. frá stjórnarandstöðunni. Ríkisstj. getur auðvitað tekið þann kost að koma fram með sínar eigin tillögur undir meðferð þessa máls, en á meðan hún ekki gerir það, verður að ganga út frá því, að þetta sé eina raunhæfa tillagan, sem liggur fyrir til lausnar á málinu og þá á að afgreiða þá tillögu. Ég vil nú vænta þess, að forsvarsmenn annarra flokka hér á þingi lýsi alveg afdráttarlaust yfir sinni afstöðu til þessa frv. og til þessa vandamáls, svo að það fari ekkert á milli, hver afstaða þeirra er og þeir geti verið okkur samþykkir um það, að það sé nauðsynlegt að afgreiða þetta mál á raunhæfan hátt hér út úr þinginu sem allra fyrst.

Ég legg svo til, herra forseti, að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjhn.