27.10.1970
Neðri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

30. mál, verðstöðvun

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hv. flm. þessa frv. beindi hér nokkrum spurningum til stjórnmálaflokkanna eða þingflokkanna og þá að sjálfsögðu til stjórnarflokkanna fyrst og fremst. Ég tel það nú víst, að þeir láti ekki hjá líða og sérstaklega ekki hæstv. viðskrh., að svara, en svona rétt á meðan þeir eru að hugsa sig um, finnst mér rétt að verða við þeirri áskorun hv. flm. að svara fsp. hans nokkrum orðum varðandi afstöðu Framsfl. til verðstöðvunar. Ég held, að ég geti gert það best á þann hátt að vísa til þeirra ummæla, sem formaður Framsfl. lét falla um þetta efni, þegar rædd var stefnuyfirlýsing ríkisstj.

Það má segja, að niðurstaða hans hafi verið að mörgu leyti lík og hjá hv. flm. Hv. flm. tók það fram, að þó að verðstöðvun gæti verið góður þáttur eða liður í heildarráðstöfunum um stuttan tíma, þá þyrfti að sjálfsögðu margt fleira að koma til, ef leysa ætti þetta vandamál á réttan og hagkvæman hátt. Og það var nákvæmlega þetta sama, sem kom fram í því, sem formaður Framsfl. sagði hér við áður nefndar umr. og get ég þess vegna vísað til þess. Við höfum reynslu fyrir því og það er rétt að hafa hana í huga, að einhliða verðstöðvun, ef ekki fylgja margar aðrar víðtækar ráðstafanir, leysir oft og tíðum lítinn vanda, heldur aðeins frestar því, að farið sé að fást við viðfangsefnin og þá er vandinn oft orðinn meiri heldur en áður, en verðstöðvunin hófst. Mér finnst rétt í þessum efnum að vísa til reynslunnar á árinu 1959, fyrir kosningarnar þá. Þá var komin hér á verðstöðvun, en sú verðstöðvun reyndist í raun og veru ekkert annað en svikaaðgerð, sökum þess að vandinn jókst á meðan hún stóð yfir og svo að kosningum loknum, taldi núv. ríkisstj. ekki annað fært heldur en grípa til mjög stórfelldrar gengisfellingar. Það var aftur farið út á þessa sömu braut fyrir kosningarnar 1967. Þá hafði ríkisstj. verðstöðvun hér í nokkurn tíma eða nokkra mánuði, en það reyndist þá alveg eins og 1959, að hér var um að ræða víxil á framtíðina og rétt eftir kosningarnar var farið út í hina stórfelldustu gengisfellingu og ekki aðeins þá, heldur líka næsta ár á eftir. Mér finnst rétt að rifja þetta upp til þess að sýna það, að einhliða verðstöðvanir, sem eru gerðar nokkrum mánuðum fyrir kosningar, leysa ekki vandann, heldur þarf margt fleira að koma til. Með þessu er ég ekki að segja það, að það geti ekki verið eðlilegt að grípa til einhvers konar verðstöðvunar nú, ef jafnframt eru gerðar margar aðrar ráðstafanir til að tryggja það, að það geti verið um heildarlausn að ræða. Ég held, að um þetta sé enginn ágreiningur á milli mín og hv. flm., því að mér virtist það, sem hann var að segja hér um verðstöðvun eina út af fyrir sig, mjög í sama anda og formaður Framsfl. sagði hér við áður nefndar umr., sem ég vísaði til. Hann taldi m.a. fram margar aðrar ráðstafanir, sem hann áleit, að þyrftu að koma til jafnhliða, ef verðstöðvunin ætti að koma að fullum notum.

Mér finnst líka rétt að benda á það í þessu sambandi, að það er ekki rétt hjá hv. flm., að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé eina tillagan, sem hafi komið fram að undanförnu um þetta mál. Ég held, að það hafi komið fram hér á Alþ. og einnig í blöðum, að af hálfu Alþýðusambands Íslands hafi verið lagðar fram mjög ýtarlegar tillögur um lausn þessara mála eða a.m.k. bráðabirgðaaðgerðir í þessum málum og málin standa, að því er ég bezt veit, þannig, að um þetta efni fara enn fram viðræður á milli ríkisstj. og alþýðusamtakanna. Og það, að alþýðusamtökin eða verkalýðssamtökin halda þessum viðræðum áfram, hlýtur að stafa af því, að þau gera sér einhverja von um árangur af þessum viðræðum. Annars mundi ég ekki telja það afsakanlegt af verkalýðshreyfingunni að halda þessum viðræðum áfram viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, ef hún teldi sig ekki hafa vonir um einhvern árangur. Ég held, að þessar viðræður séu búnar að standa svo lengi, að það sé tími til kominn að einhver niðurstaða fáist, annað hvort að það verði einhver jákvæður árangur af þessum viðræðum, þannig að ríkisstj. gangi að verulegu leyti inn á tillögur verkalýðssamtakanna ellegar þá að verkalýðssamtökin láti ekki teygjast lengur á þessum asnaeyrum og segi þessum viðræðum hætt, ef hún álítur, að ríkisstj. meini ekkert annað með þeim heldur en reyna að vinna sér tíma og eyða því, að nokkuð sé gert. En það er áreiðanlegt, að það, hve lengi þessar viðræður hafa staðið yfir, á orðið sinn þátt í því, að enn hefur ekki verið hafizt handa í þessum málum, því að það hefði að sjálfsögðu rekið á eftir hæstv. ríkisstj., ef þessar viðræður hefðu ekki dregizt svona mikið á langinn. Þá hefði hún orðið að sýna eitthvað af eða á í þessum efnum. Þess vegna finnst mér rétt nú við þessar umr. að leggja áherzlu á það bæði við ríkisstj. og verkalýðssamtökin, að það verði einhver endir bundinn á þessar viðræður og það komi í ljós, hvort þær hafi af hálfu ríkisstj. verið alvöruleysi frá upphafi ellegar hún hafi eitthvað meint með þeim. En lengur finnst mér, að verkalýðshreyfingin geti ekki tekið þátt í þessum umr, nema eitthvað jákvætt fari að koma í ljós.

Um dýrtíðarmálin almennt eða verðlagsmálin almennt sé ég ekki ástæðu til þess að ræða öllu frekar á þessu stigi. Mér finnst þó rétt að benda á það, að ef t.d. hefði verið farið að tillögum okkar framsóknarmanna á síðasta þingi, hefði þróunin orðið allt önnur í þessum málum, heldur en raun hefur á orðið. Við lögðum það þá til t.d., að söluskattur á helztu nauðsynjavörum yrði felldur niður, að fjölskyldubætur yrðu verulega hækkaðar, að skattvísitalan yrði leiðrétt og gerðar yrðu ýmsar ráðstafanir til þess að bæta aðstöðu atvinnuveganna. Það er alveg víst, að ef þessar ráðstafanim hefðu verið gerðar á síðasta þingi og í framhaldi af ákvörðunum, sem þar hefðu verið teknar, þá mundi ástandið í þessum málum vera allt annað og betra heldur en það nú raunverulega er. Ég vil t.d. aðeins benda á það, að tillögur okkar um afnám söluskatts á nauðsynjavörum og hækkun fjölskyldubóta hefðu komið í veg fyrir þriggja stiga hækkun á vísitölunni, en þó komið að sjálfsögðu launþegum að sama gagni og meira, þó að sú leið hefði verið farin. Vegna þess að ekki var farið að þessu ráði okkar og vísitalan hækkaði um sín þrjú stig, þá hefur það svo aftur leitt til hækkana á kaupgjaldi og svo aftur á verðlagi, þannig að ekki er kannske fjarri lagi að áætla, að þetta eitt nemi orðið nú um 5–6 vísitölustigum. Þetta er aðeins dæmi um það, hvernig þróunin hefði orðið allt önnur, ef fylgt hefði verið þeim ráðum og tillögum, sem við framsóknarmenn fluttum á síðasta þingi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gengur að sjálfsögðu til n. og ég er alveg sammála flm. um það, að um slík mál sem þessi á að hraða ákvörðunum í n., en ekki láta þau sofna þar, hver svo sem afstaða nm. þar kann að vera.