29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

33. mál, iðnfræðsla

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Iðnfræðsluráð sér um framkvæmd mála, er varða iðnfræðslu og iðnskóla. Það sér um, að fyrirmælum um iðnfræðslu sé hlýtt, t.d. varðandi skólahald og verknám. Nú er iðnfræðsluráð skipað 9 mönnum, sem eru tilnefndir á þennan hátt: Landssamband iðnaðasmanna tilnefnir 2, Alþýðusambandið tilnefnir 3 og skulu 2 þeirra vera iðnsveinar og 1 fulltrúi iðnverkafólks, Iðnnemasamband Íslands tilnefnir 1. Svo er einn tilnefndur af Félagi ísl. iðnrekenda og einn tilnefndur af Sambandi iðnskóla á Íslandi. Það er efalaust, að af þessum aðilum, sem tilnefna fulltrúa í iðnfræðsluráð, snertir það engan meira heldur en iðnnema, hvernig iðnfræðslan er framkvæmd. Þetta sjónarmið var viðurkennt að nokkru á Alþ. 1965, þegar samþ. var, að einn fulltrúi frá Iðnnemasambandi Íslands skyldi eiga sæti í iðnfræðsluráði. En það liggur hins vegar í augum uppi, að það getur verið erfitt fyrir einn fulltrúa í 9 manna ráði að halda fullkomlega uppi málflutningi fyrir þá þar og rétti þeirra og þess vegna er lagt til í þessu frv., að Iðnnemasambandið tilnefni 3 fulltrúa í iðnfræðsluráð í stað eins nú og fulltrúatölu í iðnfræðsluráði fjölgi samkv. því, þannig að það verði skipað 11 mönnum í stað 9 nú. Þessi breyting, ef á hana yrði fallizt, er mjög í samræmi við þá stefnu, sem nú ryður sér hvarvetna til rúms og fólgin er í því að tryggja aukinn hlut nemenda til áhrifa á kennsluhætti og fræðslumál. Ég legg svo til að, að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.