29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. Sú ræða, sem hv. 4. þm. Reykv. flutti hér áðan, er gamalkunn. Hann flutti hana, held ég, svona að nokkru leyti óbreytta frá því að hann flutti hana í fyrra. Það þarf ekkert að sanna, að hún sé ekki út af fyrir sig góð, hún var a.m.k. ekkert verri núna en þá, en ég held sannast sagna, að það sé nú ekki ástæða til þess að fara að eyða tíma hv. d. í langar umr. um þetta mál. Það er grundvallarskoðanamunur á milli okkar hv. þm. um viss atriði málsins. Hann lýsti alveg réttilega þróun skattvísitölunnar og hann lýsti réttilega frv. okkar hæstv. núv. forsrh. og skoðun mín frá þeim tíma er alveg óbreytt. En þegar kom aftur að því að ræða um það, hvernig ætti að ákvarða skattvísitölu, þá skilur á með okkur, vegna þess að það er sá grundvallar munur á okkar skoðunum í því efni, að hv. þm. heldur því fram, að það sé sjálfsagt að binda skattvísitölu við framfærsluvísitölu. Ég held því hins vegar ákveðið fram, að það sé nær lagi að miða hana við kaupgjaldsvísitölu og það hafi alltaf verið hugsunin með ákvörðun vísitölunnar, þegar hún var sett í lög, að það ætti að miða við það, að til aukins kaupgjalds, sem menn fá til þess að mæta kjararýrnun vegna aukins framfærslukostnaðar, skuli vera tekið tillit, en ekki með hinum hættinum, sem raunar liggur alveg ljóst fyrir, að hefði verið ógerlegt á síðustu árum, að veita skattgreiðendum beinlínis fríðindi með lækkuðum sköttum, þó að framfærsluvísitala hækkaði. Það hefur aldrei verið hugsunin með þessu ákvæði að mínu viti og ég mun ekki, meðan ég framkvæmi það, framkvæma það með þeim hætti, nema að sjálfsögðu hið háa Alþ. ákveði annað, það er annað mál. Hitt er svo einnig annar þáttur málsins, að ég tel það mjög óæskilegt, að Alþ. festi ákveðna reglu um það, hvernig þessi vísitala verði ákveðin. Ég held, að í öllum tilfellum hljóti það að vera áhugamál fjmrh. að ákveða hana eins háa og hann getur, vegna þess að það er að sjálfsögðu því vinsælla sem hann gerir það og þó að fjmrh. verði að sæta því oft að vera harla óvinsælir, þá vilja þeir nú samt eftir beztu getu, að ég hygg, reyna að gera það, sem líklegt er til að bæta þá úr þeim óvinsældum, þannig að ég held, að enginn fjmrh. hafi löngun til þess að leggja á þyngri skatta heldur en þörf er á, þannig að mín skoðun er sú ákveðið, að þetta eigi að vera tiltölulega opið.

Varðandi hitt atriði málsins, að það hefði aldrei verið fullnægt ákvæðum laganna um að leita álits hagstofustjóra og kauplagsnefndar um skattvísitöluna, þá skaut ég því fram, að það væri ekki rétt, það hefði alltaf verið gert. En það er annað mál, að þessir aðilar hafa ekki alltaf gefið umsögn um það, svoleiðis að ég á erfitt með að skjalfesta það. Það liggur að vísu fyrir skjalfest í einu eða tveimur tilfellum, að þeir hafa gefið slíka umsögn, en þá hefur það verið með það óljósum hætti, þar eð þeir telja, að það sé svo erfitt vegna óákveðins orðalags í lögunum að gefa í rauninni um það nokkra umsögn, að þeir hafa í rauninni smeygt sér undan því. En það er ekki vegna þess, að ég hafi ekki sem fjmrh. uppfyllt þau skilyrði að óska eftir því, að þessir aðilar gæfu umsögn, en ég get að sjálfsögðu ekki knúið þá til þess.

Þetta er í rauninni það, sem ég vildi sagt hafa í þessu máli og sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. meira eða fara að rekja þá ræðu, sem ég flutti hér í fyrra til þess að útskýra nánar afstöðu mína, en í stuttu máli sagt tel ég, að ekki sé með neinu móti auðið að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, þó að það geti vitanlega komið til athugunar, hvort það eigi að setja einhver skýrari ákvæði í lög um skattvísitölu. Ég bendi t.d. á eina hugsanlega leið í því efni, sem er eðlileg vegna þess, að hún leiðir í rauninni af eðli málsins og óhjákvæmilegt, að það verði tekin um það ákvörðun í sambandi við samþykkt fjárlaga, hver skattvísitala skuli vera. Það liggur þá ljóst fyrir og fjárhagsáætlunin er að sjálfsögðu miðuð við einhverja ákveðna skattvísitölu, þannig að í rauninni gæfist Alþ. kostur á að ákveða það hverju sinni með þeim hætti og það teldi ég eðlilegra heldur en lögbinda það, svo sem hér er lagt til.