29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2738)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að þessari fsp., sem sjálfsagt er að svara, þá ætla ég aðeins að segja örfá orð í sambandi við síðustu ummæli hv. 4. þm. Reykv., þar sem hann vildi nú kveða mig í kútinn endanlega, að vísu ekki með mínum eigin ummælum, en ummælum meðflm. míns að því frv., sem hann vísaði til og taldi, að bryti algerlega í bága við það, sem ég hef hér sagt. Það kann nú vel að vera, að menn verði eitthvað íhaldssamari með aldrinum, ég skal ekki um það segja, það er mál út af fyrir sig. En í þessu tilfelli hefur það ekki orðið. Ég veit, að hv. þm. veit það jafn vel eins og ég, að þegar þetta frv. var flutt, var ekki munur á kaupgreiðslu– og framfærsluvísitölu, þannig að það er ljóst, að það verður ekki dregin nein ályktun í sambandi við það, sem um málið er sagt af þeirri ástæðu og í rauninni verður þó dregin ályktun af því, vegna þess að hann vitnaði til ummæla hæstv. núv. forsrh. í framsöguræðu þá, — eða hvort það var í grg. frv., ég man það nú ekki nákvæmlega, það skiptir ekki máli, — að það væri fráleitt, að það verkaði beinlínis til skattahækkunar, þó að menn fengju greitt hækkað kaup til að mæta auknum tilkostnaði. Þessu er ég nákvæmlega sammála. Það á ekki að verka til skattahækkunar. En ef það hefði gerzt, sem hv. þm. lagði til, núna undanfarin ár, þegar okkar efnahagserfiðleikaástand var, þá hefði það leitt til þess, að skattar hefðu stórkostlega lækkað í krónum talið, vegna þess að framfærsluvísitala hækkaði meira heldur en auðið var að bæta upp með kauphækkunum og það er auðvitað alveg grundvallarmunur á því. En nóg um það.

Hv. þm. líkaði ekki, að þetta yrði ákveðið í fjárlagafrv. og taldi fráleitt að ákveða slíkt sem þetta í fjárlagafrv. Sannleikurinn er auðvitað sá, að flestallir skattar eru ákveðnir í fjárlagafrv. efnislega, þó að það sé að formi til í öðrum lögum, vegna þess að fjárlagafrv. er afgerandi um fjárhagsafgreiðslu Alþ. hverju sinni. Það getur oft og tíðum þurft að breyta hinum ýmsu dögum, hvort sem þau eru um söluskatt eða annað. En ég veit ekki, hvort það væri svo fjarstætt, að það væru víðtækari heimildir til þess að ákveða skatta með fjárlagafrv. sjálfu, heldur en þurfa að breyta ótal mörgum sérlögum í því sambandi. Ég held, að það sé a.m.k. ekki atriði, sem menn eiga að varpa fyrir borð sem fásinnu.

Ég skal svo ekki orðlengja, herra forseti, um þetta mál og tel ekki þörf á því. En varðandi fsp. hv. 1. þm. Vestf., þá vil ég fyrst nota tækifærið til þess að óska honum til hamingju með það, að hann er margfalt ríkari en hann hélt. Það er alltaf gott að uppgötva það svona óvænt. En að öðru leyti varðandi fsp. hans um fasteignamatið, að það taki gildi 1. jan., þá skal ég í fyrsta lagi taka það fram, að það er engin vissa fyrir, að það taki gildi 1. jan. og raunar mjög hæpið, að það geti gert það, vegna þess að frestir þeir, sem gert er ráð fyrir í lögum og reglugerð um matið, eru býsna knappir og það er mjög hæpið, að yfir– eða landsnefndin nái að ganga í tæka tíð frá matinu, þannig að það geti tekið gildi 1. jan. Þetta skal ég þó ekki um segja. Ég skýrði frá því í fjárlagaræðunni, að það mundi taka gildi um áramótin. En það veltur sem sagt á tímasetningum, hvort það geti orðið í jan., 1. febr. eða 1. marz, það skal ég ekki nákvæmlega um segja. En það skiptir heldur ekki meginmáli í sambandi við fsp. hv. þm., vegna þess að hann spurðist fyrir um, hvort ekki yrðu endurskoðuð hin ýmsu gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat og það verður að sjálfsögðu gert, því að hér er um slíka stórkostlega hækkun á mati fasteigna að ræða, að það kemur ekki til álita að miða gjöldin óbreytt prósentvís við hið nýja mat eins og þau eru í dag og miðuð voru við hið gamla mat. Og vitanlega hefur engum hugkvæmzt það, að það ákvæði gildi áfram, sem ákveðið er í eignarskattslögum, að fasteignir skuli til eignarskattsákvörðunar metnar á níföldu fasteignamati, það verði nífalt nýja matið. Frá því hef ég margoft áður skýrt í sambandi við umr. um það frv., að slíkt kæmi ekki til álita. Þessi lög öll — og það eru ekki eingöngu lög, heldur ýmsar reglugerðir, — eru í athugun. Meiri hl. þeirra snertir sveitarfélögin, en ekki ríkið og er í athugun hjá félmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga, en að því leyti, sem þetta snertir löggjöf, sem fjmrn. hefur með að gera og raunar önnur rn., þá hefur fjmrn. haft forgöngu um það, að þessi mál öll hafa verið tekin til athugunar og eru í endurskoðun hjá rn. og vitanlega verður að því stefnt, að allar nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögunum, áður en hið nýja mat tekur gildi.