02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2750)

43. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Flm. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 43 flyt ég ásamt hv. 6. þm. Reykv. frv. til l. um breyt. á 1. nr. 18/1970 um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum. Efni þessa frv. er, að við 5. gr. laganna bætist svohljóðandi mgr.: „Eftirlaun skulu aldrei vera lægri en kr. 2.000 á mánuði að viðbættri vísitölu vöru og þjónustu frá 1. janúar 1970.“

Þegar verkalýðsfélögin gerðu kjarasamninga í maí 1969, sömdu þau um stofnun lífeyrissjóða almennu verkalýðsfélaganna. En fram að þeim tíma höfðu almennu verkalýðsfélögin hér á landi ekki haft neina lífeyrissjóði. Stofnun þessara lífeyrissjóða var langstærsta atriði samninganna frá 1969 og með stærri réttindamálum, sem verkalýðshreyfingin hefur samið um. Samtímis var einnig samið um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum í Alþýðusambandi Íslands, þ.e. til þeirra félagsmanna, sem ekki geta notið hinna nýju lífeyrissjóða sökum aldurs. Aðalreglan var hugsuð þannig, að þetta aldraða fólk nyti eftirlauna eins og þeir, sem verið hefðu í lífeyrissjóði í 15 ár. Kostnað vegna þessara sérstöku eftirlauna skyldi atvinnuleysistryggingasjóður bera að 3/4 hlutum og ríkissjóður að 1/4 hluta. Þetta samkomulag var birt í yfirlýsingu ríkisstj., sem fylgdi samningunum í maí 1969 og lög til staðfestingar þessu samkomulagi voru samþ. hér á Alþingi í marz í fyrravetur.

Ég vil sérstaklega undirstrika, að með þessu samkomulagi fékkst dýrmæt viðurkenning á rétti þessa aldraða fólks til eftirlauna. Þetta er fólk, sem búið er að slíta út kröftum sínum og í flestum tilfellum við hin arðbærustu störf fyrir þjóðfélagið.

Við framkvæmd þessara laga hafa hins vegar komið fram miklir gallar, svo að segja má, að í mörgum tilvikum sé hér aðeins um formlegan rétt að ræða, en að sjálf eftirlaunin vanti. Það var áreiðanlega ekki ætlun neins þess aðila, sem að samkomulaginu í fyrra stóð, að svo yrði. Reglan, sem eftirlaunin eru ákvörðuð eftir, er í fyrsta lagi, að viðkomandi sé orðinn 70 ára og hættur störfum og hafi verið í starfi í síðasta lagi í árslok 1967. Og síðan eru tekjur síðustu 5 starfsára hans lagðar til grundvallar við útreikning eftirlauna. Þessar reglur eru að mestu leyti og má segja einvörðungu reglur eldri lífeyrissjóða og þeir lifeyrissjóðir byggðu fyrst og fremst á þeim reglum, sem embættismannasjóðirnir hafa byggt upp. En þar er reglan sú, að þeir, sem hætta störfum sökum aldurs, eru þá komnir í hæstu möguleg laun og hafa ekki verið á hærri launum fyrr í sínu starfi. Þegar hugsað var til reglugerða fyrir hina nýju sjóði, sem stofnaðir voru með samningunum 1969, var augljóst, að þessar reglur gátu ekki gilt fyrir þá sjóði, einfaldlega af þeirri ástæðu, að tekjur þessa fólks, sem hér um ræðir, þess almenna verkafólks, fara mjög lækkandi eftir aldri. Í staðinn fyrir að embættismennirnir eru í hámarki launa, þegar þeir hætta störfum, þá er þessu öfugt farið um hið almenna verkafólk. Þar er margt, sem kemur til og ég hirði ekki að fara að tíunda það neitt nákvæmlega. Hinir nýju sjóðir komust sem sagt að þeirri niðurstöðu, að þetta kerfi gætu þeir ekki notað og þá var fundið út eins konar stigakerfi, þar sem menn fá ákveðið stig fyrir hvert starfsár og með þeim hætti verða beztu starfsár ævinnar lögð til grundvallar við útreikning eftirlaunanna. Þetta kerfi var hins vegar ekki til, þegar samkomulagið var gert 1969 og menn höfðu þá máske ekki nægjanlega komið auga á, að hinar eldri reglur, sem miðaðar voru við fasta starfsmenn eða embættismenn, gátu ekki átt hér við. Reynslan hefur því orðið sú við framkvæmd þessara laga, að eftirlaunin hafa orðið miklu lægri en reiknað var með.

Ég vil geta þess, að nú fyrir nokkrum dögum síðan var búið að afgreiða eftirlaun til þessara öldruðu félaga í verkalýðsfélögunum fyrir upphæð, sem nam 2.5 millj., þó tæpum og er þó miðað við greiðslur allt þetta ár til þeirra manna. Hins vegar var áætlað, að á fyrsta ári mundi kostnaður vegna framkvæmdar þessara laga, þ.e.a.s. greiðslur eftirlauna, nema 25 millj. kr. á árinu 1970. Það skakkar hér ákaflega miklu og er í raun og veru ekki nein skynsamleg ástæða til þess, að áætlanir, sem hér um voru gerðar og voru byggðar á aldri fólks í verkalýðsfélögunum, skuli bresta svo gersamlega. Þó að mönnum finnist nú oft gott, að áætlanir fari ekki fram úr því fjármagni, sem var ætlað til þeirra þá mundi ég nú segja, að hér væri þessu alveg öfugt farið. Þetta stafar að sjálfsögðu að töluverðu leyti af því, að það eru færri, sem hafa sótt, en ætlað var. Hvort tveggja kemur þá til, að menn eru enn þá í starfi, þótt gamlir séu og eins hitt, að eftirlaunin hafa reynzt svo lág, að menn hafa allt frekar viljað gera heldur en þurfa að sækja um þau og hvað lítið starf, sem hægt er að vera við, var það þó alltaf betra. Ég vil einnig geta þess, að af þeim fjölda, sem nú hefur verið afgreiddur, — ég þori ekki alveg að fara með, hve margir þeir eru, en það eru einhvers staðar á milli 200– 300 manns, — þá eru það 10 til 20, en sennilega þó nær 10, sem ná því að fá 2.000 kr. á mánuði. Það er alveg augljóst, eins og hinum almenna ellilífeyri er nú háttað hér á landi, að þetta eru náttúrlega engar bætur og það liggur við, að sárindin, sem fólk verður fyrir, þegar það finnur, að rétturinn er í raun og veru aðeins á pappírnum eða lítið meira, þau verði svo mikil og tilfinnanleg, að manni liggur við næstum því að óska þess, að skrefið hefði ekki verið stigið. En það, sem náttúrlega liggur fyrir, er að reyna að bæta hér um.

Ein höfuðástæðan fyrir því, að þetta samkomulag var gert, var sú, að á árunum 1966 og 1967 var farið að segja upp hér í Reykjavík mönnum, þegar þeir náðu sjötugs aldri. Það var sérstaklega í hafnarvinnunni, þó einkum hjá Eimskipafélagi Íslands, sem þessum mönnum var sagt upp. Að mörgu leyti verður það að teljast eðlilegt, að sjötugir menn hætti störfum við jafnerfiða og að mörgu leyti áhættusama vinnu eins og hafnarvinnan er. En hins vegar getur þjóðfélagið náttúrlega ekki verið þekkt fyrir það og ekki atvinnurekendur heldur að henda þessum mönnum frá sér eins og notuðu verkfæri, án þess að neitt sé séð fyrir því, að þeir geti lifað sómasamlegu lífi. Þeir hafnarverkamenn, sem voru driffjöðrin í því, að þetta samkomulag náðist fram, geta nú sem hámark fengið tæpar 1.400 kr. á mánuði. Ég held, að það sjái allir, að þetta er ekki hægt. Ég vil einnig geta þess, að einmitt þessir menn áttu hvað drýgstan þátt í því fyrir 15 árum síðan, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn var stofnaður og 3/4 hlutar af því fjármagni, sem ætlað er til þessara eftirlauna, koma frá atvinnuleysistryggingasjóði. Hér er aðeins tekið á einu atriði þessarar löggjafar eða samkomulagsins frá 1969 og það er það atriði, sem langmestum vonbrigðum hefur valdið. En það eru tvímælalaust mörg önnur atriði, sem þarf að athuga gaumgæfilega og breyta. Við meðferð málsins hér á Alþ. í fyrra kom ýmislegt fram, sem menn vildu hafa á annan veg. Það var sett ákvæði til bráðabirgða í lögin og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir, að endurskoðun fari fram á lögum þessum eftir nokkra byrjunarreynslu af lögunum, ef aðilar samkomulagsins frá 19. maí 1969 eru sammála um, að það sé æskilegt vegna framkvæmdar laganna.“

Mín afstaða var alltaf sú, að það hefði ekki átt að festa þessi ákvæði í lög. Hér er um alveg hrein samningamál að ræða og hefði verið miklu auðveldara að breyta þeim í framkvæmd með samkomulagi aðilanna. En þetta var nú gert og því verður að breyta lögunum. Ég vil engan veginn segja það, að þessi tillaga okkar flm. frv. sé það eina, sem til mála komi til að lagfæra upphæðir eftirlaunanna. Mér er fullvel ljóst, að þar eru ýmis vandamál, sem þarf að íhuga gaumgæfilega og það hefur að sumu leyti verið gert af ýmsum aðilum, en það, sem er mjög brýnt og má ekki slá á frest, er að lögin verði endurskoðuð. Og ég tel, að hvorki aðilar samkomulagsins frá 1969 né hið háa Alþ. geti staðið sig við annað, en að lögin verði nú tafarlaust endurskoðuð.

Herra forseti. Ég legg svo til, að, að umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.— og félmn.