04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

46. mál, menntaskólar

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég tel rétt að gera nokkrar aths. við ræðu hv. 1. þm. Austf., þó að ég segi það hér í hreinskilni, að mér þótti mjög vænt um, að hann kom hér upp. Og sérstaklega vegna þess, að ég hef nú ekki heyrt fyrr úr hans munni ákveðna afstöðu með ákveðnum stað í þessu menntaskólamáli. En það er alveg ámótmælanleg staðreynd, að það er engin hreyfing á menntaskólamálinu á Austurlandi vegna þess, að samstaða hefur ekki náðst um það, hvar skólinn skuli vera. Ég vissi vel um þá könnun, sem gerð var fyrir 2 árum af hálfu svokallaðrar menntaskólanefndar á Austurlandi um skoðanir sveitarstjórna á svæðinu. Ég hef þessa skýrslu fyrir framan mig. Það má túlka hana svolítið eftir því, sem mönnum þykir þægilegt. Hitt er staðreynd, að það voru langflestar hreppsnefndirnar eða sveitarstjórnirnar, sem lýstu sig samþykkar því, að skólastaðurinn yrði Egilsstaðir. Hins vegar voru allmargir og sérstaklega voru það fjölmennari staðirnir, sem voru ýmist með Eiðum eða annaðhvort Eiðum eða Egilsstöðum. Og ég vil þá vekja athygli á því um þær sveitarstjórnir, sem lögðu ekki svo mikið upp úr, eða ákvörðuðu sig ekki með annan hvorn staðinn, þá er ég alveg sannfærður um það, að þeim er það ákaflega vel ljóst, að það er af mörgum gert allt of mikið úr því, hvaða munur sé á aðstöðunni, eftir því, hvort skólinn er settur á Egilsstaði eða Eiða. Ég get tekið undir flest af því, sem hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Austf., var að telja upp sem kosti Egilsstaðakauptúns, en hann gerir bara allt of mikið úr því, að þessir kostir heyri aðeins til Egilsstöðum. Flestir þessir kostir eru líka kostir fyrir Eiða, vegalengdin er ekki það mikil þar á milli. Það er alveg rétt, að höfuðrökin fyrir því, að lagt er til, að skólinn verði að Eiðum, eru þau, að þar er skólastaður fyrir. Hitt er misskilningur hjá hv. 1. þm. Austf., að það þurfi endilega að felast í því að leggja niður það gagnfræðanám, sem nú er fyrir, að því leyti, sem nauðsyn verður á því fyrir strjálbýlustu svæðin austanlands. En sá maður, sem ég held alveg tvímælalaust að sé kunnugastur og sjái bezt hvað framundan er fyrir alþýðuskólann á Eiðum, skólastjórinn þar, hefur lagt á það áherzlu, að það stefni í þá átt, að umsóknum um skólann fækki og þetta húsnæði, sem þar er, verði ekki nýtt og það enn þá frekar, ef það verður að staðreynd, sem nú eru mestar líkur til, að skólakerfinu og námstilhöguninni verði breytt í það horf, sem ég var áðan að lýsa. Ég verð nú að segja það, eftir að hv. þm. var búinn að kynna það og halda því fram, að það væru raunverulega svo til allir Austfirðingar með því, að skólinn yrði á Egilsstöðum: Af hverju er þá ekki búið að láta uppi þessa skoðun og gera kröfuna til Alþ. um það að setja skólann á stofn? Nei, málið er nú ekki svona einfalt. Það er allt of mikill ágreiningur um málið heima fyrir og það er fyrst og fremst þess vegna, sem ég hef kosið að leggja það hér fyrir Alþ., af því að ég vil, að það skeri úr um það atriði, sem eingöngu hefur til þessa verið í vegi fyrir því, að skólinn yrði að veruleika, því það sjá það allir menn, að á meðan honum er ekki valinn staður, þá þýðir ekki að knýja á dyr Alþ. um fjárveitingu fyrir slíkan skóla.

Það er alls ekki meining mín, — og ég vil undirstrika það, sem ég var að nefna hér — að það þurfi nauðsynlega að leggja niður allt gagnfræðanám á Eiðum. Mér er það alveg ljóst, að það eru nokkrir hreppar, sveitahreppar, sem munu þurfa a.m.k. á næstunni á slíkri námsaðstöðu, kennsluaðstöðu að halda og þá á heldur ekkert að þurfa að vera í veginum fyrir því, að slík námsaðstaða verði veitt á Eiðum, þó að menntaskólinn verði tekinn þar á staðinn. Það þarf kannske engan að undra, þó að hv. 1. þm. Austf. hafi breytt um skoðun frá því sem var fyrir nokkrum árum. En ég man ekki betur en að hann og Einar Sigurðsson, sem þá voru hér alþm., flyttu einmitt frv. hér um það, að menntaskóli yrði settur að Eiðum. En ég segi það hiklaust hér, að ef það kemur nú í ljós, að yfirgnæfandi meiri hluti Austfirðinga og kannske flestallir eru orðnir sammála um það, að skólinn verði settur á Egilsstöðum, þá er auðvitað sjálfsagt að beygja sig fyrir þeirri staðreynd og ég veit að Alþ. muni gera það. En ég held bara, að málið liggi ekki þannig fyrir enn þá og eitt er víst og það hefur verið talsvert í mínum huga, að það þarf miklu meira fé til að koma honum á laggir, ef hann verður settur upp, byggður upp að nýju á Egilsstöðum, heldur en með því að setja hann í Eiða, því að þar er hægt að byrja eiginlega svo að segja nú þegar, t.d. á 1. bekk og láta hann smátt og smátt vaxa eins og yfirleitt hefur verið, — þannig hefur verið farið yfirleitt með alla menntaskóla í landinu. Ég get bent á hér til sannindamerkis um það, að nokkur ágreiningur hefur verið á Austurlandi, að ég hef hér í höndum ljómandi fallega bók, sem gefin var út um heljarmikið menntasvæði í Neskaupstað. Enda er það staðreynd, sem ég hef verið að leggja áherzlu á, að það er einmitt ágreiningurinn um staðinn, sem hefur orðið þess valdandi, að Austfirðingar hafa orðið aftur úr með menntaskólann. En ég held, að hv. þm. hafi gert allt of mikið úr því og einnig þótt hann vitnaði til þess nefndarálits, sem svokölluð skólanefnd sveitarstjórnasambandsins á Austurlandi lagði fram á aðalfundi þar á s.l. sumri, — ég held, að hann hafi gert allt of mikið úr því, hver nauðsyn væri á Eiðaskóla í svo að segja óbreyttu hlutverki á næstunni. Hitt er rétt, eins og fram kom í þeirri tilvitnun, sem ég las úr ræðu skólastjórans á Eiðum, að það eru fleiri framhaldsstig, sem þurfa að koma heldur en bara menntaskóli. En ég held, að það sé þó fjær lagi að hugsa sér t.d. að breyta Eiðaskóla að einhverju leyti í iðnskóla eða tækniskóla, en að þar verði menntaskóli. Þetta eru námssvið, sem líka þurfa að koma. Ég ætla samt sem áður ekki að deila við hv. þm. Það var gott að það kom fram, sem hann sagði, og sérstaklega vil ég endurtaka, að ég fagna því, að hann hefur nú lýst ákveðinni afstöðu í þessu máli, en ég vil enn sem fyrr leggja á það áherzlu, að Alþ. skiljist ekki svo við þetta mál í vestur, að það verði ekki ákveðið, hvar menntaskólinn á Austurlandi skuli vera.