11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

63. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég hef borið fram frv. um breyt. á l. um aflatryggingasjóð og fjallar það um greiðslu fæðiskostnaðar til sjómanna á bátum, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, eins og segir hér í 1. gr.: „Áhafnadeild aflatryggingasjóðs skal og greiða eigendum fiskibáta, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, hluta af fæðiskostnaði sjómanna þeirra báta: 85 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann.“ 2. gr. fjallar um það, að lög þessi taki gildi frá og með 19. febr. 1969.

Eftir að lögum um aflatryggingasjóð var breytt 1969, bar þegar á því, að sjómenn á smærri bátum voru óánægðir með þær reglur, sem giltu um fæðiskostnað. Til þess að bæta nokkuð úr þessu var flutt á Alþ. í fyrravetur frv. til l. um breyt. á þessum lögum og þá gert ráð fyrir, að sjómenn á bátum, sem ekki var lögskráð á, en höfðu þilfar, fengju greiddan fæðiskostnað eða fæðispening, Þetta þótti nokkur kjarabót, en þó komu fljótlega fram óánægjuraddir frá þeim sjómönnum, sem voru á bátum, sem voru kannske stærri en þilfarsbátarnir, og nú er með þessu frv. lagt til, að sporið sé tekið hreint út, þ.e.a.s. fæðispeningur sé greiddur til allra báta, þótt ekki sé lögskráð á þá, ef aðeins þeir fullnægja reglunum í aflatryggingasjóðslögunum varðandi tryggingar og atvinnu af sjósókn. Ástæðan til þess, að ég legg til, að þetta taki gildi frá og með 19. febr. 1969, er svo sú, að sjómenn á smáum bátum með þilfari fengu þessa kjarabót frá þeim tíma og þykir mér því rétt að leggja til, að aðrir sjómenn á litlum bátum fái kjarabótina einnig frá þeim tíma. Ég vona, að þetta mál valdi engum ágreiningi, því að hér er aðeins verið að reyna að leiðrétta það misrétti, sem mér sýnist, að þarna hafi verið haft uppi og hef ég ekki fleiri orð um þetta, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.