16.11.1970
Neðri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (2806)

71. mál, velferð aldraðra

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af fjórum þm. Alþfl., annars stjórnarflokksins. Og það fjallar, eins og hv. frsm, gerði grein fyrir, um velferð aldraðra. Og þarna er vikið að ákaflega víðtæku og mikilvægu vandamáli í nútíma þjóðfélagi eins og allir vita. Gamlar hugmyndir um aðstöðu aldraðra í þjóðfélögum hafa verið mjög að breytast og á því er enginn vafi, að þetta er mál, sem taka verður mjög fastari tökum en gert hefur verið til þessa. Tökum, sem vissulega munu kosta býsna mikið fé og langt umfram það, sem nú er veitt til þessara málefna, en er engu að síður ákaflega mikilvægt. Flm. leggja til, að þannig verði unnið að þessu máli, að komið verði á laggirnar nýrri stofnun, Velferðarstofnun aldraðra, sem starfi í nánum tengslum við Tryggingastofnun ríkisins og hafi með höndum ýmiss konar rannsóknarverkefni og aðstöðu til þess að gera tillögur og styðja að ýmiss konar félagsstarfsemi og fræðslu og þess háttar verkefnum, eins og rakið er í frv. Og þessa starfsemi á að annast sjö manna stjórn, sem skipuð verði samkvæmt tilnefningu frá jafnmörgum stofnunum, eða réttara sagt sex stofnunum og einn stjórnarmaður á að vera skipaður af ráðh. Nú veit ég ekki, hvað mönnum kann að finnast um kerfi eins og þetta. Þetta er rammi og gagnsemin fer að sjálfsögðu eftir því, hvernig sá rammi verður fylltur út. Það er augljóst, að þarna er um að ræða stofnun, þar sem komið verður á laggirnar æðimörgum nýjum embættum og stundum hefur mönnum fundizt, að áhugi á tryggingarmálum væri býsna mikið bundinn því, að hægt væri að koma á laggirnar nýjum embættum. En það er nú svo með ákvarðanir Alþ. á mörgum sviðum, að Alþ. getur lítið annað gert en að ganga frá ramma og síðan er það verkefni þeirra, sem að málinu vinna, að fylla þann ramma af lífi og hreyfingu. Og vissulega virðist mér, að stofnun eins og þessa væri hægt að forma á þann hátt einnig. Það er hins vegar eitt atriði í sambandi við þetta, sem ég held að athuga þyrfti nánar og það er það, að ég sakna þess, að í stjórn þessarar stofnunar skuli ekki vera neinir fulltrúar fyrir gamla fólkið sjálft. Ég held, að það hefði verið hægt að finna leiðir til þess, að aldraða fólkið hefði átt sína fulltrúa í þessari stofnun og ég held, að það væri mikil nauðsyn.

En ég kvaddi mér nú ekki hljóðs til þess að ræða málefnalega um þetta frv. hér við umr., heldur vildi ég beina þeirri spurningu til hv. flm., hvað það er, sem fyrir þeim vaki með því að flytja þetta frv. Það er alkunna, að Alþfl, hefur nú um meira en 10 ára skeið verið í stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl. Í þeirri samvinnu hefur Alþfl. haft þann hátt á, að hann hefur reynt að koma áhugamálum sínum fram innan ramma stjórnarsamvinnunnar. Hann hefur farið fram á það við samvinnuflokk sinn, að þeir vinni saman að tilteknum áhugamálun Alþfl. og síðan hafa þau mál verið flutt, sem flokkurinn hefur komið fram, hafa verið flutt hér á þingi sem stjórnarfrv. Og Alþfl. hefur verið mjög fastur á þessum vinnubrögðum, sem ég er ekki að segja að séu neitt óeðlileg eða óvenjuleg og hann hefur verið svo fastur á þeim, að hann hefur hafnað því, að teknar séu ákvarðanir hér á þingi af þingmeirihluta, ef þær hafa brotið í bága við sameiginlegar ákvarðanir stjórnarflokkanna. M.a. hefur Alþfl. greitt atkv. gegn tillögum um tryggingarmál, vegna þess að þær tillögur voru ekki í samræmi við það, sem ríkisstj. hafði ákveðið og það enda þótt þm. Alþfl. hafi lýst yfir því, að þeir væru í hjarta sínu sammála þeim tillögum, sem þeir greiddu atkv. á móti. Ég geri ráð fyrir því, að Alþfl. hafi gert tilraun til þess að koma þessu frv. fram innan stjórnarsamvinnunnar, að Alþfl. hafi farið fram á það, að ríkisstj. sem slík flytti þetta frv. og að því hafi verið hafnað, Sjálfstfl. hafi ekki viljað á það fallast. Þá er mér spurn: Er það ætlun flm., að þetta frv. yrði samþ. hér á þingi, ef þeir yrðu í þingmeirihluta, jafnvel þótt Sjálfstfl. sé andvígir því? Eru þm. Alþfl. reiðubúnir til að vinna að framgangi þessa máls í samvinnu við þm. Alþb. og Framsfl., annaðhvort í því formi, sem frv. liggur hér fyrir, eða í einhverju breyttu formi, sem samkomulag yrði um? Eru þeir sammála því, að þannig verði að þessu unnið og eru þeir reiðubúnir til þess að standa að samþykkt þessa máls á þann hátt? Ég tel, að við þm. eigum heimtingu á að vita þetta, hvort þessi er raunin, því ef það liggur fyrir, að þeir séu reiðubúnir til slíkrar samvinnu við stjórnarandstöðuna, þá hygg ég, að stjórnarandstaðan væri reiðubúin til þess að hefja um það sérstaka samvinnu, hvernig hægt væri að koma þessu máli fram. En liggi þetta hins vegar ekki fyrir, sé Alþfl. ekki reiðubúinn til að afgreiða þetta mál á þennan hátt, þá hlýt ég að líta á flutning þessa frv. sem algera sýndarmennsku. Þá er frv. einvörðungu til þess flutt, að hægt sé að hæla sér af því utan þingveggjanna, en ekki til þess að koma málinu fram. Og það er því miður ekki að ástæðulausu, sem maður notar orðið sýndarmennsku í sambandi við vissa þætti í afskiptum Alþfl. af tryggingarmálum. Alþfl. hefur hælt sér mikið af forystu sinni í þeim málum, og ég hef ekki nokkra löngun til þess að hafa af honum þann heiður, sem hann á í sambandi við þau mál. Hitt virðist mér vera staðreynd, að Alþfl. hefur á undanförnum árum sinnt þessum málum allt of laklega. Einmitt á þeim árum, þegar afkoma var sem bezt á Íslandi og þjóðartekjur hvað hæstar, þá drógust tryggingarmálin ákaflega mikið aftur úr og nú er svo komið, að í tryggingarmálum erum við orðnir miklir eftirbátar t.a.m. annarra Norðurlandaþjóða.

Ég tel það mikinn ljóð á ráði Alþfl. í stjórnarsamvinnunni, hvað hann hefur sinnt þessum málum ákaflega laklega. Og mér hefur oft virzt, að Alþfl. hefði miklu meiri umhyggju fyrir samvinnunni við Sjálfstfl. en fyrir málstað hinna öldruðu og annarra þeirra, sem þurfa á aðstoð Tryggingastofnunarinnar að halda. Mér líður það sennilega ekki úr minni, þegar ég var hér viðstaddur í fyrra og þm. Alþfl. greiddu allir sem einn atkv. gegn lágmarkshækkun á bótum til aldraðs fólks og öryrkja, algerri lágmarksbót og greiddu síðan atkv. með hreinum smánarbótum, sem allir viðurkenndu að voru óviðunandi með öllu. Þeir réttlættu sig að vísu með því, að þessi mál yrðu tekin til endurskoðunar, þau yrðu tekin upp innan stjórnarsamvinnunnar. En það var ekki Alþfl., sem kom síðar fram með nokkra úrbót á þessu sviði. Það voru verkalýðsfélögin, það var einn árangurinn af baráttu verkalýðsfélaganna fyrr á þessu ári, að bætur almannatrygginga voru loksins hækkaðar svo að svolítið munaði um það.

Ég verð að segja það, að mér kom það mjög á óvart, þegar frv. hæstv. ríkisstj. um svokallaða verðstöðvun var hér lagt fyrir og þar inni reyndist vera grein um greiðslur frá Tryggingastofnuninni, að Alþfl, skyldi fallast á að leggja slíkt frv. fram, án þess að þar væri einnig um að ræða hækkun á bótum til aldraðs fólks og öryrkja og annarra þeirra, .sem viðskipti eiga við Tryggingastofnunina. Það frv. hefur mætt fullri andstöðu meðal fulltrúa verkalýðsfélaganna innan Alþfl. það hlýtur að hafa verið dálítið erfið ákvörðun fyrir stjórnmálamennina í þeim flokki að brjóta þannig gegn félögum sínum í verkalýðshreyfingunni og það hefði þá verið hægt að milda þau átök með því að taka þarna inn nauðsynlegar umbætur á starfsemi Tryggingastofnunarinnar. En þetta var ekki gert. Þarna er ekki orð um þau atriði. Hins vegar er okkur enn sagt, að þetta sé í endurskoðun innan ramma stjórnarsamvinnunnar, þetta sé í höndum sérstakrar nefndar. Ég vildi leyfa mér að bera fram fsp. um það, hvað líði störfum þessarar nefndar? Ég spyr um það m.a. vegna þess, að Alþfl. taldi ekki ástæðu til þess, að neinn fulltrúi frá Alþb. ætti sæti í þeirri nefnd. Það virðist svo sem A1þfl. telji, að þar eigi önnur sjónarmið að eiga meiri rétt á sér heldur en sá ótvíræði stuðningur við málefni aldraðs fólks og öryrkja, sem er innan Alþb. En þess vegna vitum við ekki hvað störfum þessarar nefndar líður. Ég vænti þess, að flm. þessa frv. geti greint mér frá því og enn fremur greint frá því, hvenær frv. um þetta efni verði lagt fyrir þing. Og mér þætti einnig fróðlegt, að þeir skýrðu okkur frá því nú þegar, hvort þeir hyggjast halda þannig á málum í þessari nefnd, að þeir verði bundnir af niðurstöðum hennar. Þar á ég við það, að þó það kæmi svo í ljós, að hér kynni að vera þingmeirihluti fyrir hærri greiðslum til aldraða fólksins og öryrkja og annarra heldur en nefndin kemst að samkomulagi um, ef Alþfl, stæði t.d. með stjórnarandstöðunni, mundi Alþfl. þá bregðast gamla fólkinu til þess að halda sér í stjórnarsamvinnuna? Einnig þetta mundi ég óska eftir að fá að vita.