16.11.1970
Neðri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2807)

71. mál, velferð aldraðra

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., að það frv., sem hér er til umr., er fyrst og fremst frv. til setningar laga um ramma utan um þá starfsemi, sem ráðgert er að fari fram á vegum Velferðarstofnunar aldraðra. Það er einnig rétt, að þetta frv. er frumsmíð og má þess vegna reikna með, að á því þurfi að gera einhverjar breytingar. Sú aths. hv. þm., að ekki sé gert ráð fyrir í frv. neinum fulltrúa í stjórn velferðarstofnunarinnar frá aldraða fólkinu er sennilega einnig réttmæt og sjálfsagt að taka hana til athugunar. Þá beindi hv. 6. þm. Reykv. til flm. frv. þeirri spurningu, hvað þeir meintu með því, hvort þeir væru búnir að semja um það fyrirfram við Sjálfstfl. að koma frv. í gegn eða hvort þeir hefðu óbundnar hendur um að fylgja því eftir, ef ekki tækist samstaða um þetta við Sjálfstfl. Það er nú svo, eins og ég reikna með að hv. 6. þm. Reykv. sé vel ljóst, að í stjórnarsamstarfinu er ekki samið um öll mál og það kemur fyrir á báða bóga, að stjórnarflokkarnir flytja mál í þinginu, án þess að um þau hafi verið samið fyrirfram. Þetta þarf þó ekki nauðsynlega að þýða, að annar hvor stjórnarflokkurinn verði á móti málinu. Á það reynir í meðferð þingsins. Ég geri ekki ráð fyrir því, að við, sem stöndum að flutningi þessa frv., þurfum sérstaklega að óttast það, að samstarfsflokkur okkar í ríkisstj. verði málinu mótfallinn. Þarna er heldur ekki um það að ræða, eins og hv. 6. þm. Reykv. lét liggja að, að stofna fjölmennt embættismannabákn. Það sést, þegar litið er á 4. gr. frv., hvernig nefnd þessi á að vera skipuð. Hún skal skipuð fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Húsnæðismálastofnun ríkisins, Læknafélagi Íslands, Dvalarheimili aldraðra sjómanna og Þjóðkirkjunni. Það verður náttúrlega ekki fullt starf, sem þessir aðilar inna af hendi, heldur verður þetta eins konar yfirnefnd, sem skipuleggja á það starf, sem fram fer á vegum margra einstakra aðila og reynir þá að samræma það eftir beztu getu. Að sjálfsögðu mundi þetta kosta það, að ráða þyrfti þessari stjórn einn starfsmann eða framkvæmdastjóra, en meira embættisbákn held ég að ætti ekki að þurfa að koma út úr þessu.

Hv. 6. þm. Reykv. vék að hækkun tryggingabótanna á þessu ári, fyrst þeirri hækkun, sem var afgreidd í sambandi við fjárlög og svo þeirri hækkun, sem ákveðin var síðar á árinu, eða eftir að kjarasamningar verkalýðsfélaganna höfðu tekizt. Ég sé nú ekki ástæðu til að karpa neitt við hv. 6. þm. Reykv. út af þessu. Staðreyndin er sú og það vænti ég, að allir hv. þdm. geri sér ljóst, að þegar hækkun tryggingabóta er ákveðin, þá þarf auðvitað um leið að ákveða, hvernig eigi að afla tekna til að standa undir þeirri hækkun. Við stóðum frammi fyrir þessu vandamáli í stjórnarflokkunum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár og niðurstaðan varð sú, að það var ekki talið fært að hækka fjárlögin nema sem svaraði til þess að greiða rúmlega 5% hækkun á tryggingabæturnar. Það samsvaraði hækkun eins og þeirri, sem verkalýðsfélögin fengu á árinu 1969 í uppbætur á sína kauptaxta og svaraði til hæstu launauppbóta, sem þá voru greiddar. Hins vegar get ég sagt það hér og er reiðubúinn að standa við það hvar sem er og hvenær sem er, að í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu á s.l. vetri var það fastmælum bundið milli stjórnarflokkanna, að síðar á árinu yrðu tryggingabæturnar endurskoðaðar með hliðsjón af því, sem gerðist í launamálum í þjóðfélaginu. Það var svo gert eftir að kjarasamningar höfðu tekizt í vor. Þá var ákveðið að hækka tryggingabæturnar um 20%. Um það var ekki samið af verkalýðshreyfingunni. Um þetta var samið af stjórnarflokkunum í beinu framhaldi af því, sem gerðist í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna á s.l. vetri. Ég sé svo ekki ástæðu til að svara frekar ræðu hv. 6. þm. Reykv. Ég veit, að hann er bæði skilningsríkur og velviljaður maður og ég vænti, að það standi ekki á honum að hjálpa til að koma þessu litla frv. okkar í gegnum þingið.