04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

80. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Mér er ánægja að svara þessum tveimur fsp. frá hv. 1. þm. Norðurl. e. N., sem undirbjó þetta frv., kynnti sér eins ítarlega og hún gat, hvernig hagað væri útvarpi frá löggjafarþingum í öðrum löndum. Um þetta skrifaði ég síðan allítarlega skýrslu og var hún prentuð sem fskj. með þessu frv. í fyrstu 3 skiptin, sem það var flutt, en af hagkvæmnis– og sparnaðarástæðum var þessi skýrsla felld niður nú, enda er hún orðin 4 ára gömul.

Í þessari skýrslu kemur fram, að við fundum 2 dæmi þess í heiminum, að útvarpað væri beint úr þingsölum öllum fundum frá byrjun til enda. Þetta er gert á Nýja–Sjálandi og í Ástralíu. Þetta mun hafa gefið heldur misjafna raun þar syðra. Er allalgengt að þm. þar ávarpi ekki þingheim, heldur séu í raun og veru að tala til kjósenda, sem þeir vonast til að hlusti og það er ekki talið greiða fyrir þingstörfum. Er áætlað þarna suður frá, að 2–3% af þjóðunum hlustaði að jafnaði töluvert á þetta beina útvarp.

Hins vegar er það hugmyndin með till. um að heimila ríkisútvarpinu að óska eftir umr., — sem gætu þá farið fram, ef forsetar þingsins leyfðu það, — þá er það hugmyndin, að hægt sé að grípa til þess að útvarpa umr., sem fara fram eftir venjulegum þingsköpum, en ekki eftir þessum sérstöku reglum um útvarp frá Alþ. Það er hugmyndin, að slíkt mundi gerast, þegar ástæða er til að ætla, að allur almenningum hafi sérstakan áhuga á því að heyra umræður um mál í heild. Það er reynsla í nágrannalöndum okkar, að slíkt útvarp, beint frá umr., hefur verið hið bezta útvarp frá þjóðþingunum, það sem vakið hefur mesta athygli.

Í sambandi við þingið og útvarpið vil ég skjóta því hér inn, þó að það komi þessu máli raunverulega ekki við, að í útvarpsráði hafa í mörg ár verið fluttar till. um að taka upp vikulegan þátt, sem héti „Þingið þessa viku“ eða eitthvað slíkt, þar sem alþm. kæmu einn í einu og segðu frá þingstörfum, eins og þau líta út frá þeirra sjónarhól þá viku. Þessi hugmynd er ættuð frá Bretlandi. Slíkur þáttur hefur verið í brezka útvarpinu árum saman og þykir mjög góður. Hugmyndin er að fá í þetta þá þm., sem ekki eru ráðh. eða flokksformenn og koma þar af leiðandi minna fram í sviðsljósið. Þessi hugmynd hefur ekki fengizt samþ. í útvarpsráði, því að einn af stjórnmálaflokkunum hefur beitt sér gegn henni, en hún er þess eðlis, að það er ekki hægt að framkvæma hana, nema flokkarnir vilji allir taka þátt í því. (Gripið fram í: Hvaða flokkur er það?) Það eru fulltrúar Sjálfstfl., sem hafa ekki fengizt til að samþykkja þetta. En ég hygg, að þetta væri gott ráð til þess að bæta sambúð þings og þjóðar og auka á þær upplýsingar, sem þjóðin fær um það, hvað er unnið hér og hvernig.

Hv. þm. spurði einnig um, hvort rætt hefði verið um að breyta fastanefndum. N. fór í gegnum þingsköpin, grein fyrir grein og ræddi þær allar. Þetta atriði kom vissulega til umræðu. En það hefur, eins og öllum er kunnugt, legið í loftinu allmikill áhugi á að breyta Alþ. í eina málstofu. Ef það yrði gert, mundi koma af sjálfu sér alger endurskoðun á nefndakerfi. Af þeim sökum var ekki hreyft við þessu máli. Ef það yrði niðurstaða úr þeim umr., sem nú standa yfir og hafa staðið yfir í nokkur ár, að breyta Alþ. ekki í eina málstofu, finnst mér að það verði fljótlega að leiðrétta nefndaskipulag í samgöngumálum, þar sem tvær n. úr deildum koma saman í eina n. og flytja till. í Sþ. Þetta er að vísu ekki brot á þingsköpum, því að till. er flutt af nm. sem einstökum þingmönnum. Þannig er þetta fóðrað, en í raun og veru er þetta klaufalegt skipulag, eins og hv. þm. bendir á.