18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2858)

88. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Síðasti hv. ræðumaður hefur sýnilega ekki gert sér það ljóst, hvers vegna þetta frv. hefur verið flutt. Það hefur verið flutt eingöngu vegna þess ástands, sem nú er í landbúnaðinum og það er allt annað mál um endurskoðunina á þessum lögum, það er allt annað mál. Og þar sem hann segir, að við höfum ekki komið auga á önnur atriði en þessi, þá er það náttúrlega alveg út í hött, vegna þess að þessi frv. öll eru miðuð við það ástand, sem er í landbúnaðinum og þess vegna á að samþykkja þau, hvað sem svo líður endurskoðun þessarar löggjafar.

Hann gat um það, að lánsupphæð og styrkur í sambandi við íbúðarhúsnæði þyrfti að vera svipað og er hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Ég vona, að hv. þm. hafi tekið eftir því, að ég sagði, að ef hann ætti að fylgja vísitölunni, þá hefði þetta þurft að vera 160 þús. Í frv. er lagt til, að það séu 150 þús. og það er vegna þess, að stofnlánadeildin hefur lánað til íbúðarhúsnæðis á þessu ári 450 þús. og ef styrkurinn væri færður upp í 150 þús., þá er það sama lán eins ag Húsnæðismálastofnunin veitir nú á þessu ári, þannig að þetta var athugað alveg og þessi tillaga var einmitt miðuð við, að Húsnæðismálastofnunin hefur lánað 600 þús. og Búnaðarbankinn 450 þús. og þess vegna var þessi tala sett inn þannig, en ekki látin fylgja nákvæmlega þeirri byggingarvísitölu, sem kannske hefðu verið alveg full rök fyrir.

Ég sakna þess nú, að hæstv. landbrh. er ekki hér í d. við þessar umr. og það er ekki sízt vegna þess, að hann gat um það í ræðu hér í Ed. á dögunum, að tekjur bændastéttarinnar miðað við tekjur viðmiðunarstéttanna væru nú á þessu tímabili betri heldur en áður hefði verið. Og í því sambandi sagði hann, að það mundi hafa vantað 60—70% upp á kaup bændanna 1957, — en sannleikurinn er sá, að ef farið er að athuga þessar tölur, þá er það fjarri lagi, því að samkv. skýrslum voru meðaltekjur bænda 1957 um 50 þús., en viðmiðunarstéttanna 59 þús. Það var því 9 þús. kr. munur, eða vantaði 18% upp á það kaup, sem bændurnir áttu að hafa. Og ef tekin eru árin 1954, 1957 og 1960, þá eru meðaltekjurnar 50 þús. kr. hjá bændastéttinni, en 6l þús. 333 kr. hjá viðmiðunarstéttunum, munurinn er 23%. En ef aftur eru athuguð þessi 7 ár, sem ég gat um áðan í minni fyrri ræðu, þá kemur það þannig út, að 1963 voru meðaltekjur bændanna 118 þús., en viðmiðunarstéttanna 164 þús., munurinn 46 þús. eða vantaði á kaup bændanna 39%. 1964 var meðalkaup bændanna 161 þús., en viðmiðunarstéttanna 204 þús., vantaði 43 þús. eða 27%. 1965 var meðalkaup bændanna 199 þús., en viðmiðunarstéttanna 248 þús., munurinn 49 þús. eða vantaði 25%. 1966 var meðalkaup bændanna 193 þús., en viðmiðunarstéttanna 289 þús., munurinn 96 þús. kr. eða 50%. 1967 voru meðaltekjur bændanna 95 þús., en viðmiðunarstéttanna 228 þús., vantaði 133 þús. á kaup bændanna eða 140%. 1968 vorn meðaltekjur bændanna 121 þús., viðmiðunarstéttanna 238 þús. kr., vantaði 117 þús. upp á kaup bændanna eða 97%. 1969 var meðalkaup bændanna 149 þús., viðmiðunarstéttanna 277 þús., vantaði 128 þús. eða 86%. Og sé meðaltað tekið af þessum 7 árum, þá lítur það þannig út, að meðalkaup bændanna er 148 þús., en viðmiðunarstéttanna 235 þús. og 400 kr., vantar 69%, eða á þessum 7 árum, eins og áður getur, 612 þús. eða til jafnaðar á ári 87 þús. og 400 kr., þá sjá menn, hvernig þróunin hefur verið þessi árin. Bezta árið eftir þessu er 1965, þá vantar 25%, en það ár, sem hæstv. landbrh. gat um í sinni ræðu og taldi, að þá hefði vantað 60–70%, eftir þessum skýrslum þá var vöntunin 18% það ár. Þetta ætti að vera okkur öllum þörf lexía.