18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (2862)

88. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að láta hæstv. fjmrh. svara síðasta ræðumanni með því að lesa upp úr ræðu, sem hann flutti hér á Alþ. 1959, með leyfi forseta:

„Er hér um að ræða heimild fyrir ríkisstj. til að gefa útvegsmönnum eftir þær skuldakröfur, sem ríkissjóður hefur eignazt á þá vegna innlausnar á lánum, sem hann er í ábyrgð fyrir vegna þurrafúa í fiskiskipum.

Fyrir nokkrum árum fór að verða vart nokkurra skemmda í ýmsum fiskiskipum af völdum svo kallaðs þurrafúa. Hafa ýmsir útvegsmenn orðið fyrir þungum búsifjum af þessum sökum. Óumflýjanlegt var talið að hlaupa undir bagga með þessum mönnum og hafa í fjárlögum síðustu ára verið veittar ríkisábyrgðarheimildir fyrir lánum til viðgerðar á skipum þessum. Frá upphafi hefur verið reiknað með því, að ríkissjóður taki að sér greiðslu þessara lána, enda afkoma útvegsins ekki slík, að útvegsmenn gætu tekið á sig slíkt tjón, því að verðuppbætur til útvegsins voru ekki miðaðar við, að auðið væri að mæta slíkum áföllum. Var þetta í rauninni staðfest af fjmrn., þegar ríkisábyrgðin var veitt, enda þótt lánin væru til svo skamms tíma, að þess væri engin von, að viðkomandi útvegsmaður gæti greitt þau á svo skömmum tíma. Síðan hefur verið sett löggjöf um sérstaka tryggingu á fiskiskipum til þess að mæta þessum áföllum hér eftir. Í samningum við útvegsmenn um síðustu áramót féllst ríkisstj. á, að Útflutningssjóður greiddi iðgjöld af þurrafúatryggingum fiskiskipa, svo sem gert hefur verið með önnur tryggingagjöld.

Ef þeir útvegsmenn, sem fengið hafa með ríkisábyrgð lán til þess að greiða með áfallinn kostnað vegna þurrafúaskemmda, yrðu krafðir um þau lán, þá væri hlutur þeirra gerður lakari en hinna, sem hér eftir verða fyrir hliðstæðum áföllum. Af þeim sökum féllst ríkisstj. á þá ósk Landssambands ísl. útvegsmanna, að ríkissjóður tæki að sér greiðslu á þeim þurrafúalánum, sem útvegsmenn þegar hafa tekið vegna þurrafúaskemmda.“

Þetta er úr ræðu hæstv. fjmrh. 1959 og vona ég, að það sé búið að svara síðasta ræðumanni fullkomlega.