18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (2863)

88. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Sverrir Júlíusson:

Hv. 5. þm. Norðurl. e. vitnaði hér í ræðu frá 1959 og ég efast ekki um, að hann fari rétt með. En sannleikurinn er sá, að þótt hann telji, að þarna hafi hann fengið mjög gott tækifæri til að svara, þá standa mín orð allgjörlega eins og áður, því að 1959 var gengið skakkt, þá var einmitt verið að færa tekjur á milli þjóðfélagsþegnanna með svokölluðum uppbótum frá Útflutningssjóði. Það er alveg rétt, að á þeim tíma voru iðgjöldin greidd úr ríkissjóði. (Gripið fram í.) Þegar Alþ. hafði ekki möguleika til þess að breyta genginu, eins og krafa útgerðarmanna var, þá fóru þeir heldur inn á það að greiða iðgjöldin og það var það, sem gert var og er þess vegna hluti af þeirri millifærslu, sem átti sér stað. Þess vegna er ekki hægt að segja, að þetta hafi átt sér stað.

Til viðbótar við það, sem ég sagði áðan, vil ég segja það, að vegna þess að maður heldur yfirleitt, að þm. lifi í nútímanum, sagði ég að á árunum 1950—1960 hefði þetta komið upp og það voru ábyrgðir, það vissi ég vel um, það voru ábyrgðir, sem ríkissjóður gekk í, en Útflutningssjóður greiddi það eins og ýmsar niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir, sem sumir hafa viljað telja styrk til bændanna, aðrir til neytendanna, en var bara eðlileg ráðstöfun vegna þjóðfélagsaðstæðna.

En til viðbótar því, sem ég sagði áðan um greiðslu Tryggingasjóðs, vil ég segja það í sambandi við þurrafúaiðgjöldin, að ekki er hægt að segja, að ríkissjóður greiði nokkurn hlut af þessu, því að í dag er það þannig, að útvegsmenn verða að greiða 23% af iðgjöldunum, en Tryggingasjóður borgar 77%. Ég vona, að hæstv. þm. sé svarað.