18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2868)

102. mál, fjórðungsdeildir Landsspítala Íslands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um einn þátt heilbrigðismála, þann að bæta og jafna aðstöðu þegnanna í öllum landshlutum varðandi sjúkrahúsaþjónustu. Frv. heitir: Frv. til l. um fjórðungsdeildir Landsspítala Íslands. Að því miðar frv. að gera Landsspítalann að raunverulegum landsspítala í stað þess að sú stofnun er nú í reynd miklu fremur Reykjavíkurspítali, þó að hann sé kostaður af ríkinu.

Í 1. gr. frv. er lagt til, að ríkið reki deildir í öllum landsfjórðungum og þannig sé Landsspítalinn með höfuðspítalann í Reykjavík, en síðan deildir á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og á Suðurlandi, ef það þætti tryggja betri þjónustu heldur en með öðrum hætti yrði, en Suðurlandið nýtur miklu betri samgangnaaðstöðu heldur en aðrir landshlutar miðað við Reykjavík. Enn fremur er lagt til í frv., að fjórðungsdeildir Landsspítalans skuli vera búnar fullkomnustu lækningatækjum og vera undir stjórn vel menntaðra sérfræðinga bæði í skurðlækningum og lyflækningum. M.ö.o. að tryggja, að þessar fjórðungsdeildir séu líkt búnar og aðalspítalinn, Landsspítalinn í Reykjavík og geti veitt áþekka þjónustu og hafi sams konar aðstöðu til þess.

Það er ekki tekið fram í þessu frv., hvaða sjúkrahús í hinum ýmsu landsfjórðungum skuli verða fyrir valinu sem Landsspítaladeildir, heldur skuli þau sjúkrahús í hverjum landsfjórðungi, sem þannig séu staðsett og þyki það vel búin, að þau séu öðrum fremur hæf til þess að gerast fjórðungsdeildir Landsspítalans, til þess valin og skuli þá ríkið hefja samninga við eigendur þessara sjúkrahúsa, sem fyrir valinu verða og freista þess, að ríkið gerist þannig eigandi þessara sjúkrahúsa og geri þau þar með að deild úr Landsspítala Íslands.

Þá er að lokum það atriði í frv., að ríkisstj. sé heimilt að fela Tryggingastofnun ríkisins að sjá um hagkvæman rekstur fjórðungsdeilda, ef heilbrmrh. óski þess. Einnig mætti hugsa sér, að dagleg stjórn sjúkrahúsa í hinum ýmsu landsfjórðungum lyti e.t.v. stjórn sjúkrasamlags á þeim stað, er sjúkrahúsdeildin starfaði á. Það er vafalaust á færi smærri bæjarfélaga að reka sjúkraskýli og lítt búin sjúkrahús, en þegar kemur að því að eiga að reka vandað og vel útbúið sjúkrahús, þá er þar um að ræða svo umfangsmikinn og dýran rekstur, að reynslan er löngu búin að sýna það, að undir slíkri byrði rísa bæjarfélögin á Íslandi ekki, svo að vel sé. Meginhugsun frv. er sú að reyna að tryggja þegnunum sem jafnast öryggi í heilbrigðismálum, hvar sem þeir eru búsettir á landinu eða m.ö.o. án tillits til búsetu þeirra. Mér finnst það ekki réttlátt, að ríkið reki fullkomið sjúkrahús í Reykjavík, algerlega á ríkisins kostnað, en ætli síðan bæjarfélögunum úti á landi að taka á sig þungar byrðar vegna sjúkrahúsreksturs. Þetta er auðsætt misrétti og misrétti, sem ríkisvaldinu ber að leiðrétta. Þarna eru byrðarnar lagðar á fólkið úti á landsbyggðinni umfram það, sem íbúar höfuðborgarinnar verða á sig að taka eða Reykjavíkurborg sem bæjarfélag.

Í gildandi löggjöf er það viðurkennt, að það sé skynsamlegt að efla eitt sjúkrahús öðrum fremur í sérhverjum landsfjórðungi. Þannig eru til komin hin svokölluðu fjórðungssjúkrahús og ég veit ekki annað heldur en þetta hafi þótt vera sanngjarnt og réttlátt og vel gefast. Þau hafa verið efld umfram önnur sjúkrahús í landsfjórðungunum, þessi fjórðungssjúkrahús og með auknum ríkisstyrk hefur sveitarfélögunum verið gert kleift að rísa undir þessari annars þungu byrði. En samt sem áður hefur það komið í ljós, að bæjarfélögin orka ekki að lyfta þeirri byrði, sem þeim er með þessu ætlað. Það vill fara svo, að hin minni bæjarfélög, sem þessa byrði hafa, geta ekki annast viðhald sjúkrahúss og sjúkrahússtækja, þannig að vel sé og geta ekki heldur risið undir kostnaði af að tryggja sjúkrahúsunum nægilega fullkomna og fjölbreytta sérfræðiþjónustu. Þessi fjórðungssjúkrahús eru rekin með geysilega miklum reksturshalla frá ári til árs og þar með er lögð mjög þung byrði á gjaldendur viðkomandi bæjarfélags. Þetta væri kannske afsakanlegt, ef þessi sjúkrahús væru eingöngu heilbrigðisstofnanir fyrir viðkomandi bæjarfélag, en það eru ekkert þeirra. Skýrslur sýnu, að í þeim öllum eru sjúklingarnir að meiri hluta utanbæjarsjúklingar og þannig er byrði lögð ranglega á íbúa og skattþegna þess bæjarfélags eingöngu, sem sjúkrahúsið er í. Að vísu mun vera heimild í lögum um það, að slíkt sjúkrahús hafi rétt til þess að reikna hærri daggjöld af utanbæjarsjúklingum, en slíkt er, þegar til framkvæmda kemur, lítt framkvæmanlegt.

Þá er eitt atriði, sem ég vil vekja athygli hv. þm. á og það er það, að það væri eðlilegast, að þau bæjarfélög, sem þessi þunga byrði er á lögð að hafa hin fullkomnari sjúkrahús og reka þau, réðu sjálf Fjárhagslegum grundvelli þeirra og gætu ákveðið að eigin vild upphæð daggjalds, gjaldsins, sem greitt skal fyrir hvern legudag sjúklings á slíku sjúkrahúsi. En það fá þau ekki, það er ríkisvaldið, sem það skammtar. Stjórnvöld taka ákvörðun um það, hvað Landsspítalinn skuli fá í gjöld fyrir veitta þjónustu frá sjúklingunum, en síðan er ákveðið, að ríkið beri þar ákveðinn, vissan, ríflegan hluta, og bera fjárlögin þess merki, að þar er ekki um neina smáupphæð að ræða. En sjúkrahúsin úti á landi, verða síðan að sætta sig við þá ákvörðun, sem stjórnvöld taka varðandi dagpeningana, sem þau verða að byggja fjárhagsafkomu sjúkrahússins á.

Ég tel, að það megi telja til kosta þess fyrirkomulags, sem hér er lagt til, að væri Landsspítali Íslands rekinn með deildir í öllum landsfjórðungum, þá væru deildirnar augljóslega hluti af einni og sömu stofnun. Það mundi opna leiðir til þess, að Landsspítalinn gæti sent sína beztu sérfræðinga, þegar þörfin kallaði, út í fjórðungsdeildirnar, til Norðurlandsdeildarinnar í þetta skipti, í annað skipti kannske annan sérfræðing til Ísafjarðarspítala, eða fjórðungsdeildarinnar á Vestfjörðum og með sama hætti til Austfjarða. Færa þannig hina hæfustu og fullkomnustu sérfræðiþjónustu til, eftir því sem þörfin kallaði á og ætti það að vera sem sjálfsagður hlutur, þegar aðeins væri að ræða um tilfærslu sérþekkingarinnar milli ákveðinna deilda einnar og sömu stofnunar. Ég tel, að þetta væri líka betri nýting á dýrum sérfræðilegum kröftum þjóðarinnar. Þetta gildir síður, þegar um er að ræða sérstakar bæjarreknar stofnanir úti um landið og aftur ríkisrekna stofnun í Reykjavík. Ég held líka, að það megi færa það fram sem rök í þessu máli, að tregða lækna til þess að fara út á landsbyggðina er stundum rökstudd af læknunum sjálfum með því, að það sé full hætta á því, að þeir forpokist með því að starfa langtímum saman, kannske alla ævina, úti á landi. Þeir þurfi endurnýjunar við í sínum flóknu fræðum og þetta má rétt vera. En ég tel einmitt, að þessi flutningur manna frá fjórðungsdeildunum til aðalspítalans og öfugt geti gert það að verkum, að læknarnir fái miklu fremur að flytja sig til, eftir því sem verkefnin gera það mögulegt.

Nú upp á síðkastið hafa menn, sérstaklega innan læknastéttarinnar, barizt fyrir þeirri breytingu á læknaskipan í landinu, að komið væri á fót læknamiðstöðvum, sem réttara værri þó að kalla lækningamiðstöðvar. Þessi hugmynd mundi mjög þjóna því markmiði, að læknarnir settust margir saman á þau þéttbýlissvæði, þar sem þeim væri sköpuð bezt starfsaðstaða. Það þýðir t.d. ekkert að setja fjóra, fimm eða sex lækna á Ísafjörð, ef þeir hafa svo ekki starfsaðstöðu. En þá þyrfti fjórðungssjúkrahús Ísafjarðar að vera ekki aðeins leguspítali langlegusjúklinga, ekki aðeins lyfja– og handlækningadeild, heldur og rannsóknarspítali, til þess að þessir menn gætu innt sín störf af hendi á fullnægjandi hátt og að sjúkrahúsið yrði ekki aðeins millistöð, sem sjúklingarnir úr byggðunum í kringum Ísafjörð yrðu fluttir á í bili, en síðan sendir áfram til Reykjavíkur til frekari rannsókna og til þess að njóta þeirra möguleika að fá sérfræðilega meðferð af fyrstu gráðu. Ég held, að þetta frv. komi því alveg heim við hugmyndina um læknamiðstöðvar. Það mætti þannig alveg vera, að höfuðstöðvarnar yrðu a.m.k. ein í landsfjórðungi. Þetta frv. gerir raunar ráð fyrir því, að vel kæmi til mála, að fjórðungsdeildirnar væru hafðar tvær í hinu víðlenda og fjölmenna Norðurlandi og það yrði þannig sennilegast sín fjórðungsdeildin í hvoru kjördæmi, Norðurl. v. og Norðurl. e., enda um allfullkomin sjúkrahús að ræða í báðum þessum kjördæmum.

Í umr. nú nýskeð vestur á Ísafirði um læknamiðstöð þar fyrir Ísafjarðarsvæðið, mun það mjög hafa komið fram og verið gerðar um það ályktanir, eftir því sem mér er bezt kunnugt, að nauðsynlegt væri þá jafnframt, ef þar væru orðnir staðsettir fjórir til sex læknar, að þeirra starfsaðstaða væri að öllu leyti betur tryggð en hægt væri að gera í núverandi sjúkrahúsi á Ísafirði. Þannig finnst mér, að hugmyndirnar um læknamiðstöðvar og hugmyndirnar um deildaskiptingu Landsspítalans takist í hendur og mætist á miðri leið.

Ég held, að ég hafi með þessum orðum gert nægilega ljóst, hvaða nýmæli hér er á ferðinni varðandi sjúkrahúsaþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna og meginefnið er það, að aðstaða þegnanna sé gerð sem jöfnust ti1 þess að njóta fullkominnar heilbrigðisþjónustu úti um landsbyggðina og það sé að mjög verulegu leyti hægt að gera með því, að starfandi séu fullkomnar deildir frá Landsspítala Íslands í öllum landsfjórðungum. Hins vegar má segja það, að fullkomnu jafnrétti á landsbyggðinni verði ekki náð með neinu öðru en því, að ríkið kosti öll sjúkrahús og það væri vitanlega endanlega jafnréttisskrefið. En skref í áttina er það og millispor, að efla eitt fullkomið sjúkrahús í hverjum landsfjórðungi og hafa það undir sameiginlegri yfirstjórn með hinum fullkomna Landsspítala, sem hefur yfir að ráða allri þeirri sérfræðiþjónustu í heilbrigðismálum, sem Íslendingar yfirleitt eiga kost á.

Ég legg til, herra forseti, að frv. sé vísað til heilbr.— og félmn., er umr. lýkur.