18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (2869)

102. mál, fjórðungsdeildir Landsspítala Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, en byrja á því að benda hv. flm. á, að það mun hafa slæðzt prentvilla inn í 5. línu 1. gr. frv. sem skiptir ekki máli efnislega, en þyrfti að leiðréttast við uppprentun. Ég hygg, að hv. þm. hafi áður flutt frv. svipaðs efnis og þetta. Þó kann að vera, að það hafi ekki verið alveg sams konar og minnir mig, að fleiri þm. stæðu þá að flutningi frv., þ.á.m. einn af þm. Norðurl. e., ef ég man rétt. En í stuttu máli sagt vil ég lýsa yfir því, að ég tel þetta frv. mjög athyglisvert og ég vil beina því til þeirrar hv. n., sem fær það e.t.v. til meðferðar, að hún gefi þessu máli gaum og þeim viðfangsefnum, sem þarna er um að ræða.

Það er vitanlega svo, að það er engan veginn sjálfsagt, að ríkið reki Landsspítala eingöngu í Reykjavík. Og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það ætti að taka til athugunar, að landsspítalar yrðu reknir víðar en í Reykjavík. Hins vegar vil ég leyfa mér að benda á það, að ég held að það væri heppilegra að reka landsspítala annars staðar á landinu eða landsspítaladeildir þannig, að þar væru sérstakar stjórnir eða stjórnarnefndir, sem fjölluðu um rekstur þeirra spítala, skipaðir mönnum úr þeim landshluta, sem þar á hlut að máli. Ég held, að það væri heppilegra, en að láta slíkan landsspítala eða landsspítaladeild heyra undir stjórn Ríkisspítalana hér í Reykjavík. Mætti þá gjarnan vera beint samband á milli slíkrar landsspítalastjórnar í landshluta og þess rn., sem fer með þessi mál. Ég held, að slíkar sérstjórnir mundu tryggja það betur, en ella yrði gert, að svona spítalar yrðu ekki útundan og að fullnægt yrði ákvæði 3. gr. þessa frv. um fullkomin lækningatæki og vel menntaða sérfræðinga, svo og húsakost.

Ég held, að ég hafi bent á það einhvern tíma hér á hinn háa Alþ. í sambandi við læknaskortinn, sem einkum er tilfinnanlegur í strjálbýlinu, að mér sýndist það ekki ólíkleg leið til að bæta úr þessum læknaskorti, a.m.k. um stundarsakir, að aðstoðarlæknum við Landsspítalann eða aðra spítala, sem kynni að semjast við, væri falið að þjóna þessum héruðum um stundarsakir eða jafnvel um það samið við þá, þegar þeir eru ráðnir til spítalanna, sem auðvitað mundi þýða það, að þessir læknar yrðu að inna af hendi þessa þjónustu, en hefðu þá jafnframt tryggingu fyrir því, að þeir gætu horfið aftur að sínu aðstoðarlæknisstarfi. Þetta mundi þýða það, að það yrði að ráða fleiri aðstoðarlækna, en ella að Landsspítalanum og öðrum spítölum, sem hér er um að sæða. Ég er hv. flm. alveg sammála um það, að ef stofnaðir yrðu svona landsspítalar í öðrum landshlutum eða landsspítaladeildir, þá væri það mjög athugandi, að þeir inntu af hendi slíka þjónustu, hver, í sínum landshluta, þar sem læknislaust verður í héraði.

Fleiri orð skal ég svo ekki um þetta hafa, en það er alveg rétt, sem ég held, að hv. frsm. hafi minnzt á í framsöguræðunni, að sums staðar þykir það ekki með öllu eðlilegt, hvernig daggjaldanefndin hefur ákveðið dagpeninga í hinum einstöku sjúkrahúsum og virðist þetta ekki vera í fullu samræmi við þá þjónustu, sem hlutaðeigandi sjúkrahús veita, eða geta veitt.