18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

116. mál, Byggðajafnvægisstofnun ríkisins og ráðstafanir að verndun og eflingu

Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Enn flytjum við nokkrir þm. Framsfl. frv. til 1. um Byggðajafnvægisstofnun ríkisins og ráðstafanir til að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og koma í veg fyrir eyðingu lífvænlegra byggðarlaga, að þessu sinni á þskj. 125. Ég skal ekki vera margorður um þetta frv., en leyfi mér að vísa til þeirrar ýtarlegu grg., sem fylgir því og þess sem um það hefur verið sagt og tilgang þess á fyrri þingum, en þetta mál er margþætt. Mér þykir þó rétt að geta þess, að í frv. á þskj. 125 eru tvö nýmæli, sem ekki voru í frv. í fyrra.

Annað er í 11. gr. frv., þess efnis, að Byggðajafnvægissjóði sé heimilt að greiða sem óafturkræft framlag vexti af bráðabirgðalánum, sem tekin eru til að flýta fyrir opinberum framkvæmdum, sem búið er að gera ráð fyrir og veita fé til síðar, t.d. í vegáætlun og einnig, að sjóðnum sjálfum sé heimilt að veita slík bráðabirgðalán, ef nauðsyn ber til. Þetta ákvæði er í 11. gr., 2. mgr.

Hitt nýmælið er í 17. gr. frv., en samkv. henni er byggðajafnvægisstofnuninni ætlað að gera áætlun um dreifingu ríkisstofnana um landið og eiga þannig frumkvæði í því máli, sem líka hefur oft verið rætt hér á Alþ.

Það er í fáum orðum sagt meginefni og tilgangur þessa lagafrv., að komið verði á fót sjálfstæðri og fjárhagslega öflugri ríkisstofnun, sem einbeiti sér að því viðfangsefni einu að stuðla að jafnvægi milli landshlutanna og halda landinu í byggð. En til þess að byggð haldist, hvort sem hún er í þéttibýli eða strjálbýli, í sveit eða við sjó, þá þarf hún að eiga sér vaxtarmöguleika og framtíðarvonir eins og landið eða þjóðin í heild. Slíka vaxtarmöguleika og framtíðarvonir er byggðajafnvægisstofnuninni ætlað að glæða. Hún á ekki eingöngu að hjálpa þeim, sem geta hjálpað sér sjálfir með framtaki eða fjármunum, heldur einnig að hafa sjálf forgöngu með áætlanagerð og á annan hátt, þar sem þess kann að vera þörf. Gert er ráð fyrir því í frv., að fjármagni hennar verði varið til lánveitinga, en einnig til styrktar og þátttöku í skapandi starfi, skapandi uppbyggingarstarfi og að opinber skýrsla verði birt um fjármagnsráðstöfun hennar ár hvert. Gert er ráð fyrir, að byggðajafnvægisstofnunin hafi náið samráð og samstarf við sveitar– og sýslufélögin og sambönd þeirra og þegar frá líður, mætti hugsa sér, að landshlutasamtök skipuðu stjórn hennar að meira eða minnaleyti, enda hver sínum hnútum kunnugastur.

Í skýrslunni, sem birt er á bls. 4 í grg., um breytingar á fólksfjölda í einstöktum landshlutum á tímabilinu 1938–1968, kemur glöggt fram sú blóðtaka, sem flestir landshlutar utan höfuðborgarsvæðisins hafa orðið fyrir á þessum 30 árum, samhliða því, að þjóðin eða mikil1 hluti hennar hefur verið að hnappast saman á litlu landssvæði hér á milli Straumsvíkur og Kollafjarðar. Skýrslan, þar sem borinn er saman mannfjöldinn 1. des. 1938 og hins vegar 1. des. 1968, sýnir það, hver mannfjöldinn hefði verið í hverjum landshluta, ef fjölgun hefði verið jöfn, þ.e.a.s. fjölgun þjóðarinnar hefði alls staðar verið sami hundraðshluti og þá einnig, hverjar þessar tölur eru nú. Með því að fara yfir þessar tölur, er glögglega hægt að átta sig á hinum miklu fólksflutningum á þessu 30 ára tímabili. En fyrra árið, sem þarna er valið, er síðasta árið fyrir heimsstyrjöldina síðari, en hún olli svo sem kunnugt er miklu umróti, einnig hér á landi og síðara árið er svo 30 árum síðar. Nú er svo komið, að við Íslendingar, sem erum ekki nema 200 þús. manna, erum búnir að koma okkur upp stórborg. Manni var nú kennt það í landafræðinn fyrrum, að stórborg væri borg, sem hefði 100 þús. manna og fleiri. Við erum sem sé búnir að koma okkur upp stórborg, þar sem höfuðborgarsvæðið er og þar á heima þó nokkru meira en helmingur þjóðarinnar. Ég held, að þetta sé einsdæmi í veröldinni, að rúmlega helmingur þjóðar eigi heima í einni borg og man a.m.k. ekki eftir því í svipinn, að það eigi sér stað annars staðar en hér. Og þó erum við þjóð, sem búum í stóru landi og eigum stórt land með miklum landsgæðum. Forustumennirnir, sem beittu sér fyrir sjálfstæði Íslands á öldinni, sem leið, hefðu sennilega haft tilhneigingu til að hugsa sem svo, að því fjölmennari sem þjóðin yrði, því auðveldara yrði henni að byggja þetta land og koma í veg fyrir, að það eyddist að meira eða minna leyti. Það hefði heldur ekki verið fjarri lagi að hugsa sér á sínum tíma, að tæknin, sem þjóðin hefur tekið í þjónustu sína og er að taka í þjónustu sína í vaxandi mæli, mundi hjálpa henni til þess að byggja landið og í baráttunni við þá örðugleika frá náttúrunnar hálfu, sem óneitanlega eru hér til staðar. Og vissulega ætti þetta að vera svo. En það hefur ekki verið svo undanfarna áratugi. Ég held, að það sé af því að þjóðfélagið hefur ekki verið vakandi í þessum málum og hefur látið reka á reiðanum. En mín skoðun er sú, og ég hygg yfirleitt okkar, sem standa að þessu frv. og margra annarra, að það sé eitt stærsta sjálfstæðismál þessarar þjóðar og líklega hið stærsta, að henni mistakist ekki að halda uppi byggð í landinu, því að ef svo fer, að það mistekst og landið verður að meira eða minna leyti autt af mönnum eins og jú sveitarfélög eru nú orðin, þá held ég, að sjálfstæði Íslands sé í mikilli hættu og henni bráðri. Það mun koma í ljós, að það líta ekki allir svo á hér á jörð, þó að það sé nú stundum orðað, jafnvel hér á landi, að þetta land sé á mörkum hins byggilega heims. En þetta land er ákaflega vel byggilegt og sennilega á það eftir að koma í ljós á komandi tímum, að það sé eitt, af byggilegustu löndum þessa heims. A.m.k. erum við Íslendingar enn sem komið er lausir við ýmislegt af því, sem nú veldur mönnum mestum áhyggjum í þéttbýlum löndum með mildara loftslagi.

Eins og ég sagði í öndverðu, er það meginefni og tilgangur þessa frv. að koma upp sjálfstæðri og fjárhagslega öflugri ríkisstofnun til að vinna að verndun og eflingu landsbyggðarinnar á þann hátt, sem nánar er vikið að hér í grg. Þróunin sem ég nefndi hér áðan í sambandi við mannfjöldatölurnar, hófst ekki fyrir 30 árum, þó að þetta tímabil hafi nú verið sérstaklega athugað. Það er lengra síðan þessi þróun hófst. En hún hefur verið nokkuð ör síðan í byrjun síðari heimsstyrjaldar. Hún hefur verið nokkuð ör og nú fyrir örfáum árum gerðust hér atburðir, sem geta orðið vísirinn að því, að hún verði ennþá örari á komandi tímum, ef ekki verður að gert. En þar á ég við stórvirkjunina hér sunnanlands og iðjuverið mikla, sem stofnað var til hér í útjaðri Reykjavíkursvæðisins, en nú eru horfur á, að haldið verði áfram á þessari braut, að hér sunnanlands verði haldið áfram að virkja stöðuvötn, og fyrir þessu Alþ. liggur frv. þess efnis. Það liggur fyrir þessu Alþ. frv. um vatnsvirkjun, sem er miklu stærri en Búrfellsvirkjunin, tvær vatnsvirkjanir, sem eru samtals miklu stærri en Búrfellsvirkjunin og sem ekki er markaður fyrir í náinni framtíð hér í þessum landshluta. Mér sýnist það auðsætt, að ef þessar virkjanir verða framkvæmdar, hljóti að verða gerðar ráðstafanir til þess að skapa þennan markað og þá sennilega með auknum iðjuverum eða röð iðjuvera á þessu sama svæði. En það gefur auga 1eið, að ef slíkar ráðstafanir eru gerðar, margföldun raforkuframleiðslunnar og mikil aukning stórra iðjuvera í einum landshluta, þá náttúrlega stuðlar það að því að hraða þeirri þróun, sem við margir köllum óheillaþróun í byggðamálum þjóðarinnar. Þetta mun mönnum hafa verið ljóst ýmsum, þegar Búrfellsvirkjunin var ákveðin og álverið í Straumsvík, því að um það leyti var sett á laggirnar stofnun sú, sem heitir Atvinnujöfnunarsjóður og stendur í beinu sambandi við stofnun álverksmiðjunnar. Henni voru meira að segja ætlaðar tekjur nokkrar af álverksmiðjunni. Ég hef alltaf litið á stofnun Atvinnujöfnunarsjóðs sem viðurkenningu á því af hálfu ríkisvaldsins eða ráðandi manna, að það, sem ég sagði áðan um áhrif svona framkvæmda á takmörkuðu svæði á byggðaþróunina, viðurkenningu á því, að þau áhrif kynnu að vera fyrir hendi og þyrfti að spyrna þar á móti. Þess vegna var þessi sjóður stofnaður. En stofnun eins og Atvinnujöfnunarsjóður er bara ákaflega máttlítill gagnvart svona gífurlegri fjárfestingu eins og þeirri, sem þarna er um að ræða og útlit er fyrir, að um verði að ræða á næstu árum, ef svo heldur fram stefnunni. Hér þarf að koma til miklu öflugri stofnun fjárhagslega, stofnun, sem eingöngu sinnir þessum verkefnum, jafnvæginu mi1li landshlutanna og eflingu landsbyggðarinnar, eins og t.d. hliðstæð stofnun í Noregi gerir, en hefur það ekki sem hjáverk.

Ég sagði í öndverðu, að ég ætlaði ekki að vera margorður um þetta mál og ég skal heldur ekki vera það. Það er ákaflega margt, sem kemur upp í hugann, þegar farið er að ræða um þetta stórmál, þetta mál, sem kannske er stærra og afdrifaríkara fyrir þessa þjóð og framtíð hennar heldur en nokkurt annað mál, sem við höfum með höndum um þetta leyti, þ.e.a.s. hvernig okkur tekst að byggja landið. Það er margt, sem ástæða væri til að ræða um hér á þessum stað í þessu sambandi og hefur verið rætt áður um sumt af því, en ég ætla ekki að ræða það frekar nú og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., en þangað hefur þessu máli verið vísað á undanförnum þingum.