23.11.1970
Neðri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

125. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 146 frv. til l. um kaup og rekstur á Vestfjarðaskipi. Við vitum, að samgöngumál hér á landi eru veigamikill þáttur til að halda jafnvægi í byggð landsins. Góðar og greiðar samgöngur eru stór þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar. Fyrir nokkrum árum fór að bera á miklum fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi þrátt fyrir gott atvinnulíf og höfðu menn af þessu þungar áhyggjur og reyndu þá að gera sér grein fyrir vandanum og þá fæddist sú hugmynd að fá lánað fjármagn hjá alþjóðastofnun til að sporna við þessari þróun eða fólksflóttanum. Hingað voru fengnir norskir sérfræðingar til að gera athuganir og rammaáætlun, sem síðan hefur verið nefnd Vestfjarðaáætlun og hugmyndin var, að á þessari áætlun skyldu vera ýmsir þættir, svo sem uppbygging atvinnulífsins, samgöngumál, félags– og heilbrigðismál og skyldi unnið að þessum þáttum í áföngum. Þegar hinir norsku sérfræðingar voru búnir að kynna sér að einhverju leyti málavexti á Vestfjörðum, þá töldu þeir eðlilegt að snúa sér að samgöngumálunum sem fyrsta þætti í þessari áætlun. Í tillögum, sem þeir gerðu, töldu þeir rétt að koma upp tveimur byggðakjörnum, á Ísafirði og Patreksfirði og byggja þar góða flugvelli og síðan að leggja greiðfæra vegi milli þessara þéttbýliskjarna. Þetta hefur nú verið framkvæmt að mestu leyti, en það er athyglisvert, að í tillögum þessara norsku sérfræðinga var einnig að finna, að þeir töldu bráðnauðsynlegt að halda uppi reglulegum og öruggum sjóferðum yfir vetrarmánuðina. Þessar tillögur sérfræðinganna hafa verið framkvæmdar nema tillaga þeirra um öruggar strandferðir. Þess vegna er ástandið í samgöngumálum Vestfirðinga í dag óviðunandi eins og málin standa. Við vitum, að frá Ísafirði og Patreksfirði eru all reglulegar flugsamgöngur við Reykjavík, en íbúar utan þessara byggðakjarna geta því miður ekki notfært sér þessar flugferðir vegna ófærðar og samgönguleysis yfir vetrarmánuðina.

Hugmyndir um Vestfjarðaskip eru ekki nýjar af nálinni. Ótal samþykktir hafa verið gerðar af heimamönnum, þar sem skorað hefur verið á Alþ. og ríkisstj. að leysa þetta vandamál Vestfirðinga og málið hefur oft áður verið flutt í frumvarpsformi hér á Alþ., en allt situr við það sama. Reynslan hefur sýnt, að vel byggðir vegir tryggja ekki samgöngur að vetrinum milli byggðarlaga á Vestfjörðum. Þess vegna er ljóst, að ekkert annað en samgöngur á sjó, greiðar og öruggar vikulegar skipsferðir, geta fullnægt þörfum Vestfirðinga varðandi flutninga á milli Vestfjarðahafna og til annarra landshluta. Því miður hefur orðið mikil afturför í sjósamgöngum við Vestfirði og það er bein afleiðing þess samdráttar, sem orðið hefur í rekstri Skipaútgerðar ríkisins og við það hefur skapazt óviðunandi ástand hvað aðdrætti snertir. Þó var það sameiginleg skoðun Vestfirðinga, meðan Skipaútgerðin var ólömuð, að nauðsyn væri á auknum og bættum sjósamgöngum við Vestfirði, en þróun í þessum málum hefur alltaf snúizt á verri veg. Þegar haft er í huga, að einmitt þessir norsku sérfræðingar, sem mótuðu þennan þátt Vestfjarðaáætlunarinnar, lögðu til, að öruggar sjósamgöngur yrðu að vera yfir vetrarmánuðina, þá liggur í augum uppi, að þessum þætti um samgöngumál á Vestfjörðum er ekki lokið fyrr en Vestfirðingar fá sitt skip eða vikulegar skipsferðir til Vestfjarða, bæði á milli fjarða innan fjórðungsins og við aðra landshluta.

Við vitum, að fyrir nokkrum árum var horfið að því ráði að reka sérstakt skip fyrir Vestmannaeyjar til að annast fólks– og vöruflutninga milli Eyja og Reykjavíkur. Reynslan hefur sýnt, að Vestmanneyingar hafa nú hagkvæmar sjósamgöngur við Reykjavík og rekstur skipsins hefur orðið betri en annarra skipa Skipaútgerðarinnar. Þótt Vestmanneyingar hafi allgóðar flugsamgöngur, þá eru þó bornar fram hér á Alþ. núna margvíslegar tillögur um meiri og betri sjósamgöngur við Vestmannaeyjar og þetta er vissulega eðlileg þróun. En þess vegna þarf engan að undra ósk Vestfirðinga um reglulegar og öruggar strandferðir og við þurfum ekki annað en hlusta á útvarpið síðustu daga. Það hefur gengið óveður yfir Vestfirði og við heyrum daglega í fréttum, að vegna snjóa séu fjallvegir tepptir. Þetta þýðir, að fólkið í sjávarþorpunum er lokað inni og hver og einn hlýtur að gera sér grein fyrir, hvað hér er mikið vandamál á ferðinni.

Eitt af þeim málum, sem fléttast inn í þetta, er læknisskorturinn á Vestfjörðum. Það má segja, að hreint öngþveiti ríki í heilbrigðismálum í mörgum sjávarþorpum, því að ekki er hægt að komast til næsta læknis vegna samgönguleysis. Engar öruggar strandferðir eru heldur og það hljóta því allir að sjá, að hér er mikil alvara á ferðum og það skyldi einnig haft í huga, að það er einmitt þetta fólk, sem vinnur hörðum höndum að því að skapa gífurleg verðmæti í hið íslenzka þjóðarbú með erfiðri sjósókn og vinnslu sjávaraflans. Það hlýtur því að vera skylda Alþ. og ríkisstj. að leysa þetta vandamál fólksins, því að það er hagur allrar þjóðarinnar, að þetta fólk þurfi ekki að hrökklast frá sínum heimabyggðum vegna öryggisleysis og skorts á öruggum sjóferðum yfir vetrarmánuðina. Það er því alveg ljóst, að ef málið á að fá viðunandi lausn, verður að byggja nýtt strandferðaskip til að annast fólks– og vöruflutninga milli Vestfjarðahafna innbyrðis og við aðra landshluta, og í þessu frv. er lagt til, að svo verði gert og ég leyfi mér að óska þess, að hv. alþm. íhugi þetta vandamál Vestfirðinga mjög vel.

Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri og ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að eftir þessa umr. verði málinu vísað til fjhn.