23.11.1970
Neðri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

125. mál, Vestfjarðaskip

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. flm., að hér sé þarft mál á ferðinni, þar sem um er að ræða byggingu og rekstur Vestfjarðaskips. Ég tel þó ástæðu til að vekja athygli á því, að þetta frv. er engan veginn nýtt hér í þingsölunum, því að á þingi 1962, aftur 1963 og í þriðja sinn 1964 flutti ég þetta frv., ekki frv. eins og þetta, heldur þetta frv. og ég hlýt að játa á mig, að ég er höfundur þessa frv. frá orði til orðs, eins og það er flutt nú á þinginu 1970, að því einu breyttu, að í staðinn fyrir töluna 20 millj. er núna sett talan 60 millj. En að öðru leyti frá orði til orðs með lestrarmerkjum og öllu saman er frv. eins og ég flutti það 1962 og árin þar á eftir ásamt meðflm. frá Framsfl., því að þá höfðu verið gerðar samþykktir um það í samtökum á Vestfjörðum, að gera bæri átak í sjósamgöngunum við Vestfirði. Og þess hafði verið farið á leit við mig sem Vestfjarðaþm. þá og aðra þm. Vestf. að flytja þetta mál, sem ég gerði með því að semja frv. og leitaði síðan til meðflutnings meðþm. minna í kjördæminu. Þá vildi svo til, að sjálfstæðismennirnir sögðust ekki óska eftir því að verða meðflm. að frv., því að þeir hefðu hugsað sér að flytja þáltill. á því þingi um þetta mál og þjóna þannig samþykktum heiman úr kjördæmi og þeir yrðu því ekki með. Báðir Vestfjarðaþm. Framsóknar voru þá í Ed., Hermann Jónasson og Sigurvin Einarsson og gátu af þeim sökum ekki orðið meðflm. að mínu frv. En þannig réðist það þá, að flokksmaður þeirra hér í d., Jón Skaftason, yrði meðflm. minn að frv. og ber þetta frv., sem ég er hér með í höndum, það með sér, að það var þá flutt af mér og Jóni Skaftasyni, sem menn kynnu kannske ekki skýringu á nema vita um þetta, að Hermann Jónasson og Sigurvin Einarsson vorn þá báðir í Ed. Það var því haft allt það samflot, sem hugsazt gat um að flytja á eins breiðum grundvelli og unnt var þetta frv.

Svo var það einu sinni á okkar vegferð, okkar hv. 8. landsk., Steingríms Pálssonar, meðan við vorum flokksbræður, að hann flutti fá mál, en ég nokkuð mörg á þinginu og þá fól ég honum að flytja þetta frv., en tel mig ekki hafa afhent honum höfundarréttinn að frv. þrátt fyrir það. Við mig var nú, áður en frv. var flutt, ekkert talað og þess ekki getið í framsögu heldur, hvernig frv. væri til komið og þykir mér það heldur miður. En að sjálfsögðu breytir það engu um afstöðu mína til frv. Ég tel þetta gott frv. og gott mál og það er í fullu gildi enn þá fyrir Vestfjarðakjördæmi, því að það er rétt, sem hann sagði, að ekkert hefði verið gert til þess að bæta sjósamgöngurnar við Vestfirði á öllum þessum tíma, sem síðan er liðinn og þörfin því fullkomlega fyrir hendi enn þann dag í dag, enda hafði ég á þeirri málaskrá, sem ég hafði gert mér í byrjun þings um flutning mála, þar hafði ég ofarlega á blaði frv. um rekstur og byggingu Vestfjarðaskips. En út á eitt kemur, mér gefst þá tækifæri til að leggja málinu það lið, sem ég kann og get og það mun ég sannarlega gera, því að engu breytir, þó að ég telji mig eiga höfundarréttinn að frv., auðvitað fylgi ég því og veiti því allan stuðning. Samt hygg ég nú, að ef leitað væri til t.d. samtakanna STEFs, þá mundi það nú verða talið, að þm. ættu, meðan þeir sitja á þingi, höfundarrétt að sínum þingfrv., a.m.k. ef ekki er vikið frá efni þeirra að meginhluta, hvað þá heldur þegar þau eru orðrétt eins og höfundar hafa frá þeim gengið, eins og í þessu tilfelli.

Ég vil undirstrika það, að hugtakið Vestfjarðaáætlun hefur í framkvæmd orðið allt of einhæft. Það hefur ekki annað verið gert í því máli en taka erlent lán og nú fer að koma að skuldadögum um það lán. Og þessu láni hefur verið varið án allt of mikils samráðs við fólkið á Vestfjörðum eða pólitíska flokka utan stjórnarliðsins, hefur verið varið í þrjá hluti, þ.e.a.s. til að byggja upp aðalveg frá Patreksfjarðarflugvelli til Ísafjarðarflugvallar, að verja nokkru fé til tveggja flugvalla, Ísafjarðarflugvallar og Patreksfjarðarflugvallar og nokkru fé til nokkurra hafna á Vestfjörðum. En að nokkuð hafi verið hugsað til annarra þátta þess ramma, sem væntanlegri Vestfjarðaáætlun var upphaflega sniðinn, sem sé fyrst og fremst til samgöngubóta á sjó, til þess hefur engu verið varið né til félagsmála eða menningarmála á nokkurn hátt. Það er aðeins þessi eini þáttur, sem til framkvæmda hefur komið, þ.e. varðandi vegi, hafnir og flugvelli, þ.e.a.s. þann þátt samgöngumálanna, en ekki samgöngur á sjó, sem norsku sérfræðingarnir á sínum tíma töldu þó vera eiginlega gildasta þáttinn og þann, sem mest lægi á í þjónustu fólksins á Vestfjörðum og það er mín sannfæring enn, að svo hefði verið, að það hefði fyrst og fremst varanlegast árið um kring, haft grundvallar þýðingu fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum og Vestfirðinga í heild, að þeim þætti samgöngumála hefðu verið gerð myndarleg skil.

Ég skal láta hér staðar numið, ég skal ekki teygja lopann um þetta. Ég vildi aðeins gera það ljóst, sem ég tel ekki góð vinnubrögð hér á Alþ., að taka frv. annarra þm., sem hér eiga sæti og flytja þau óbreytt án þess að geta heimilda. Ég tel það svona á mörkum þess heiðarlega og tel þá, að viðkomandi höfundum sé a.m.k. frjálst að gera mönnum ljóst, að þeir eru höfundar viðkomandi þingmáls, þó að aðrir hafi gripið þau á lofti í sinni málefnafátækt.