23.11.1970
Neðri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

125. mál, Vestfjarðaskip

Steingrímur Pálsson:

Herra forseti. Það var engan veginn hugmynd mín að taka höfundarréttinn af Hannibal Valdimarssyni í sambandi við þetta frv. En ég vil benda honum á, að ég hefði haldið, að þm. ættu ekki neinn einkarétt á því að koma hér með frv. til 1. og hann er ekki í dag þm. Vestf.

Nýlega var haldið Alþýðusambandsþing Vestfjarða á Ísafirði og eftirfarandi samþykkt gerð þar, með leyfi hæstv. forseta:

„20. þing Alþýðusambands Vestfjarða, haldið 24. og 25. sept. 1970, leggur þunga áherzlu á marg ítrekaðar kröfur þess um bættar samgöngur á sjó, bæði milli fjarða innan fjórðungsins og við aðra landshluta. Þó svo að þjónusta Djúpbátsins hafi verið aukin, vegur það ekki á móti þeirri hnignun, sem orðið hefur á þjónustu Skipaútgerðar ríkisins, en við hana hafa skapazt stórauknir erfiðleikar hvað aðdrætti yfir vetrarmánuðina snertir. Skorar því þingið á þm. kjördæmisins að endurflytja sérstakt frv. um Vestfjarðaskip.“

Og ég tel mig hafa gert það. Það má vel segja, að ég hafi kannske farið einförum, en þó bað ég einn þm. Vestf. að vera meðflm., en hann vildi ekki gera það.