23.11.1970
Neðri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

132. mál, orkulög

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 162 um breyt. á orkulögum, sem ég ásamt meðflm. mínum hef leyft mér að flytja, er flutt með það fyrir augum að koma í veg fyrir stórfelldar deilur á milli orkuaðila og þeirra, sem hafa annarra hagsmuna að gæta og vilja verja margs konar önnur náttúrugæði í landinu. Þessi náttúrugæði, sem ég hef nefnt svo, geta verið af mörgu tagi. Það geta verið hrein náttúruverndarverðmæti eða verðmæti, sem metin eru frá hreinu náttúruverndarsjónarmiði. Það getur verið um náttúrufegurð að ræða, það geta verið margs konar svonefnd útilífsverðmæti eða ferðamálaverðmæti, það geta verið veiðiverðmæti og þarna kemur einnig til greina fjölmargt annað, sem varðar breytingar á náttúru, sem orðið geta við virkjanir. Sem dæmi um þetta má nefna afleiðingar stórfelldra vatnaflutninga, ef vötnum er veitt á milli landshluta eins og fyrirhugað hefur verið, þá getur það komið fram í ýmsum myndum. Það getur komið fram sem þurrkun landssvæða, lækkun grunnvatnsstöðu, þannig að vatn hverfi. Það getur komið fram í flóum landsins, þar sem jökulár falla til sjávar og bera með sér frjósemi og ef þær hverfa, getur það haft áhrif á fiskalíf í þeim flóum. Það getur haft áhrif þannig, að ef grunnvatn hverfur, þá hverfi jarðhiti. Þetta eru nokkur dæmi um þau margvíslegu verðmæti, sem við höfum í frv. nefnt einu nafni náttúrugæði.

Öllum eru kunnugir, þeir miklu árekstrar, sem hafa orðið á milli virkjunaraðilanna og þeirra, sem vilja varðveita þessi gæði, annaðhvort beint í eiginhagsmunaskyni, vegna þess að þeir eru eigendur þessara gæða, eða af hugsjónaástæðum. Þessu makmarki að reyna að koma í veg fyrir þessa árekstra hyggjumst við ná með því að skipa ráðgjafarnefnd, sem við höfum nefnt náttúrugæðanefnd. Þessi nefnd á að vera eftir frv., eins og kemur fram af 1. gr., skipuð fulltrúum þeirra, sem þarna eiga fyrst og fremst hagsmuna að gæta, eða þeim aðilum, sem helzt eru taldir færir um að varðveita hagsmuni þessara manna og á þar við báða aðilana, þ.e.a.s. orkuaðilann, sem hefur hagsmuni af því að beizla orkuna og nýta hana og svo hina, sem varðveita vilja hin önnur gæði, sem við höfum nefnt. Það er tillaga um það, að þessi nefnd sé skipuð orkumálastjóra eða fulltrúa hans, sem fer með yfirstjórn rannsókna á orkumálum og er þess vegna kunnugur því, hvaða verðmæti eru á ferðinni frá þeirri hlið. Hún á að vera í öðru lagi skipuð fulltrúa landssambands ísl. rafveitna. Það er orkuframleiðandinn og orkuseljandinn og er augljóst, hverra hagsmuna þeir hafa að gæta. Þá á hún að vera skipuð fulltrúa frá Rannsóknaráði ríkisins, en það ráð á að hafa yfirlit yfir rannsóknir á öllum landsgæðum og landsverðmætum, hverju nafni sem þau nefnast. Þá á hún að vera skipuð fulltrúa Búnaðarfélags Íslands, en það er faglegur málsvari bændastéttarinnar og er þess vegna eðlilegast, að það standi í málsvari fyrir þá, sem eru að langmestu leyti eigendur landsins og þeirra gæða, sem þarna verður oftast um að tefla. Þá á hún að vera skipuð fulltrúa veiðimálanefndar, sem á að vera forsvari fyrir þeim gæðum og þeim verðmætum, sem eru fólgin í veiði í vötnum, en það fer auðvitað oft saman, að á rekast veiðihagsmunir og virkjanir, vegna þess að hér virkjum við fyrst og fremst vatnsföll. Um hlutverk nefndarinnar segir svo í 1. gr., með leyfi forseta:

„Ráðh. skipar náttúrugæðanefnd Orkustofnunarinnar, orkumálastjóra til ráðuneytis í þeim efnum, er varða náttúruvernd og varðveizlu annarra náttúrugæða, svo og til að leita sátta, þegar greinir á milli ólíkra sjónarmiða um nýtingu náttúruverðmæta.“ Og enn fremur: „Náttúrugæðanefnd skal fylgjast með rannsóknum Orkustofnunarinnar og gæta þess, að við forrannsóknir og undirbúning virkjana sé tekið tillit til hvers konar náttúrugæða, sem kunna að vera í hættu og að náttúruverndarsjónarmið séu metin hverju sinni.“

Annar tilgangur með þessu kemur fram í 2. gr. frv., en hann er sá að auðvelda málsmeðferð, þar sem upp koma deilumál, eftir að virkjanir hafa verið gerðar og þeir, sem hagsmuna hafa að gæta, telja sig hafa orðið fyrir skaða og það er æði oft. Það sýnir sagan. Ég hygg, að fáar stærri virkjanir hafi svo verið gerðar hér á landi, að ekki hafi komið einhver eftirmál og nægir þar að minna á Sogsmál. Það má benda á það, að veiðieigendur í Þjórsá t.d. telja sig nú eiga hönk upp í bakið á viðkomandi aðila, Landsvirkjun og svo mætti lengi telja. Þessi mál eru oft og tíðum erfið að reka fyrir þá aðila, sem telja sig verða fyrir skaða og það er ekki nema eðlilegt, að reynt sé að koma þeim í þann farveg, að það verði metið hverju sinni, hver hugsanlegur skaði sé og hvernig hann verði bættur og hvernig sé hélzt að koma í veig fyrir slíkan skaða. Og því segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Nú telja landeigendur eða aðrir eigendur náttúrugæða sig hafa orðið fyrir skaða eða eiga á hættu að skaðast af völdum virkjana eða annarra orkumannvirkja, vegna framkvæmda eða rekstrar þeirra og er þeim þá heimilt að vísa málinu til náttúrugæðanefndar. Séu þrír nefndarmenn því samþykkir, lætur nefndin rannsaka málið, þeim að kostnaðarlausu, er ber fram kvörtunina. Að lokinni slíkri rannsókn gerir nefndin tillögur um úrbætur og/eða fébætur. Vilji aðilar ekki una því mati, geta þeir leitað réttar síns eftir venjulegum leiðum.“

Þarna er sem sagt verið að gefa það í skyn, að það sé hægt að fara styttri leið heldur en málssókn hverju sinni og með þessu yrði sett þarna föst matsnefnd, sem smám saman mundi öðlast þekkingu og reynslu af slíkum málum og eiga hægara með að gera eðlilegar tillögur til sátta og til bóta. En tjón, sem landeigendur og eigendur veiðiréttar og ýmissa annarra gæða telja sig verða fyrir, það getur auðvitað verið mjög mikið matsatriði og erfitt að sýna fram á það og raunverulega að kanna það. En það er ekki óeðlilegt, að aðilinn, sem stendur að því, að þetta tjón verði, þó að hann sé jafnframt — og það ber auðvitað að virða — að skapa önnur verðmæti, að hann leggi í nokkurn kostnað til þess að meta þetta og einnig til þess að bæta úr því. Megintilgangur þessa frv. er þó fyrst og fremst sá að skapa hér menningarlegri vinnubrögð í þessum málum og koma þeim í þann farveg, að það sé minni hætta á slíkum alvarlegum árekstrum, sem við þekkjum nú og hér hefur verið vísað til. Það eru tvö slík alvarleg deilumál á ferðinni nú, annars vegar deilumálið um Þjórsárver og hins vegar deilumálin um Gljúfurversvirkjun. Inn á þau deilumál ætla ég alls ekki að fara hér. Þau eru aðeins þau víti, sem ég vona, að verði til varnaðar. Ég vona, að menn geri sér það ljóst, hversu alvarleg þau eru og þess vegna leiði menn hugann meira að því, hve brýnt það er að koma á slíku skipulagi, að það sé hægt að koma í veg fyrir þetta. Og ég hygg, að það sé ekki hægt að mæla því í mót, að ástæðan fyrir þessum árekstrum er sú, að við undirbúning þessara framkvæmda hafa verið of einhliða sjónarmið viðhöfð. Virkjunaraðilunum er falið þetta með lögum og þeir eiga lögum samkvæmt að finna það út, á hvern hátt hægt er að afla sem ódýrastrar orku og það er því eðlilegt, að þeirra sjónarmið sé orkusjónarmiðið. Þeir reyna að finna þær leiðir, sem eru ódýrastar og hagkvæmastar að þeirra mati og það er ekki hægt að ætlast til þess, að þeir séu jafnopnir fyrir öðrum sjónarmiðum og því vill þetta gleymast og því hefur farið sem ég hef hér bent á, að það hefur verið of einhliða orkusjónarmið, sem hefur ráðið við undirbúningsrannsóknir og undirbúning allan að þessum stórframkvæmdum.

Ég get aðeins nefnt sem dæmi hér, að á s.l. ári sendir Orkustofnunin frá sér skýrslu, sem var fskj. með fjárveitingabeiðni til fjárveitingavaldsins til forrannsókna á orku Íslands á árunum 1970–1974. Það er beðið um 257 millj. til þessara rannsókna og gefin nákvæm skýring á því, hvernig fénu skuli varið og er sjálfsagt ágætlega unnin skýrsla, en ef maður flettir þessari skýrslu og les hana í gegn, þá er það sláandi, að þess er hvergi nokkurs staðar getið, að það þurfi að eyða einum einasta eyri til rannsókna á öðrum hlutum, sem þarna eru tengdir, rannsókna á því, hvaða önnur náttúrugæði kunna að spillast við nýtingu orkunnar. Það er svo önnur saga, að í þessari skýrslu koma einmitt fram hugmyndir um þá stórfelldu vatnaflutninga — ekki á milli héraða eingöngu, heldur á milli landshluta, þannig að öllum megin vatnahverfum landsins yrði umbylt og umhvolft — og ég hygg, að það muni ekki ofmælt, að það viti enginn, hvaða afleiðingar það kynni að hafa fyrir landið. En á hitt hefur víða verið bent, að slíkar stórfelldar aðgerðir hafa valdið alveg ófyrirsjáanlegum afleiðingum, ég undirstrika ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í þessari skýrslu um forrannsóknir er tekið fram, hvað er átt við með forrannsóknum og ég leyfi mér að vitna til þess, með leyfi forseta:

„Forrannsóknir eru þetta:

1. Hvort virkjun sé tæknilega framkvæmanleg.

2. Hvort virkjun sé fjárhagslega gerleg, þ.e. hvort orkukostnaður frá henni sé innan þeirra marka, að virkjun komi fjárhagslaga til greina.

3. Hver orkukostmaður verði?

Forrannsóknir nægja hins vegar ekki til að ákveða tilhögun og gerð virkjunar í einstökum atriðum. Það verða fullnaðarrannsóknir að greina.“

Ég vil biðja menn að taka eftir þessu. Þarna er þetta skilgreint, hvað þurfi að rannsaka. Það veit að tækninni í sambandi við nýtingu orkunnar og það veit að hagkvæmninni í sambandi við beitingu þeirrar tækni, en það veit ekkert að því að rannsaka, hverjar hliðarafleiðingar kynna þarna að vera á ferðinni. Og staðreynd er það, að Orkustofnunin hefur ekki í þjónustu sinni neinn þann mannafla, sem getur framkvæmt slíkar rannsóknir. Það er enginn líffræðingur starfandi eða neinn náttúrufræðingur aðrir en jarðfræðingar, sem ekki eru sérlega hæfir til að rannsaka það, sem við kemur dýralífi eða plöntulífi. En þar er það auðvitað, sem hættan er á ferðum.

Það mætti rekja fleiri dæmi. Ég hef nefnt það, að það er alvarlagt deilumál á ferðinni, þar sem er deilan um Laxárvirkjun. Sú deila hefur nokkuð lengi verið á ferðinni, þó að ekki hafi upp úr soðið fyrr en tiltölulega nýlega. Í kringum 1964 voru farnar að berast af því sögur, að þarna væru stórfelldar virkjana hugmyndir á ferðinni og þá fóru jafnframt að berast mótmæli úr héraði suður til Orkumálastofnunar og orkuaðilans. Orkuaðilinn hefur sjálfsagt haft vilja á því að taka þetta til athugunar og Orkustofnunin skipar nefnd manna 1964, að ég hygg og í þá nefnd veljast því miður eingöngu einhliða aðilar, þ.e.a.s. það var aðilinn, sem stóð fyrir rannsóknum eða annaðist rannsóknir virkjunarinnar fyrir Orkustofnunina, og tveir starfsmenn Orkustofnunarinnar, sem hvorugur var sérstaklega menntaður til rannsókna á líffræði. Árangurinn varð eftir því. Þar var ekki komið auga á þau líffræðilegu verðmæti, þau búfræðilegu verðmæti, þau náttúruverndarverðmæti, veiðiverðmæti eða ferðamálaverðmæti, sem voru þarna í húfi og deilan er svo risin raunverulega um þetta og er ákaflega margþætt.

En ég vil undirstrika hér, að meiningin með þessu frv. er ekki nein árás á orkuaðilann, síður en svo. Hún er aðeins sú, að við reynum að taka þessi mál þeim tökum, að við forðumst árekstra. Þeir eru dýrir, það er búið að eyða í þetta stórfelldum verðmætum að rannsaka og undirbúa virkjanir, sem ákaflega hæpið er að verði framkvæmdar eða komi að notum. Þetta er auðvitað öllum til ills og öllum til tjóns. Það er líka stórfellt tjón, sem þeir aðilar hafa orðið fyrir, sem hafa orðið að standa í baráttu við þetta og það eru ekki menningarlegar aðferðir að þurfa að standa í slíkri baráttu. Auðvitað á það við jafnt um báða aðila. Og ég vil undirstrika það, að með þessu og þó að hér séu auðvitað ráðandi náttúruverndarsjónarmið, þá er ekki verið að vega að því, að orka landsins sé nýtt. Hugmyndin er ekki að koma í veg fyrir nýtingu auðlinda landsins og það er alls ekki verið að leggja neinn stein í þá götu, síður en svo, heldur er verið að reyna að koma í veg fyrir ranga nýtingu á auðlindum landsins. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir það, að það verði hér alvarleg slys, eins og við vitum að hafa orðið í nágrannalöndum okkar og alvarlegar deilur og það er meiningin, að með beztu manna yfirsýn, með því að athuga þetta í slíkri nefnd verði komið í veg fyrir deilurnar. Það er ekki hægt að hugsa sér það, að stofnun, sem hefur slíka stórfellda, á okkar mælikvarða, fjármuni til ráðstöfunar og til rannsókna, hún beiti því fjármagni til einhliða rannsókna. Það verður að taka allt með í reikninginn.

Ég vil svo aðeins bæta við eins og að gefnu tilefni í sambandi við náttúruvernd. Náttúruvernd er ekki lengur í hugum manna það að vernda einstök fyrirbæri, hóla, steina, plöntur eða jafnvel einstakar dýrategundir, þó að það sé allt saman náttúruvernd. En hún er bara miklu meira. Hún er það að reyna að vinna að því, að maðurinn lifi í takt við náttúrulögmálun, en ekki á móti þeim, því að það kemur niður á honum sjálfum fyrr eða seinna og að hann umgangist náttúruna með virðingu og varfærni. En fyrst og fremst er náttúruvernd það að stefna að skynsamlegri meðferð og nýtingu á náttúrugæðum og það frá alhliða sjónarmiði, alhliða sjónarmiði á nýtingu náttúrugæða og þá fyrst og fremst með framtíðarvelferð fólksins í huga. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því, að þó að við getum haft meiri not af landinu í dag, þá kemur það niður á okkur á morgun, ef við brjótum í bág við náttúrulögmálið. Og meðferðin á landinu á að miðast við það, að bæði í nútíð og framtíð verði velferð fólksins sem mest.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til, að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.