30.11.1970
Neðri deild: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

137. mál, almannatryggingar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á lögum um almannatryggingar. Það hefur, allt frá því að almannatryggingarnar hófu starfsemi sína hér á landi, verið ákveðið, að menn öðluðust rétt til ellilífeyris við 67 ára aldursmarkið. Á þessu hafa engar breytingar verið gerðar síðan og ég minnist ekki, að nokkrar tillögur hafi komið fram í þá átt. En þó er það náatúrlega þannig, að það er engan veginn sjálfgefið, að þetta sé eina sjálfsagða aldursmarkið, sem þarna eigi við. Menn gætu alveg eins hugsað sér, að menn öðluðust ellilífeyrisrétt við 65 ára aldurinn eða almennt við 60 ára aldurinn, ef menn teldu, að þjóðfélagið risi undir svo fullkomnum tryggingum gagnvart svo öldruðu fólki. Ég hef ekki með þessu frv. lagt til að færa almenna aldursmarkið niður úr 67 árum, t.d. niður í 65 ár, sem hefði þó staðið huga mínum nær, ég hefði talið það mjög æskilegt boð að geta gert það. En ég býst við, að það hefði þurft kannske nokkurrar efnahagslegrar könnunar við, hvort við teldumst geta risið undir slíkri almennri breytingu. Hins vegar ber ég fram í þessu frv. tvær breytingar við almannatryggingarnar varðandi ellilífeyrinn og þær eru í þessu fólgnar, að þeir menn, sem hafa gert sjómennsku að ævistarfi sínu og hafa stundað sjómennsku lengur en í 35 ár, þeir öðlist ellilífeyrisrétt sem eins konar viðurkenningu frá þjóðfélaginu, þegar þeir verða 60 ára. Til þess að ná þessu aldursmarki þurfa þeir í raun og veru að hafa byrjað sjómennsku um 20 ára aldurinn og eru það vissulega nokkuð margir, sem það hafa gert, en hafi þeir verið samfellt við sjómennsku 35 ára tímabil, þá er það svo um allan þorra þeirra, - það er reynsla okkar, því miður, — að þetta eru meira og minna útslitnir menn um 50—55 ára aldur. Og þá þarf þjóðfélagið að koma til móts við þá með einhverjum hætti, þessa menn, sem staðið hafa í framleiðslustarfi fyrir þjóðina við hættusöm störf og erfið, fjarri heimilum sínum hálfan fjórða áratug. Ég sé ekki, að það verði betur eða eðlilegar gert með öðru, en að veita þeim nokkru fyrr rétt til ellilífeyris heldur en öðru fólki.

Ég hef grennslazt eftir því hjá Sjómannafélagi Reykjavíkur, hvort þarna muni vera um mjög mikinn fjölda að ræða. Þó að Sjómannafélag Reykjavíkur hafi ekki heildaryfirsýn yfir þetta fyrir landið allt, þá hefur það þó yfirsýn yfir svo mikinn hluta af sjómannastéttinni, að ég legg nokkuð upp úr því, sem framámenn Sjómannafélags Reykjavíkur segja um þetta. Þeir segja, að þetta sé ekki mjög há tala, en hitt sé rétt, að það séu til menn, sem hafi verið samfellt við sjómennsku í yfir 50 ár, upp undir 60 ár, en það séu hinar einstöku undantekningar, þrekskrokkar, sem aldrei geta bilað og séu örfáir. En hins vegar sé það nokkur fjöldi, sem komi undir þessi mörk, 35–40 ár á sjónum, en ekki mjög há tala.

Ég veit ekki, hvað hv. þm. sýnist um þetta, en mér fannst ekki önnur leið líklegri til þess, að þjóðfélagið bætti þeirra hag, en einmitt sú að koma þannig til móts við þá varðandi réttinn til ellilífeyris. Ég veit sannast að segja ekki nein ömurlegri tilfelli um fólk á vinnumarkaðinum heldur, en þegar sjómaður, sem alla ævina hefur stundað sjómennsku, t.d. verið lengstum á togurum, þegar hann horfist í augu við það að eiga að fara að afla sér vinnu á landi. Ég hef talað við slíka menn og þeir hafa litið til þessarar stundar, þegar þeir eiga að ganga í síðasta sinn í land af skipinu sínu, þeir hafa horft til þeirrar stundar með kvíða. Þeir hafa sagt sem svo: Við erum og verðum þá eins og fiskar á þurru landi. Og það er ekki öfundsvert hlutskipti.

Þetta er kannske meginatriði frv., að veita þeim mönnum, sem verið hafa 35 ár á sjónum eða lengur fullan lífeyrisrétt, þegar þeir verði 60 ára.

En svo segir ennfremur í frv., að þeim, sem verið hafi á sjónum í 40 ár, verði ekki boðið upp á það að draga fram lífið á einföldum ellilífeyri, heldur verði þeim heimilaðar tvöfaldur ellilífeyrir. Það mætti segjast vera eins konar heiðurslaun og held ég þó, að við gætum ekki sagt, að það hafi verið neitt ofgert við þá, miðað við það ævistarf, sem þeir hafa skilað.

Þá er þriðja atriðið. Þetta tel ég nú vera eina breytingu hvort tveggja, þetta varðandi sjómennina, en svo er annað atriði í þessu, það er önnur undantekningin frá 67 ára markinu, orðuð á þann veg, að fullan ellilífeyri beri einnig að greiða ekkjum, er þær verða 60 ára. Ég tel, að ekkjur eigi svo fárra kosta völ, þegar þær eru komnar á þetta aldursstig, varðandi atvinnumöguleika, að það sé ástæða til að láta undantekninguna, sem ég vil láta gilda um sjómennina, taka einnig með líkum hætti til þeirra. Það má segja, að það sé út frá allt annarri röksemdafærslu, máske í flestum tilfellum, en það er þó út frá því sjónarmiði, að þær eigi sannarlega í flestum tilfellum svo fárra kosta völ, að þarna sé ástæða til þess, að þjóðfélagið komi til móts við þær. Hafi þær t.d. innt af hendi sitt móður— og húsmóðurhlutverk innan dyra og verða svo ekkjur um þetta leyti, þá eru þær sannarlega vankunnandi að notfæra sér möguleika hins almenna vinnumarkaðar og illa við því búnar að fara út á hinn almenna vinnumarkað utan heimilisins og tel ég þeirra hlutskipti ekki vera eins gott og vera skyldi á árabilinu frá 60—67 ára aldursins. Ég held, að því verði ekki fram haldið með rökum, að þetta frv. leggi svo þungar byrðar á herðar þjóðfélagsins, að ekki megi undir því rísa og hins vegar held ég, að því verði ekki á móti mælt með rökum, að það sé eðlilegt og æskilegt, að þetta fólk verði tekið út úr hópnum og látið öðlast rétt til ellilífeyris fyrr, heldur en samkvæmt almennu reglunni.

Ég læt svo útrætt um málið, tel að það skýri sig sjálft og allir hafi hlotið skilning á því, hvað hér er verið um að fjalla og af hvaða tilefni og legg til, herra forseti, að málinu verði, þegar umr. lýkur, vísað til hv. heilbr–: og félmn.