22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla með nokkrum orðum fyrir frv. til l. um virkjun Lagarfoss á þskj. nr. 8. Það er meginefni þessa frv., að ríkisstj. sé heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Lagarfoss á Fljótsdalshéraði til raforkuvinnslu í allt að 8 þús. hestafla orkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu að Egilsstaðakauptúni til tengingar þar við veitukerfi Grímsárvirkjunar. Í sambandi við þetta er ríkisstj. heimilt að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs og ábyrgjast lán, er rafmagnsveiturnar tækju, allt að 180 millj. kr. eða jafnvirði þeirra í erlendri mynt. Að öðru leyti eru ákvæði svipuð og í öðrum hliðstæðum lögum, m.a. í 3. gr., þ. e. að fella skuli niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni, tækjum og vélum til virkjunarinnar, en um stofnun og rekstur orkuversins og orkuveitnanna, sem um getur í þessum gr., sem ég nú hef verið að vitna til, fer að öðru leyti eftir ákvæðum orkulaganna.

Það hafa lengi verið á döfinni hugmyndir um virkjun Lagarfoss, og sívaxandi þörf fyrir betri úrlausn í orkumálum á Austurlandi en nú er fyrir hendi hefur ýtt á eftir frekari athugun þess máls.

Það kemur fram í aths. með frv., að þáv. ráðh. orkumála, Ingólfur Jónsson, endurskipaði, eins og þar segir, raforkumálanefnd Norður- og Austurlands, er starfað hafði á árunum 1966–1967 að athugun á raforkumálum í þessum landshlutum, og þessar nefndir höfðu fyrr og síðar það verkefni að gera sér grein fyrir sem hagkvæmastri orkuvinnslu fyrir Austfirðinga. Þá var það aðallega Lagarfossvirkjun annars vegar, sem um var að ræða, og hins vegar rafmagn frá Laxárvirkjun með linu, sem lögð yrði á milli Norðurlands og Austurlands.

Það hefur verið mjög áberandi, hversu illa horfir með rafmagnsmálin á Austurlandi, einkum og sér í lagi eftir að síldveiðarnar brugðust þarna fyrir austan. En dísilstöðvunum hafði verið komið upp, og rafmagnið frá þeim er allt of dýrt, og sérstaklega verður það enn þá óhagkvæmara, þegar það nýtist ekki í þágu þeirra miklu neytenda, sem síldarverksmiðjurnar voru, meðan mest var unnið í þeim og mest vinnsla var í þeim á miklum aflaárum. Þess vegna var á þessu ári af hálfu iðnrn. lögð á það áherzla, að komizt yrði að endanlegri niðurstöðu um, hvert bæri að stefna í þessum málum, og í ágústmánuði hafði stjórn Rafmagnsveitna ríkisins komizt að þeim niðurstöðum, sem felast í bréfi rafmagnsveitnanna, sem er frá 20. ágúst og birt er í aths. frv. En þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta, að niðurstöður athugananna séu þær, að eins og nú horfir um orkunotkun á Austurlandi, geti Lagarfossvirkjun orðið hagkvæm og væntanlega tímabær til innsetningar árið 1973 — eða jafnvel í árslok 1972 — og það því fremur, sem veruleg aukning náist í orkusölu til hitunar.

Síðan voru ákveðnar till. frá stjórn Rafmagnsveitna ríkisins um það: 1) Að aflað yrði lagaheimildar fyrir fullri stærð Lagarfossvirkjunar. 2) Að undirbúningi 1. stigs virkjunarinnar — en gert er ráð fyrir, að virkjunin fari fram í áföngum verði haldið áfram af fullum krafti. 3) Að stefnt verði að útboði og framkvæmd í tæka tíð fyrir hagkvæman innsetningartíma. Síðan var það í haust, þegar þessar niðurstöður lágu fyrir, að rn. ákvað, að á þessu ári skyldi lagður strengur að virkjunarstaðnum, en rafmagnsveiturnar töldu sig hafa fé til þess, sem mundi nema um 5 millj. kr., og þetta mundi teljast vera fyrsta framkvæmd við Lagarfossvirkjun.

Um Lagarfossvirkjun að öðru leyti er það að segja, að af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins er það talið eðlilegast og hagfelldast eignar- og rekstrarform virkjunarinnar að fella hana inn í kerfi Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi, sem hafa með höndum svo til alla orkuframleiðslu og orkudreifingu á Austurlandi. Rafmagnsveitur ríkisins gera einnig ráð fyrir því, að eftir að málið hlyti afgreiðslu frá Alþ. og sýnt væri, að hverju stefndi, mundu þær einnig stefna að hagfelldri uppbyggingu orkumarkaðarins á Austurlandi og þá með hliðsjón af þeim innsetningartíma, sem ég hef talað um, og sérstaklega er getið í því sambandi upphitunar húsa.

Það kemur fram í aths., að fyrirvari er gerður af hálfu rafmagnsveitnanna vegna hugsanlegra jákvæðra undirtekta, sem bærust alveg á næstunni frá Laxárvirkjun og þyrfti að sjálfsögðu að taka til athugunar. Engar slíkar jákvæðar undirtektir hafa heyrzt síðan.

Þá er einnig að því vikið, að niðurstöður athugana Rafmagnsveitna ríkisins verði sendar Orkustofnun og mun umsagnar að vænta, eins og þar segir. Þessi umsögn liggur enn ekki fyrir, en eftir henni hefur verið gengið, og mun hún berast alveg á næstunni og koma til meðferðar í þeirri n., sem fær þetta mál til athugunar.

Hér er gert ráð fyrir því í frv., að ríkisstj. sé heimilt að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Lagarfoss. Í sjálfu sér gæti vel komið til greina önnur eignaraðild að slíkri virkjun, og ýmsir hafa haft það í huga, að Austfirðingar sjálfir eða sveitarfélögin þar fyrir austan stæðu fyrir slíkri virkjun. Borizt hafa tilmæli um hlutdeild að eignaraðild frá einum aðila, sem ég skal víkja að síðar. En ég tel, að um eignaraðild að þessu og fyrirkomulag virkjunarinnar geti gefizt tóm til þess að ræða frá öllum sjónarmiðum í umræðum um málið hér í þinginu, og ég hygg, að það sé kannske ekki aðalatriðið í þessu máli, heldur fyrst og fremst það, að skjótlega sé brugðið við til þess að framkvæma þær virkjanir, sem þarna er um að ræða, og bæta úr þeim rafmagnsskorti, sem er og verður væntanlega á næstunni, ef ekki er að gert á Austurlandi.

Hér er ekki um stóra virkjun að ræða, en hún þjónar sínum tilgangi fyrir héruðin þarna fyrir austan. Ætíð verður að hafa í huga, að á vissum tímum og af hagkvæmnisástæðum eiga smávirkjanirnar auðvitað rétt á sér ekki síður en stórvirkjanirnar, einkum og sér í lagi þegar þannig stendur á, að stórvirkjanir, sem gætu kannske gefið hagkvæmari raforku eru ekki á næsta leiti. Ég vil aðeins víkja að því, að það er þegar hafinn undirbúningur að rannsóknum — og rannsóknir raunar hafnar á hugsanlegum stórvirkjunum fyrir austan. Fljótt á litið sýnast vera þar fyrir hendi miklir möguleikar fyrir stórvirkjun með því að hagnýta þau vötn, sem falla til Austurlandsins, án þess að nokkrar vatnabreytingar verði gerðar á fallvötnum á hálendinu, og eftir því sem fróðir menn telja, ætti að vera unnt að reisa allt að 300 mw. virkjun með miklu falli 600 m falli niður af hálendinu og niður í Fljótsdalshérað. Að þessu verður að sjálfsögðu áfram unnið. Það tekur tíma að gera sér grein fyrir möguleikunum til stórvirkjunar vegna virkjunarinnar sjálfrar — nokkuð mörg ár mætti ætla, og einnig verður að hafa það í huga, að í slíka virkjun yrði ekki ráðizt þarna austur frá, nema jafnhliða lægju fyrir athuganir og niðurstöður um nýja stóriðju þar fyrir austan, sem einnig gæti verið undirstaðan undir byggingu slíks orkuvers.

Ég er þeirrar skoðunar, að að sumu leyti hafi smávirkjanirnar fallið í skuggann fyrir stórvirkjun nú upp á síðkastið, en það er nokkuð af sérstökum ástæðum. Um þetta var rætt á fundi Sambands ísl. rafveitna fyrir austan í sumar, og þó að ég væri ekki á þeim fundi, þá var ráðuneytisstjóri minn þar. Ég hafði líka nákvæmar fréttir af þeim fundi, og það var mikill áhugi og hugur í Austfirðingum einmitt um virkjun Lagarfoss. Steingrímur Jónsson, hinn gamli og reyndi fyrrverandi rafmagnsstjóri hér í Reykjavík, flutti þar erindi, sem ég hafði ánægju af að kynna mér, og mér finnst reyndar full ástæða til að taka upp úr því nokkur atriði, sem eiga erindi hér inn í þingsalina í tengslum við mál eins og þetta. Steingrímur Jónsson sagði þá m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Því hefir verið haldið fram, að smávirkjanir væru dýrar og að eingöngu stórar virkjanir gætu komið að gagni í landinu til að veita mönnum ódýra raforku. En þetta er ekki að öllu leyti rétt. Það fer eftir staðháttum, hvort vatnsaflsvirkjun verður dýr eða ódýr. T. d. er virkjun Þjórsár hjá Búrfelli ekki sérlega hagstæð, en sökum þess, hve fallið er mikið og vatnsmagnið, getur hún samt skilað tiltölulega ódýrri raforku vegna stærðar sinnar þrátt fyrir örðugar aðstæður. Smávirkjun við góðar aðstæður getur gert eins vel að því leyti. Ef flytja þarf raforkuna um langan veg frá hagstæðari virkjun, getur það gert útkomuna óhagstæða á notkunarstað miðað við nærtækari virkjun.

Við skoðuðum í dag elztu vatnsaflsstöð landsins, sem enn er í starfi, byggð 1911 við fjallalæk í Eskifjarðarkauptúni. Þegar við fórum þaðan, ókum við í gegnum kauptúnið inn hlíðina. Þar runnu margir lækir sams konar þeim, sem virkjaður var, niður hliðina á mörgum stöðum inn eftir dalnum. Að vísu voru þeir vatnsmiklir á þessum tíma árs, en margir þeirra hafa nokkurt rennsli allt árið og sumum má auðveldlega veita saman. Hvers vegna hafa þeir ekki verið virkjaðir einnig? Það er þörf fyrir meira en 50 kw. handa kauptúninu, það gæti notað yfir tíu sinnum meira.

Þannig er víðar í landinu og óánægja hefir komið fram vegna þess, að þessum virkjunarmálum smávirkjana hefir ekki verið sinnt, einkum á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum svo og einnig á Austurlandi, og við erum hér í dag einmitt að ræða virkjun Lagarfoss vegna þess, að vatnsaflsvirkjunum hafa ekki verið gerð viðhlítandi skil í þessum landshluta.

Þegar orkumálastjórn hefst ekki handa, er eðlilegt, að héraðsbúar rísi upp, kvarti yfir aðgerðarleysi og krefjist þess að mega taka til sinna ráða. Það er fullkomlega réttmætt. Rafmagnsmálin voru í fyrstu sveitarstjórnarmál og eru það enn samkv. vatnalögum. Þegar einstakar sveitarstjórnir ráða ekki við málið, er auðsætt, að koma verða til samtök þeirra svo sem sýslunefndir, líkt og fylkisstjórnir í Noregi hafa víða tekið stjórn raforkumálanna í sínar hendur innan fylkis. Hér yrði þó um samtök sýslunefndanna að ræða, og kemur þá fram þörfin á samtökum um allt Austurland til þess að hrinda í framkvæmd virkjun Lagarfoss.

Mér virðist það réttmætt, að héruðin geti krafizt þess af ríkisstj. að fá aðstoð hennar til framkvæmdanna, svo að þau geti virkjað sjálf. Það er auðvitað hugsanlegt, að Rafmagnsveitur ríkisins yrðu skikkaðar til að virkja. Það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að virkjað verði.

Það hefir raunar verið reiknað út, að draga mætti virkjunarframkvæmdir nokkuð með því að leggja línu að norðan. En línan leysir ekki málið til langframa, og þegar fyrirhugað virkjunarstig í Laxá er ekki stærra en það, að Laxárvirkjunin verður ekki aflögufær, þá er auðsætt, að Lagarfossvirkjun verður að koma á undan sambandslínunni.

Ég sá það í erindum Austfirðinga, að þeir vildu enga samninga við Norðlendinga um samskipti í raforkumálum. Mér þótti miður að sjá þetta, af því að í málefnum raforkuveitu verður að koma til samvinna milli héraða um raforkuöflun og flutning.

Ef Austfirðingar virkja Lagarfoss sjálfir, verða þeir að semja við Rafmagnsveitur ríkisins um samstarfið við dreifingu orkunnar. Það er sitt hvað að vinna orku í vatnsaflsstöð og selja í heild til dreifikerfis eða hitt að annast dreifingu orkunnar til hvers notanda. Hlutverki Rafmagnsveitna ríkisins þarf ekki að vera lokið á Austfjörðum, þótt Lagarfoss verði virkjaður.

Línan milli Austurlands og Norðurlands kemur til með að hafa sínu hlutverki að gegna til að brúa bilin milli virkjanastiga, og vafalaust verður góð og gagnleg samvinna þar um, þegar svo langt er komið.

Það hefur verið sagt, að ekkert sé athugavert við það, þótt tekið sé upp samstarf milli vatnsaflsstöðva og dísilstöðva svo sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa gert í vaxandi mæli. Þetta samstarf geti komið betur út fjárhagslega en ef orkan væri eingöngu unnin með vatnsafli. Þetta er rétt upp að vissu marki. Dísilstöð upp að 20–25% af sameiginlegu hámarksafli getur átt fullan rétt á sér, en þegar dísilaflið þarf að verða 50% og jafnvel 100% á móts við vatnsaflið, er komið út fyrir hagstæð fjárhagsskilyrði, og aukið vatnsafl verður aðkallandi. Þannig er nú ástatt á Austfjörðum og víðar.

Ég óska Austfirðingum til hamingju með að hafa tekið virkjun Lagarfoss upp sem héraðsmál og vona, að þeir geti leitt það til sigurs sem fyrst.“

Hér lýkur því, sem ég vitna til úr þessari ræðu Steingríms Jónssonar. Hún fjallar almennt um þýðingu smávirkjananna, en hún er töluð út frá því sjónarmiði, að Austfirðingar sjálfir virki Lagarfoss. Eins og ég sagði áðan, væri það út af fyrir sig atriði, sem vel má ræða hér, meðan málið er haft til meðferðar, þó að í frv. sé gert ráð fyrir, að Rafmagnsveitur ríkisins taki að sér þessa virkjun. Ég nefndi það áðan, að fyrir austan væri hjá tilteknum aðila áhugi á eignaraðild að Lagarfossvirkjun, ef virkjað yrði á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, og þar átti ég við bréf frá Rafmagnsveitu Reyðarfjarðar, dags. 12. okt. s. l., þar sem Rafveita Reyðarfjarðar skrifar á eftirfarandi hátt, með leyfi hæstv. forseta:

Þar sem ákvörðun hefur verið tekin um virkjun Lagarfoss, en hins vegar ekki afráðin eignaraðild að þessari virkjun, vill Rafveita Reyðarfjarðar fara þess á leit, að athugaðir verði möguleikar á eignaraðild hennar að Lagarfossvirkjun. Rafveita Reyðarfjarðar er eina orkuveitufyrirtækið á Austurlandi, sem er í eigu sveitarfélags. Rafveita Reyðarfjarðar lét gera á sínum vegum nýja áætlun um virkjun Lagarfoss á árunum 1964–1965, sem Ásgeir Sæmundsson vann, og varð sú áætlun til þess að vekja þetta mál upp að nýju og hefur orðið grundvöllur þeirra áætlana og rannsókna, sem síðan hafa verið gerðar og fyrirhugaðar framkvæmdir byggjast á. Rafmagnsveita Reyðarfjarðar er ekki stórt fyrirtæki, en rekstur þess hefur gengið vel. En hér sem annars staðar er orkuþörfin vaxandi. Þess vegna er þessi málaleitun fram borin í öruggri trú á gildi virkjunar í Lagarfossi fyrir raforkunotendur á Austurlandi. Við erum þeirrar skoðunar, að samvinna ríkis og sveitarfélaga um slíkt fyrirtæki hafi gefið það góða raun, að ástæða sé til þess að stuðla að þeirri þróun varðandi Lagarfossvirkjun. Verði þessari málaleitan vel tekið, sem við vonumst fastlega eftir, munu aðrar hliðar málsins svo sem stærð, eignarhluti og fjárhagshlið ræddar síðar. Svar óskast við fyrstu þóknanlega hentugleika.

Virðingarfyllst

Rafveita Reyðarfjarðar,

Sigfús Guðlaugsson

Guðjón Þórarinsson.

Afrit af þessu bréfi mun hafa verið sent Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Þessu bréfi hefur rn. svarað og gert Rafmagnsveitu Reyðarfjarðar grein fyrir, að rn. muni vekja athygli á málinu hjá þeirri þn., sem fær málið til meðferðar.

Ég hef bæði viljað greina frá þessu bréfi og eins því, sem ég vitnaði til um smárafveitur og forgöngu sveitarfélaga í raforkumálum, sem fram kom í erindi Steingríms Jónssonar, fyrrv. rafmagnsstjóra hér í Reykjavík, vegna þess að mér finnst, að það eigi allt að koma til athugunar í umræðum um málið, og höfuðmál er það, hvort samkomulag eða góð samstaða skapast, þegar í slíkar virkjanir er ráðizt, hver sem hefur með höndum virkjanirnar að lokum, og hvort hægt er að forða sér frá árekstrum, sem illu heilli hafa sums staðar annars staðar gert vart við sig.

Ég vil mega vænta þess, að þessu frv. verði vel tekið, og vil leyfa mér að lokum að óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.