01.02.1971
Neðri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. S.l. vetur sendi náttúruverndarráð menntmn. þessarar hv. d. frv. það, sem hér er til umr. og flutti n. það, en málið varð þá ekki útrætt. Nú hafa borizt áskoranir um að flytja frv. að nýju, en nm. áskilja sér sem fyrr allan rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja þeim.

N. hafa þegar borizt nokkrar brtt. við frv., en hún telur rétt að athuga þær, er hún fjallar um frv. á ný að lokinni fyrstu umr. Frv. þetta er augljóslega skylt þeim deilum, sem staðið hafa um framhaldsvirkjun í Laxá. Þó hefur menntmn. dregið nokkuð flutning frv. með tilliti til þess, að í vetur hafa verið gerðar tilraunir til að sætta deiluaðila og vildi n. ekki að neitt kæmi fram, sem hugsanlega kynni að torvelda það verk, þó að ekki horfi vel í þeim efnum nú.

Fyrir fáum árum var náttúruvernd áhugamál fárra manna og þeir oft fyrir þær sakir taldir í hópi sérvitringa. Nú hefur á skömmum tíma orðið sú mikla breyting, að náttúruvernd er orðið áhugamál mikils hluta þjóðarinnar og ein af þeim hugsjónum, sem mest er talað um og barizt fyrir í dag. Komið hefur til hagsmunaárekstra á milli þeirra, sem mesta áherzlu leggja á náttúruvernd og annarra, sem standa fyrir byggingu mannvirkja. Þrátt fyrir þessar deilur vil ég leyfa mér að fullyrða, að þeir, sem hafa haldið fram hlut mannvirkjanna í þessum deilum, muni allflestir þrátt fyrir það hafa raunverulegan áhuga á náttúruvernd og vilja að náttúra landsins verði varðveitt með sem minnstum spjöllum, ef af verður komizt í lífsbaráttu þjóðarinnar.

Þegar þessi mikli áhugi á náttúruvernd á að flytjast yfir á svið aðgerða, hlýtur mönnum að koma einna fyrst til hugar svæðið umhverfis Mývatn. Vatnakerfi Mývatns og Laxár hefur óvenjulega sérstöðu í íslenzkri náttúru og raunar þótt víðar væri leitað og er talið algerlega einstætt hvað snertir gróður og dýralíf. Fjölbreytni og gróska náttúrunnar er þar meiri en dæmi eru til annars staðar hérlendis og náttúrufegurð víða við brugðið. Þau sérkenni, sem ég hef nefnt, eiga ekki aðeins við um vatnakerfið sjálft, heldur og um landsvæði þau, er að þeim liggja. Mývatn og Mývatnssveit hafa þegar hlotið heimsfrægð vegna náttúruauðlegðar og náttúrufegurðar, enda laðar svæðið til sín mikinn fjölda erlendra fræðimanna og náttúruskoðara og fara heimsóknir þeirra sívaxandi. Efri hluti Laxár er ekki síður merkilegur frá náttúrufræðilegu sjónarmiði og náttúrufegurð er þar víða sízt minni en við Mývatn sjálft. Áin fellur þar fram í hvítfreyðandi strengjum milli grænna bakka og hvannhólma. Á þessum kafla Laxár eru aðalheimkynni fugla eins og straumandar og húsandar, a.m.k. á vissum tímum árs, en þetta eru andategundir, sem ekki finnast neins staðar í Evrópu utan Íslands.

Af því, sem nú verður sagt og vafalaust er öllum hv. þm. ljóst, kemur það á daginn, að hér er um stórt svæði að ræða, sem brýna nauðsyn ber til að vernda gegn hvers konar náttúruspjöllum. Það virðist því ekki orka tvímælis, að það sé fullkomlega réttlætanlegt og tímabært að setja sérstök lög um takmarkaða náttúruvernd á þessu svæði, þótt hefðbundnir atvinnuvegir haldist þar áfram, svo sem verið hefur.

Það frv., sem hér er flutt, er tilraun til þess að flytja þann áhuga, sem komið hefur í ljós á síðustu misserum, yfir í aðgerðir á Mývatnssvæðinu í heild. Er meginefni frv. að því leyti mun víðtækara heldur en þær deilur, sem uppi hafa verið um einstök mannvirki á einstökum hlutum þessa landsvæðis.

Um efni frv. þarf ég ekki að verða langorður. 1. gr., sem sjálfsagt verður af ýmsum talin ganga býsna langt, kveður svo á, að óheimilt skuli vera að reisa mannvirki önnur en þau, er eðlileg megi teljast í sambandi við búskap á lögbýlum, án leyfis náttúruverndarráðs á þessu tiltekna svæði. Þá er í öðru lagi talað um, að hvers kyns jarðrask og efnistaka, sem kynni að raska hinum upprunalega svip landsins, skuli óheimil á hinu umrædda svæði án leyfis og loks, að hvers konar breytingar vatnsborðs stöðuvatna og fallvatna á þessu svæði svo og hvers kyns breytingar eða truflanir á rennsli fallvatna skuli óheimilar án samþykkis náttúruverndarráðs.

Mörg fleiri ákvæði eru í frv., þ.á.m. um að heimilt verði að banna umferð óviðkomandi manna um tiltekin svæði í sveitinni á vissu tímabili. Þá eru ákvæði um heimildir til takmörkunar á tilhögun og magni netaveiða í Mývatni á tímabilinu frá 1. maí til 1. október. Enn eru heimildir til þess, að gefnar verði út reglugerðir, sem lúta að verndun fugls og fisks í Mývatnssveit og ýmsu fleira, sem gæti orðið til þess að veita þessu héraði og náttúru þess stórum meiri vernd gegn tækni og ýmiss konar hættu, en unnt er með gildandi lagaákvæðum í dag.

Loks er ákvæði um það, að svo fljótt sem við verður komið skuli reist rannsóknarstöð við Mývatn og þarf ekki að efast um, að hún mundi vekja athygli og áhuga vísindamanna og náttúrufræðinga langt út fyrir mörk Íslands.

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá n. og er því ekki nauðsynlegt að samþykkja formlega að vísa því aftur til n., en ég get lýst því yfir, að það er vilji menntmn. að taka málið aftur til ítarlegrar athugunar. Er það því ósk n., að það verði ekki tekið á dagskrá til 2. umr. fyrr en n. hefur látið frekar frá sér heyra. Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr.