22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. er komið fram og stuðningi mínum eindregnum við það. Það, sem er þó þýðingarmest við þetta frv., er, að á bak við það liggur ákvörðun ríkisstj. um að ráðast í Lagarfossvirkjunina og að byrjað er nú þegar á undirbúningsframkvæmdum. Það er í l. áður heimild til þess að virkja Lagarfoss — öðruvísi þó en hér er farið fram á. Meiningin með þessu frv. er sýnilega að fá hjá Alþ. heimildir til þess að framkvæma Lagarfossvirkjunina á þann hátt, sem ráðh. hefur nú í raun og veru tekið ákvörðun um, og öllum er kunnugt, að byrjað er á framkvæmdum. Það er gert ráð fyrir, að fyrst verði einvörðungu um rennslisvirkjun að ræða, en með stækkunarmöguleikum eins og greinilega var tekið fram hjá hæstv. ráðh. Það er álitið, að það muni fást mjög hagstætt raforkuverð í Lagarfossvirkjuninni, og stækkunarmöguleikar eru verulegir, þannig að þarna ætti að geta verið um sívaxandi raforkunotkun og framleiðslu að ræða á þessu svæði. M. a. vonar maður, að þess verði ekki langt að bíða, að þarna verði um verulega notkun á raforku að ræða til hitunar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja hér aðdraganda þessa máls. Það er áratugagamalt baráttumál Austfirðinga að fá Lagarfoss virkjaðan, en fram að þessu hafa raforkuyfirvöld — einkanlega þau tæknilegu — ætíð talið, að orkunotkun á Austurlandi væri ekki nógu mikil til þess að réttlæta byrjunarvirkjun í Lagarfossi. En nú er viðhorfið breytt að því leyti, að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hefur lagt til við hæstv. ráðh., eins og fskj. með frv. ber með sér, að Lagarfoss verði virkjaður, og á því hefur hæstv. ráðh. góðu heilli byggt sína afstöðu í málinu, sem er sérstök ástæða til þess að fagna, eins og ég tók fram áðan.

Það eru margir, sem hafa komið við sögu í þessu verki, og þm. Austf. hafa staðið vel saman — það er ánægjulegt að minnast þess — í því að reyna að fá fram ákvörðun um virkjun Lagarfoss og hafa ástæðu til þess að gleðjast sameiginlega yfir því, að málið er komið á þetta stig. Enn fremur er nauðsynlegt að minnast þess, að sveitarstjórnasambandið á Austurlandi hefur lagt mjög mikla vinnu í þetta mál og orðið að stórfelldu liði — og ekki síður fulltrúar Austurlands í raforkunefndinni, sem starfaði að þessu máli og hæstv. ráðh. minntist á hér áðan. Sjálfsagt er að íhuga hleypidómalaust það bréf, sem komið hefur frá Rafveitu Reyðarfjarðar, sem hæstv. ráðh. vék að, og kynna sér viðhorf Austfirðinga í því máli, og ég geri ráð fyrir, að sveitarstjórnasambandið geti sagt hug þeirra í því, þannig að það þurfi ekki að tefja málið að komast eftir því, hvernig viðhorf manna er varðandi rekstraraðilann að virkjuninni. En ég legg megináherzlu á, að það verði ekki farið inn á neinar þær leiðir í sambandi við þetta mál, sem tefja það á einn eða annan hátt. Aðalatriðið er, að hægt sé að fylgja fram með fullum hraða þeim ákvörðunum, sem teknar hafa verið af hæstv. ríkisstj. — sem sé sameinast um að beita sér fyrir þessu mikla hagsmunamáli Austfirðinga, og á það vil ég leggja höfuðáherzlu, að haldið verði áfram með sem mestum hraða.