11.02.1971
Neðri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Forseti (BGr):

Að svo miklu leyti sem ég ber ábyrgð á dagskrá þessarar d. var reynt á fundinum í gær að taka til umr. og afgreiða til 2. umr. allmörg frv., sérstaklega frv. frá stjórnarandstöðuþingmönnum, sem mörg hver höfðu beðið afgreiðslu jafnvel lengur, en þetta mál. Það er af þeim sökum, sem fundurinn í gær var eins og hann var og ekkert við því að segja, þó að mál, sem búizt er við stuttri umr. um, séu látin ganga fyrir málum, sem vitað er fyrirfram, að langar umr. verða um.

Hvað snertir fundinn í dag eru á dagskrá tvö þýðingarmikil stjfrv., sem búizt er við að taki ásamt atkvgr. fundartíma allan. Þess vegna þótti ekki ástæða til að setja þetta mál á dagskrá. En þar sem ég er einn af flm. málsins, vænti ég þess, að ég sé ekki borinn ásökunum um að reyna að tefja fyrir því á einn eða annan hátt, en það eru fjöldamörg önnur þmfrv., sem áttu fullkominn rétt á því að komast að.