17.02.1971
Neðri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2964)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs aftur í umr. um þetta frv., eru nokkur orð, sem féllu varðandi ræðu mína hér á dögunum sérstaklega af munni hv. 4. landsk. þm., sem ég sé, að því miður er ekki hér mættur í þd. og einnig vegna annarra hluta, sem komu fram í sambandi við umr. um málið. Því miður verð ég að biðja afsökunar á því, að einhverjum kann að finnast, að ég fjalli ekki nema að takmörkuðu leyti um sjálft frv., en umr., sem urðu um það, gefa einmitt tilefni til þess að fjalla um ýmis önnur atriði.

Hv. 4. landsk. þm. (JónasÁ) lét svo um mælt í ræðu, sem hann flutti eftir mína ræðu, að ég hefði lýst mig andvígan Félagi landeigenda við Laxá og Mývatn og lýst mig samþykkan saksókn gegn 65 Þingeyingum vegna sprenginga á stíflu við Mývatnsósa. Af þessum sök um vil ég taka fram eftirfarandi:

Það er rétt, að ég er andvigur baráttu landeigendafélagsins gegn Laxárvirkjun III og tel hana andstæða hagsmunum alls þorra íbúa í Norðurlandi eystra. Ég vil taka enn dýpra í árinni og staðhæfa, að þessi barátta sé rekin undir fölsku flaggi, þar sem náttúruverndarsjónarmið eru höfð að yfirvarpi, en hagsmunir laxveiðibænda og þó aðeins fárra og draumar um hugsanlega hagsmuni af laxarækt og tekjum af veiðileyfum í óljósri framtíð eru aðal driffjöðrin.

Þá vil ég taka fram, að ég tel meira um vert af tvennu að breyta orku Laxár í ljós, hita og til reksturs iðnaðar og ýmissar þjónustu heldur en áin gleðji nokkra sportveiðimenn, kannske innan tíðar aðeins útlendinga, og verði tekjulind fáeinna veiðibænda. Hitt finnst mér gott og blessað, ef hægt væri að gæta hagsmuna beggja, hvað ég tel gert með Laxárvirkjun III. Ég vil vekja athygli á, að margir landeigendur, sem lönd eiga að Laxá, eru ekki í landeigendafélaginu og hafa ekki viljað í það ganga, þar eð þeir aðhyllast ekki baráttu þess né baráttuaðferðir gegn virkjun Laxár. Ég bendi á, að ríkið og Laxárvirkjunarstjórn eiga það land, sem mannvirki Laxárvirkjunar III eru og verða reist á. Ég bendi enn á, að þær tvær jarðir í Laxárdal, sem hin fyrirhugaða 20 m háa stífla Laxárvirkjunar III getur hugsanlega haft lítillega áhrif á, — þ.e. hækkað í ánni án þess að hún þó gangi á engi, hvað þá tún, — eru báðar í ríkiseign. Ég bendi enn á, að Laxárvirkjun III, eins og hún hefur nú verið hönnuð, gengur hvergi lengra en stjórn Búnaðarsambands Suður–Þingeyinga og sýslunefnd hafa fyrir nokkrum árum kveðið sig samþykk. Ég endurtek fyrri ummæli mín, að íbúar orkuveitusvæðis Laxárvirkjunar eru í mjög sárri þörf fyrir aukið rafmagn. M.a. er iðnrekstri SÍS á Akureyri, annarri aðalundirstöðu atvinnulífs Akureyrarbúa, stefnt í bráða hættu, verði raforkuskortur okkar ekki bættur hið bráðasta. Ég bendi á, að fátt eða ekkert yki öryggi héraðsbúa um Eyjafjörð, Suður–Þingeyjarsýslu og Norður–Þingeyjarsýslu meir en svo aukið rafmagn, að þar megi hita öll hýbýli með raforku, sem hitaveitu geta ekki fengið. Þetta nefni ég vegna hafís hættu um þessar slóðir. Enn bendi ég á, að mikilsvert er, að virkjunin fari fram innan héraðs, sé þess kostur, vegna atvinnuaukningar. Og ég leyfi mér að vekja athygli á, að samkv. nýjustu athugun virðist hver kwst. munu kosta 64–68 aura í Laxá III móti 95–110 aurum frá Lagarfossvirkjun og 105–135 aurum frá Búrfelli, svo að hér eru ekki litlir hagsmunir í húfi fyrir íbúana í Norðurlandskjördæmi eystra.

Enn vil ég vekja athygli á, að nú verðum við að framleiða mikla raforku með dísilvélum og bara olíukostnaðurinn á kwst. er um 150 aurar. Þeir sem berjast á móti Laxárvirkjun III, vilja viðhalda því, að við verðum að kaupa dýrum dómum dísilraforku og koma í veg fyrir það, að hægt sé að framleiða miklu ódýrari vatnsaflsraforku heldur, en við getum fengið annars staðar frá. Það er stundum gott og blessað að geta sungið í samkvæmum „Blessuð sértu, sveitin mín“ eða „Fjalladrottning, móðir mín, mér svo kær og hjartabundin“, en hve djúpt stendur sú ættbyggðaást, þegar menn svo standa gegn því að gera heimabyggð sína byggilega, berjast gegn hagsmunum íbúanna um allt þetta kjördæmi? Þessi orð læt ég falla hér einmitt vegna þeirrar blindu, sem hefur heltekið ýmsa góða Reykvíkinga, sem hingað hafa flutt suður, ekki viljað, ekki getað, kannske ekki nennt að búa í Norðurl. e., en þykjast nú geta sagt okkur fyrir um það; hvernig bezt er að framleiða rafmagn fyrir íbúana þar.

Varðandi saksóknina gegn 65 aðilum, sem að sprengingunni við Mývatnsósa stóðu, tek ég fram, að í augum mínum frömdu þeir ofríkisbrot gegn landslögum og gegn hagsmunum sjálfra sín og íbúanna í Norðurl. e. Ég teldi það skort á réttargæzlu, ef þeim væri ekki gert þetta ljóst með saksókn, sem og öllum landsmönnum. Hitt leynist mér ekki, að saksókn þessi nær ekki til þeirra, sem siðferðilega eru sekastir, þeirra, sem með áróðri eggjuðu til ofríkisverkanna. Slíkt er ekki nýtt í þjóðarsögunni.

Ég vil líka koma því að, vegna ummæla hv. 4. þm. Austf., sem ræddi um saksókn gegn 65 bændum, að hér er ekki nema að hálfu um bændur að ræða. Í Tímanum hinn 14. jan. s.l. birtist skrá yfir hina kærðu og var staða tilgreind. Samkv. þeirri skrá er 27 bændum stefnt og tveimur húsfreyjum, þ.e. konum bænda. Aðrir bera aðra titla og gegna öðrum störfum. Í leiðinni vil ég frábiðja mér afskipti hv. 4. þm. Austf. af raf­ orkumálum Norðlendinga og ætti hann, að ég hygg, fremur að huga að raforkumálum Austfirðinga. Hingað til hef ég a.m.k. ekki talið mér leyfilegt að skipta mér af raforkumálum Austfirðinga gegn þeirra vilja og þá finnst mér ekki, að Austfirðingar eigi að skipta sér af raforkumálum Norðlendinga gegn þeirra vilja. Hans ummæli fundust mér í ætt við þá, sem hafa hóað í lætin, verið utanaðkomandi og hóað í lætin og tafið fyrir samkomulagi og framgöngu málsins. Undir þá grein vil ég nefna sum dagblöðin, sem hafa oft flutt rangar upplýsingar um mál þessi, svo og vissir aðilar í hljóðvarpi og sjónvarpi, sem undir flaggi hlutlauss fréttaflutnings hafa leyft sér og haldizt uppi endurteknar rangtúlkanir á Laxárvirkjunarmálum. Eitt ágætt dæmi hefur t.d. verið það, að hvenær sem eitthvað er sagt frá Laxárvirkjunarmálum eins og þau gerast niðri í Laxárdal eða Aðaldal, þá hefur iðulega birzt á sjónvarpsskerminum mynd frá Kálfastrandarvogum, óbeint gefið í skyn, að þetta land eigi nú að sökkva líka, þó að enginn, sem þarna þekkir til, láti sér detta í hug, að Laxárvirkjun III hafi nokkur minnstu áhrif á Kálfastrandarvoga, á Mývatn né Laxá alla götu niður undir Laxárgljúfur. Nú kann einhver að spyrja og segja, að sprengingarmenn hafi verið að svara fyrir ólögmæt spjöll á eignum sínum, svo sem heyrzt hefur. Hver eru þau spjöll? Minnkuð silungsgengd milli Laxár og Mývatns hefur helzt verið nefnd. En nú vill svo til, að til er nokkuð, sem heitir skattframtöl Mývetninga og þau bera með sér, að tekjur þeirra af silungsveiði hafa farið vaxandi hin síðari ár, einmitt eftir að þessar stíflur voru gerðar. Enn voru þarna fleiri á ferð en þeir, sem nokkurra hagsmuna höfðu að gæta og hví leituðu ekki þeir menn, sem á sér töldu brotið, til dómstóla með réttingu mála sinna? Hvar yrði þjóðfélag okkar statt innan tíðar, ef menn hyggjast almennt taka réttargæzlu fyrir sjálfa sig í eigin hendur og neituðu að hafa hliðsjón af réttanþörf náunga sinna.

Í lok ræðu minnar síðast gat ég þess, að þrjár hreppsnefndir af fimm, sem mál þetta snerti sérstaklega, hefðu tjáð sig meðmæltar Laxárvirkjun III að meiri hluta eða hreppsnefnd Reykjahrepps einróma, Aðaldælahreppur 4 af 5, 1 setið hjá og Reykdælahreppur 4 af 5. Síðar var sagt hér, að þetta væri rangt hjá mér. Ég hafði þann fyrirvara á, að það yrði leiðrétt, ef ég færi með rangt mál og ég skal fúslega viðurkenna hér, að það gerði ég, en ekki viljandi. Ég hafði kynnt mér vilja hreppsnefndar Reykdælahrepps og vissi, að þar var meiri hluti fyrir virkjun Laxár III, en seinna frétti ég, að niðurstaða hreppsnefndarinnar hefði verið sú að gera ekki ályktun, þar eð ekki fékkst samróma ályktun gerð, þrír voru með ákveðinni samþykkt, einn taldi hana ekki nógu skorinorða, hann var svo harður af sér, en sá þriðji vildi að vísu ekki vera algerlega á móti, en heldur ekki með. Þetta hygg ég, að sé allur sannleikur í málinu.

Í Laxárvirkjunarmálinu svonefnda hefur einkennileg múgsefjun átt sér stað. Þetta er í rauninni hagsmunaárekstur fárra sérhyggjumanna með náttúruverndarflagg að yfirvarpi við hagsmuni alls þorra íbúa í Norðurl. e., sem skortir sárlega rafmagn. Vegna skefjalauss áróðurs forvígismanna landeigendafélagsins og þekkingarskorts alls þorra landsmanna á staðháttum þarna fyrir norðan, hefur samúðin gengið á hönd ofríkismönnunum fáu, en stimplað félagshyggjumenn, sem berjast fyrir hagsmunum héraðsbúa allra, ofríkismenn. Og svo einkennilega vill til, að nú ætlar Alþb., sem við heyrum hér daglega lýsa félagshyggju sinni fögrum orðum, nú ætlar það að reyna að vinna kosningar norður í Þingeyjarsýslu á því að taka upp merki ofríkismannanna, sérhyggjumannanna og berjast fyrir þá. Verði þeim að góðu.

Ég vil að lokum láta hér koma skýrt fram, að Laxárvirkjunarstjórn á heiður skilið fyrir þrautseigju sína fyrir framgangi virkjunar Laxár, svo margt ranglátt, sem á henni hefur dunið. Orkumálarn. á líka þakkir skilið og ríkisstj. öll fyrir aðgerðir sínar til lausnar málinu og sáttanefndin, bæjarfógeti Akureyrar og bæjarfógeti Húsavikur, eiga heiður skilið fyrir þeirra aðgerðir. Þegar öllu moldviðrinu, sem þyrlað hefur verið upp í kringum þetta mál, slotar, þá er það grunur minn, að margir, sem nú tala hátt og mikið gegn málinu, vildu gjarnan hafa verið hljóðari menn, en þeir hafa verið.

Að lokum þetta: Víst skulum við stuðla að náttúruvernd svo sem framast er kostur, en á þann hátt, að hún torveldi ekki heilbrigt líf í landinu, torveldi hvergi íbúum þess að halda héruðum sínum í blómlegri byggð, en til þess þarf stundum að breyta einu, svo að annað náist fram, sem er þýðingarmeira. Þessi mál á aldrei að vefja í kufli sérhyggju, einstrengingsháttar og þröngsýni.