17.02.1971
Neðri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hér er verið að ræða um frv. til l. um takmarkaða náttúruvernd á vatnasviði Mývatns ag Laxár. Í raun og veru þarf ég ekki að fara mörgum orðum um þetta frv., vegna þess að ég er í öllum aðalatriðum sammála því, sem fram kemur í frv. Markmið þessa frv. eða laga, ef frv. verður að lögum, er að vernda hið sérstaka náttúrufar við Mývatn og Laxá í Þingeyjarsýslu. Þetta er höfuð markmiðið, að vernda náttúrufar við Mývatn og Laxá. Þess vegna hlýt ég að fagna frv., sem hefur það að markmiði að gera slíkt. Mývatnssveit er, eins og við allir vitum, sem þangað höfum komið, — og ég geri ráð fyrir, að allir þm., sem hér eru inni, hafi komið þangað, — Mývatnssveit er einn mesti unaðsreitur á landinu og Laxá í Suður~Þingeyjarsýslu er líka hin mesta perla. Þess vegna er það alveg ljóst og hlýtur svo að vera, að ég og margir, sem hugsa líkt og ég í þessu máli, munu leggja því lið, að frv. sem þetta nái fram að ganga, frv. sem hefur það að markmiði að vernda líf og gróður á þessu landsvæði.

En inn í umr. um þetta frv. hefur annað mál dregizt nokkuð, þ.e. virkjunaráformið í Laxá, svokölluð Laxárdeila. Og menn hafa yfirleitt talað meira um Laxárdeiluna eða um Laxármálið heldur en um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég tel ekki óeðlilegt, að á þetta mál sé minnzt, því að hér er um skylt mál að ræða. Hins vegar vil ég taka það fram, eftir að hafa hlustað á þær umr., ekki sízt þær umr., sem fram fóru hér um daginn, að það er ekki alveg sama, hvernig um þetta mál er rætt og sérstaklega tel ég það óforsvaranlegt að ætla sér að fara að ræða þetta mál hér á flokkspólitískum grundvelli eða fara að gera þetta mál að einhverju sérstöku flokksmáli. Ég veit ekki til, að neinn flokkur hafi tekið á sig sérstakt forsvar fyrir þessu virkjunarbrölti öllu saman, né heldur að nokkur sérstakur flokkur hafi tekið að sér andstöðu gegn stórvirkjuninni. Áhuga á stórvirkjun í Laxá má finna meðal fólks í öllum stjórnmálaflokkum. En skilningsleysi á náttúruvernd og þessi ofdýrkun á mannvirkjagerð, sem algeng er, hefur verið skæður faraldur hér á landi um langt skeið og áreiðanlega náð til fólks í öllum stjórnmálaflokkum. Og þegar menn eru núna loksins að ranka við sér og sjá, að við erum á góðri leið með að tortíma sjálfum okkur með eiturefnum, með náttúruspjöllum, þá veit ég ekki til, að það fari eftir stjórnmálaskoðunum, hversu fljótir menn eru að átta sig á því, hvert stefnir í þessum málum. Þó get ég ekki stillt mig um að geta þess, að framsóknarmenn þurfa ekki að bera neinn kinnroða vegna þessara mála almennt. Náttúruverndaráhugi er mikill meðal framsóknarmanna og þeir hafa fullan skilning á nauðsyn mengunarrannsókna og aðgerða til þess að stemma stigu fyrir þeim vágesti og öðrum náttúruspjöllum. Ég vil í þessu sambandi minnast þess, að Ólafur Jóhannesson, formaður Framsfl., mun fyrstur manna hafa gert rannsóknir og varnir gegn mengun að sérstöku þingmáli og tillaga frá honum um það efni hefur verið samþ. hér á Alþ. Og ég veit ekki til, að það sé til öllu einlægari náttúruverndarmaður í þessu landi, en fyrrv. formaður Framsfl., Eysteinn Jónsson. Og mér er ekki kunnugt um, að önnur blöð en Tíminn hafi helgað náttúruvernd sérstaka fasta dálka.

Herra farseti. Ég minnist alls ekki á þetta að tilefnislausu. Ég minnist á þetta m.a. að gefnu tilefni frá einum þeirra hv. þm., sem hér töluðu við þessa umr. um daginn og þessi hv. þm. er 4. landsk. þm., Jónas Árnason. Allur hans málflutningur hafði á sér þann blæ, að Alþb.–menn og Alþb. sem stjórnmálaflokkur — að Alþb.–menn væru sérstakir postular náttúruverndar og þá sérstaklega að því er varðar náttúruvernd við Laxá og Mývatn. Og til þess að undirstrika það var hv. 4. þm. Austf., formaður þingflokks Alþb., látinn taka þátt í umr. Það átti að undirstrika, að Alþb.–menn væru öðrum fremur náttúruverndarmenn og þá alveg sérstaklega flokkur þeirra og þeirra menn hefðu frá upphafi staðið fremst í fylkingu í baráttunni gegn stórvirkjunum í Laxá. Ég skal ekki draga í efa, að meðal ýmissa Alþb–manna sé mikill áhugi á náttúruvernd yfirleitt og á vernd Laxár og Mývatns sérstaklega, enda má slíkan áhuga finna hjá fólki í öllum stjórnmálaflokkum. Og ég skal ekki og mun ekki draga í efa áhuga ýmissa þm. Alþb. á náttúruverndarmálum yfirleitt og sízt af öllu ætla ég að efast um áhuga hv. þm. Jónasar Árnasonar persónulega. En ef hv. þm. heldur, að hann geti slegið sig til riddara á því, að flokkur hans, Alþb., sé öðrum fremur náttúruverndarflokkur, þá bregzt honum bogalistin. Auðvitað er Alþb. enginn sérstakur náttúruverndarflokkur og Alþb.–menn þar af leiðandi engir sérstakir útvaldir náttúruverndarenglar.

Laxárdeilan er hér mjög til umr. og hún blandast inn í þetta mál. Ég hef mína skoðun á því máli. M.a. hef ég gert mér far um að grafast fyrir upptök deilunnar, a.m.k. reyna fyrir mitt leyti að öðlast skilning á því atriði, enda veldur sá miklu, sem upphafinu veldur, eins og hv. þm., sem hér var að tala áðan; orðaði það. Og hvert er upphaf deilunnar? Upphaf deilunnar er m.a. að rekja til kunnasta mannvirkjafræðings í Reykjavík, Sigurðar Thoroddsen verkfræðings, sem hefur haft af því drjúgt framfæri um margra ára skeið að segja fyrir um það, hvernig hagkvæmast sé að virkja Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Það var þessi alþekkti og stórtæki virkjunarhönnuður, sem bjó til Gljúfursvers áætlunina frægu, þá miklu Gljúfursvers áætlun, þar sem gert var ráð fyrir því að virkja Laxá í 4 eða 5 áföngum, sökkva Laxárdal undir vatn, flytja ár, sem fyrrum runnu í vestur, í nýjan farveg í austur gegnum Mývatnssveit út í Laxá og auka þannig vatnsmagn þeirrar ár. Það var þessi áætlun, þetta virkjunarbrjálæði Sigurðar Thoroddsen, sem hleypti skriðunni af stað. Því miður gleypti Laxárvirkjunarstjórn þessa flugu helzta virkjunarsérfræðings Alþb. og fór svo að pukrast við það í samráði við einhverja ráðh. að framkvæma þetta plan Sigurðar Thoroddsen. Það var ekki haft fyrir því að spyrja Alþ. um þetta mál og það var ekki haft fyrir því að leita álits einstakra þm. Þess var gætt, að þm. fengju ekkert að vita um þetta fyrr en í óefni var komið og þá stendur ekki á getsökum og því, sem á eftir fer, þegar óhlutvandir menn eiga í hlut, að reyna að græða pólitískt á þessum óskapnaði öllum saman, sem m.a. á upptök sín í hugvitssömum kolli aðalvirkjunarspekings Alþb.

Ég vil því í fullri vinsemd beina því til Alþb–manna að leika hér ekki engilhlutverk. Þeim ferst það ekki. Ég ætla ekki að gera hlut okkar þriggja þm. Framsfl. í Norðurl. e. meiri eða stærri, en hann er í þessu máli. En ég vil þó, að það komi fram, að við höfum fyrst og fremst leitazt við að gera tvennt í sambandi við Laxárdeiluna. Í fyrsta lagi að beita áhrifum okkar í þá átt, að deiluaðilar mættu sættast. Í öðru lagi að stuðla að því, að mannvirkjagerð yrði ekki til þess að spilla sérstæðri náttúru á vatnasviði Laxár og Mývatns og tryggja, að laxræktar möguleikar í ánni héldust. Þetta hefur verið okkar stefna í málinu og öll okkar afskipti af Laxárdeilunni hafa farið í þessa átt. Og að þessu miðar m.a. frv. okkar um virkjun fallvatna í Þingeyjarsýslu. Og rauði þráðurinn í því frv., má segja, er náttúruvernd. Við viljum leggja bann við virkjunum, sem spilla sérstæðri náttúru. Það er okkar stefna. Og þess vegna tökum við einnig undir meginstefnu þess frv., sem hér er til umr.

Það er að vísu lofsvert af hv. þm. Jónasi Árnasyni, sem fram kom um daginn, að hugsa með hlýju af og til, til okkar framsóknarmanna. En jafnframt verð ég að hryggja hann með því, að við framsóknarmenn munum treysta öðrum betur en honum til þess að dæma um verk okkar og innræti yfirleitt, þ.á.m. um heilindi okkar og stefnufestu. Það mál munum við leggja undir dóm kjósenda á Norðurlandi, þegar þar að kemur og spyrja hann í engu ráða, ekki einu sinni í Laxárdeilunni !