22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns, 4. þm. Austf. Hann virtist óttast það, að það kynni að tefja eitthvað málið, ef þessi málaleitun Reyðfirðinga yrði tekin til athugunar í n., en ég óttast það alls ekki, og ég veit, að það dettur engum í hug, að ég eða þeir á Reyðarfirði hafi löngun til þess að tefja frekar en orðið er fyrir þeim framkvæmdum, sem þarna eru fyrirhugaðar. En mér þótti hins vegar vænt um að heyra það í hans ræðu síðar, að hann viðurkennir þau rök, sem raunverulega liggja á bak við það mál, sem ég hef hér flutt og lýsir skoðun mjög margra sveitarfélaga, virðist meira að segja vera yfirlýst skoðun t. d. Sambands ísl. sveitarfélaga, þ. e. að einmitt raforkumálin eigi að vera í höndum samtaka þeirra. Það er alveg rétt, að ein ástæðan er áreiðanlega sú, að almenningi er farið að skiljast þetta, og hann verður var við ýmsa vankanta á því fyrirkomulagi, sem nú er, eins og t. d. það, að það skuli ekki vera hægt að fá heimtaug í eitt einasta hús, hvar sem er á landinu, nema með því að leita samþykkis yfirvalda á Laugavegi 118 í Reykjavík. Ég vil aðeins nefna þetta. Þetta mál þurfti hins vegar ekki að koma sérstaklega við sögu í athugun á eignaraðild að Lagarfossvirkjun. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að vitanlega er það mál ekki úr sögunni, þ. e. athugunin á skipulagsbreytingu í raforkumálum yfirleitt, þó að þetta frv. nái fram að ganga í því formi, sem það er núna. En hitt vil ég enn leggja áherzlu á, að þessi málaleitun Reyðfirðinga verði vandlega athuguð.