10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2989)

153. mál, vinnuvernd

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið flutt nokkrum sinnum áður á Alþ. Þó eru á því nokkrar breytingar gerðar nú frá því, að það var síðast flutt. Það er nú flutt af hv. 5. þm. Vesturl. ásamt mér. Frv. er um vinnuvernd, greiðslu vinnulauna, uppsagnarfresti o. fl. og er í einum 8 efnisköflum. Að nokkru leyti er efni þess byggt á niðurstöðum samninga milli vinnuveitenda og verkalýðssamtaka, en að meginstofni fjallar það um ýmis atriði, sem lagaákvæði skortir um í íslenzkri löggjöf eða ágreiningur getur risið út af og hefur margsinnis risið út af í samskiptum atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, og sá ágreiningur sprottið af óljósum ákvæðum samninga eða skortandi lagaákvæðum. Að langmestu leyti er þetta frv. um vinnuvernd nýsmíði í íslenzkri löggjöf. Það er að vísu svo, að inn á nokkur svið grípur þetta frv., þar sem löggjöf er áður fyrir, og mætti þar t. d. nefna lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Þar er fjallað um sama efni eins og í I. kafla þessa frv., en ákvæði þessa frv. eru þó að meginstofni um atriði, sem ekki eru fram tekin í lögum um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Þá má og segja, að lög um greiðslu verkkaups frá 19. maí 1930 komi inn á sama svið eins og V. kafli þessa frv. En ákvæði þeirra laga eru að ýmsu leyti vegna breyttra aðstæðna síðan orðin úrelt, vil ég segja, eða a. m. k. ófullnægjandi.

I. kafli frv. fjallar um holl og góð starfsskilyrði á vinnustað. Þar er aðallega vikið að grundvallaratriðum, svo sem að gæta hitastigs og rakastigs andrúmslofts og að loft sé án ryks, óþefs eða reyks eða óheilnæmra lofttegunda eða gufu, að umferð um vinnustað sé hindrunarlaus og örugg og lýsing í góðu lagi og nægilegt loftrými, þannig að allt þetta, þessi meginatriði um vinnustaðinn, fullnægi heilbrigðiskröfum. Þá eru teknir fram sjálfsagðir hlutir eins og um heilnæmt og gott drykkjarvatn, sem þar skuli vera til staðar á vinnustað, þvottavatn og hæfileg tala salerna. En um flestöll þessi atriði verður að segja það, að á mörgum vinnustöðum eru þau öll í ólestri meira eða minna, svo að óviðunandi og ósæmilegt er. Þá skal á hverjum vinnustað vera upphituð og vistleg kaffistofa, matarstaður. Þetta atriði er mjög víða í góðu lagi hjá atvinnurekendum og þeim til sóma, en hins vegar er það líka til, að þessi aðbúnaður sé ekki fullnægjandi og lagaákvæði ekki fyrir hendi um þetta.

Þá er það kannske meginatriði þessa kafla, að ef vinnustaður fullnægi ekki þeim skilyrðum, sem þessi kafli kveður á um, þá sé heilbrigðisyfirvöldum og öryggiseftirliti heimilt að loka vinnustaðnum, ef ekki fæst úr bætt. En því miður verður að segja það, að margvíslegur ágreiningur hefur verið uppi nú að undanförnu vegna aðbúnaðar á vinnustöðum, þar sem t. d. vinnustaðurinn hefur verið talinn algerlega óviðunandi sökum ófullnægjandi aðstöðu, bæði frá heilbrigðis- og öryggissjónarmiði, og atvinnurekendur hafa margsinnis lofað verkalýðsfélögunum úrbótum, en það ent í undandrætti og útideyfu og ekki fengizt úr bætt. Heilbrigðisyfirvöldin hafa svo, ef þau hafa verið til kvödd, ekki talið sig hafa aðstöðu til að loka vinnustað vegna skorts á lagaákvæðum. Það er því nauðsynlegt, til þess að vinnustaðurinn verði sómasamlegur og fullnægi lágmarkskröfum um framleiðslu matvæla t. d., að hægt sé, ef mjög fer úrskeiðis um útbúnað hans frá heilbrigðis- eða hreinlætissjónarmiði og áreiðanlega í þágu íslenzks atvinnulífs og atvinnurekenda ekki síður heldur en fólksins sjálfs, sem við þetta verður að búa, að loka honum, ef ekki fæst úr bætt af hendi atvinnurekenda eða það látið dragast.

Því miður verður að segja það, að margir vinnustaðir á Íslandi eru algerlega óviðunandi, einkanlega í sambandi við matvælaframleiðsluna, og við verðum nú vör við það, að aðrar þjóðir, sem eiga við okkur viðskipti á því sviði, telja, að hér sé mjög margt fyrir neðan lágmarkskröfur og óviðunandi.

Þessi kafli er ekki langur, hann er eingöngu 1. gr. frv., en í honum felast strax mjög þýðingarmikil atriði fyrir verkafólkið, fyrir atvinnurekendur og fyrir framleiðslustarfsemina í landinu.

II. kaflinn er um vinnutíma og vinnutilhögun. Ég skal ekki fara ítarlega út í efni hans að öðru leyti en því, að það eru engin ákvæði í lögum um vinnutíma á Íslandi, aðeins þær venjur, sem skapazt hafa í samskiptum atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, og samningsákvæði hafa ákveðið lengd vinnudagsins og kveðið á um vinnutilhögun að öðru leyti. II. kaflinn fjallar um þetta. Hér er því slegið föstu í 8. gr., að almennur dagvinnutími starfsmanna megi ekki vera lengri en 8 stundir á sólarhring og vinnuviku sé lokið eftir 40 vinnustundir. Ég hygg, að menn verði nú að játa það, að það sé nokkuð sjálfsagt, að slíkt lagaákvæði komi til varðandi vinnutíma verkafólks, þegar ríkisvaldið hefur nú fyrir nokkrum vikum gengið frá samningum, víðtækum samningum við aðrar launastéttir um 40 stunda vinnuviku. Þætti mér þá óeðlilegt, að ríkisvaldið gerði upp á milli erfiðismannastéttarinnar og þeirrar stéttar, sem hún hefur samið um þetta við, að 40 stunda vinnuvika skuli vera hið almenna mark um vinnutímann. Þó eru hér í 10. og 11. gr. ákvæði, sem ganga lengra, þ. e. að undir sérstökum skilyrðum skuli vinnuvikan vera styttri. Þar segir: „Við vinnu, sem unnin er að nóttu til og á sunnu- og helgidögum, skal hin almenna vinnuvika ekki vera lengri en 36 stundir: Og enn fremur má vinnuvika ekki vera lengri en 36 stundir, ef unnið er samfellt í námu eða jarðgöngum. Það er nú ekki mikið um slíka vinnu hér á landi, en þó höfum við þar stigið byrjunarskref, og hygg ég, að það geti varla valdið ágreiningi, að við slíka vinnu er sanngjarnt og rétt, að vinnuvikan væri nokkru styttri heldur en við almenna útivinnu t. d. Þetta er meginefni II. kaflans, en í honum eru þó nokkur önnur ákvæði um vinnutilhögun og vinnutíma, um yfirvinnu og nætur- og helgidagavinnu, sem eru ekki nýmæli, þegar maður hefur kjarasamninga atvinnurekenda og verkalýðssamtaka í huga.

Þá eru í III. kaflanum sérstök ákvæði um vinnu kvenna og fæðingarorlof þeim til handa, og er þar um réttindi að ræða til kvenna á hinum almenna vinnumarkaði, að þar yrðu þeim helguð sams konar réttindi eins og hið opinbera hefur viðurkennt í mörgum sínum samningum við aðrar stéttir, þ. e. að konur eigi rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi vegna barnsburðar og geti ráðið því, hvort fæðingarorlofið sé tekið að mestum hluta eða öllum fyrir eða eftir barnsburð. Í þessum kafla eru ákvæði um það að auka öryggi konunnar á vinnumarkaðinum, að henni sé ekki sagt upp störfum vegna þessa samfélagslega hlutverks hennar, sem hún má á engan hátt gjalda. E. t. v. væri eðlilegra, að tryggingarákvæði tryggðu konum jafnrétti við karlmenn að því er þetta snertir, svo að byrðin af þessu þjóðfélagshlutverki konunnar lenti ekki eingöngu á þeim atvinnurekendum, sem hefðu konur í þjónustu sinni. Ég játa, að það kæmi jafnar niður þannig, en konunni þarf að veita öryggi af þessu tilefni, það hljótum við að verða sammála um.

Þá er IV. kafli frv. Í honum felast nokkur sérstök ákvæði um vinnuvernd barna og unglinga. Ég játa það hreinskilnislega, að ég er ekki í hópi þeirra manna, sem vilja, að börn og unglingar komi ekki nálægt athafnalífi þjóðarinnar. Ég vil, að þau taki þátt í athafna- og atvinnulífi þjóðarinnar eins og litlir kraftar þeirra og þol orka, en ég álít, að á þjóðfélaginu hvíli mikil og þung skylda um það, að unglingum sé ekki stofnað í háska í störfum né þoli þeirra og þroska ofboðið. Og til þess að tryggja þetta hafa allar þjóðir hjá sér mismunandi ströng lagaákvæði, bæði um það, hver vinnutími barna á ýmsum aldri megi vera og við hvaða störf þau megi ekki vinna, og er hér áreiðanlega ekki um strangari ákvæði að ræða heldur en hjá flestum öðrum menningarþjóðum tíðkast. Það eru nokkur bönn í þessari grein, t. d. þetta, að börn megi ekki ráða til innivinnu í vinnustofum, verkstæðum eða verksmiðjum og ekki heldur ráða þau til vinnu við út- eða uppskipun á vörum, vegna þess að þetta samrýmist ekki þroska smárra barna, en börn eru þau, sem eru yngri en 14 ára að aldri samkv. þessu frv. Unglingar mega ekki annast gæzlu gufukatla eða véla né aðra vinnu, sem útheimtir sérstaka varúð eða aðgæzlu, sem ekki er hægt að reikna með, að börn hafi til að bera. Þá segir almennt, að börn og unglinga megi ekki ráða til neinnar þeirrar vinnu, sem að dómi skólayfirlæknis eða héraðslæknis sé á nokkurn hátt hættuleg heilsu þeirra eða þroska. Hámarksvinnutími unglinga skal vera 7 klukkustundir á dag, en hámarksvinnutími barna frá 4–7 stundir á dag. Sé vinnutími t. d. 10 stundir á vinnustað, þá er ætlunin — og það hygg ég, að sé líka framkvæmanlegast fyrir atvinnureksturinn sjálfan, — að það verði tveir vinnuhópar barna, sem gegni starfi til móts við einn hóp fullorðins fólks. Ég hygg, að í framkvæmdinni væri þetta einna bezt. En börnin kynntust starfi og fengju að taka þátt í framleiðslustörfum þjóðarinnar miðað við sína getu og sitt líkamsþol og þau verði þannig samhæfð þjóðarþörfinni um nýtingu vinnuafls og hafa áreiðanlega af slíkri þátttöku í hvers konar störfum aukinn þroska, jafnvel meiri þroska sum þeirra heldur en þótt þau væru knúin til þess gegn vilja sínum og getu að sitja á skólabekk. Um þessi ákvæði í frv. má vitanlega deila og menn geta haft mjög mismunandi skoðanir á því, hvort við eigum að hafa meira eða minna ströng lagaákvæði um vinnu barna, en hjá því held ég að verði ekki komizt, að við gjöldum varhuga við því, að hægt sé að ofþjaka börnum með vinnu eða skipa þeim þar til starfs, sem væri þeim um megn eða háski fyrir þau eða aðra kynni að stafa af.

Þá eru ákvæði um greiðslu vinnulauna og vildi ég vænta þess, að þar lægi allt ljósara fyrir um skyldu atvinnurekenda gagnvart vinnulaunagreiðslum og tilhögun á þeim, og það held ég að sé bezt hvorum tveggja aðilanum, að ekkert fari á milli mála, hvernig eigi að haga slíku starfi og hvaða rétt verkafólk eigi gagnvart atvinnurekendum sínum og hvaða skyldur hvíli á atvinnurekanda varðandi launagreiðslur. Þetta held ég sé nokkurn veginn allt saman skýrt og fastmælum bundið, ef 24., 25. og 26. gr. fengju lögfestingu. En hins vegar held ég, að atvinnurekendum væri á engan hátt íþyngt með því, að þessi lagaákvæði væru í gildi og þeir ættu eftir þeim að fara.

VI. kaflinn um uppsagnarfrestina tekur af margvísleg vafaatriði og segir skýrt fyrir um, hvaða skyldur hvíli á fólkinu um að hverfa ekki frá störfum án þess að gera atvinnurekendum sínum aðvart um það með sama fyrirvara og fólkið sjálft áskilur sér að hafa, ef atvinnurekandi ætlar að segja því upp störfum, og er það vitanlega alveg sjálfsagður hlutur, að um gagnkvæm réttindi og gagnkvæmar skyldur sé að ræða. En um þetta er fátt í íslenzkum lögum, og mörg af þeim ágreiningsmálum, sem risið hafa fyrir félagsdómi, hafa einmitt verið í sambandi við óljós ákvæði um uppsagnir frá störfum. Eðlilegt er, eins og fram kemur hér í 28. gr., að þeir, sem lengi eru búnir að þjóna sama atvinnurekanda, eigi fyllri rétt til þess að vera ekki varpað út á kaldan klaka, e. t. v. atvinnuleysis, með skammri samningsuppsögn, uppsögn úr starfi, og er þarna um mismunandi langa fresti að ræða samkv. 28. gr., lengstan handa þeim, sem lengi hafa verið í þjónustu eins og sama atvinnufyrirtækis.

VII. kaflinn er svo um refsiákvæði eða viðurlög við brotum á frv. og hygg ég, að þar sé ekki um strangari ákvæði að ræða en venjur eru til, heldur á hinn bóginn frekar, að þau séu öll eðlileg og frekar væg. Um gildistökuna er svo VIII. kaflinn, að lög þessi öðlist þegar gildi, og eru þá öll eldri lagaákvæði, sem brjóta í bág við ákvæði þessara laga og veita starfsmanni naumari rétt, jafnframt úr gildi fallin. Venjan er nú að vísu sú, að síðustu lagaákvæði, ef þau grípa inn á sama svið og önnur lagaákvæði, sem fyrir eru, þá skuli hin nýrri lagaákvæði gilda, en þó þótti flm. rétt að taka þetta fram, að eldri lagaákvæði, sem gengju skemmra, væru úr gildi felld við gildistöku þessara laga.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um frv. Ég hef margskýrt efni þess áður, en við flm. teljum, að á Alþ. hvíli nokkur skylda að sinna þessu máli og framfylgja því. Bæði er þörfin rík og liggur í augum uppi, og enn fremur er það skjalfest í samkomulagi, ég hygg milli atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, ég held, að það hafi verið árið 1965, þá var því lofað af hæstv. ríkisstj., að vinnuverndarlöggjöf skyldi sett. En það hefur dregizt fram til þessa. Ég harma það, að þessi dráttur hefur á því orðið og vil vænta þess, að úr þeim vanefndum verði bætt með því að samþykkja nú á þessu þingi þetta frv. Þessi vinnuverndarlöggjöf, sem hér eru lögð drög að, gengur á allan hátt skemmra en gildandi vinnuverndarlöggjöf Dana og Norðmanna, okkar nánustu frændþjóða, en ég hef borið þetta frv. saman við þá löggjöf og sniðið hana að nokkru leyti eftir því, sem vinnuverndarlöggjöf Dana var árið 1963, en síðan hafa á henni orðið endurbætur. Báðar þessar þjóðir hafa haft vinnuverndarlöggjöf í gildi um áratugi og þykir einhver gagnlegasta og nauðsynlegasta löggjöf, til að allt sé skýrum dráttum dregið, hvaða rétt og hvaða skyldur verkafólk eigi og atvinnurekendur í samskiptum milli þessara aðila. Og það er áreiðanlega til bóta og mundi kveða niður margvísleg ágreiningsatriði, sem ella kynnu að skjóta upp kolli og verða aldrei til þess að bæta samkomulag á vinnumarkaðinum, heldur þvert á móti. Deiluatriðum mörgum er hægt að komast hjá með skýrum lagaákvæðum um þessi þýðingarmiklu samskipti í þjóðfélaginu.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði, þegar umr. lýkur, vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.