28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2998)

154. mál, verkfræðiráðunautar ríkisins

Flm. (Ágúst Þorvaldsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir á þskj. 192, er flutt af okkur 6 þm. Eru það auk mín þeir 1. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson, 5. þm. Norðurl. v., Jón Kjartansson, 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, og 3. þm. Vesturl., Halldór E. Sigurðsson.

Meginstofninn í þessu frv. er verk mþn., sem starfaði á árunum 1959 og 1960 og var kölluð staðsetningarnefnd ríkisstofnana. Í þeirri n. áttu sæti þeir Gísli Guðmundsson alþm., sem var formaður n., Ásgrímur Hartmannsson, bæjarstjóri á Ólafsfirði, Gunnlaugur Jónsson, bankaritari á Seyðisfirði, Jónas Guðmundsson, þáv. formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Jóhann Gunnar Ólafsson, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði, og síðar í forföllum hans Sturla Jónsson, hreppstjóri á Suðureyri. Einnig átti ég sæti í n. af hálfu Sunnlendinga. N. samdi frv. um verkfræðiráðunauta ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi og sendi það síðan ríkisstj. Þegar séð var, að ríkisstj. hafði ekki áhuga fyrir því að flytja málið, þá tókum við Gísli Guðmundsson málið upp og fluttum það hér á þremur þingum hverju eftir annað, ef ég man rétt, enda vorum við úr hópi þeirra manna, sem samið höfðu þetta frv. Eins og allir vita, hefur farið svo hér á landi, að allar helztu ríkisstofnanir hafa dregizt saman hér í höfuðborginni. Auðvitað er eðlilegt, að margar þeirra séu hér. En ekki er það nauðsynlegt með þær allar og sumar þeirra gætu haft og ættu að hafa útibú til og frá um landið líkt og bankarnir hafa nú, sem er bæði til þæginda fyrir þá, sem í strjálbýlinu búa, og til þess að efla byggðarlög þeirra og auka á vissan hátt sjálfstæði þeirra gagnvart ríki og höfuðborg. Víða í öðrum löndum hafa menn komið auga á þá hættu, sem í því er fólgin fyrir vissa landshluta og þjóðfélagið í heild, ef allt vald og sérfræðiþjónusta dregst saman á einn eða fáa staði. Því er nú víða unnið að því í öðrum löndum að flytja út í byggðirnar ýmsar stofnanir, sem þar geta alveg eins vel eða betur sinnt sínu hlutverki í þjónustu þjóðfélagsins eins og í höfuðborgunum. Er það þáttur í að stöðva fólksflóttann frá strjálbýli til þéttbýlli svæða, borga og bæja. Þetta er svo kunnugt, að ég eyði ekki tíma í að tala frekar um það núna.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að koma upp úti á landsbyggðinni sérfræðiþjónustu, sem þar verður að sinna, svo sem við byggingu vega og hafna, skóla, sjúkrahúsa og raunar hvers konar mannvirkja, sem ríki og sveitarfélög eiga að hafa forgöngu um. Í frv. er lagt til, að stofnuð verði 6 sérstök umdæmi fyrir verkfræðiráðunauta og til þessara starfa valdir menn með próf í verkfræði, sem Verkfræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgilt próf í byggingarverkfræði, og þeir gangi fyrir um að fá þessar stöður, sem hafa sérþekkingu t. d. í hafnargerð og vegagerð. Þessum verkfræðiráðunautum er samkv. ákvæðum í frv. ætlað að starfa undir, yfirumsjón vegamálastjóra og vita- og hafnamálastjóra. Það er einnig svo ráð fyrir gert, að sýslunefndir, bæjarstjórnir og sveitarstjórnir geti fengið hjá verkfræðiráðunautunum þá þjónustu, er þau kunna að óska eftir og tækju þá þátt í kostnaði, sem af því starfi þeirra leiðir. Samgrh. á samkv. frv. að ráða verkfræðiráðunautana og setja þeim erindisbréf og gefa út reglugerð, þar sem tiltekin eru viss atriði, sem varða þessi störf. Eru ákvæði um þetta í 6. gr. frv.

Samkv. frv. eiga þessir verkfræðiráðunautar að vera sex. Skal einn þeirra vera í Vesturlandsumdæmi með aðsetur í Borgarnesi, annar á Vestfjörðum og sitja á Ísafirði, hinn þriðji á Sauðárkróki fyrir Norðurland v., hinn fjórði á Akureyri fyrir Norðurland e., hinn fimmti á Egilsstöðum við Lagarfljót fyrir Austurland og hinn sjötti á Selfossi fyrir Suðurland.

Gera má ráð fyrir, að einhver kostnaðarauki verði af þessari breytingu, en þótt svo verði, álíta flm., að ekki megi einblína á slíkt, þegar um er að ræða það aukna hagræði, sem gera má ráð fyrir til handa íbúum hinna dreifðu byggðarlaga, ef af þessari breytingu yrði. Aukin hagsæld mun áreiðanlega leiða af hvers konar sérfræðiþjónustu, sem íbúar strjálbýlisins í sveitum og þorpum og byggðahverfum fá til sín og geta átt aðgang að. Þetta mál er einn af mörgum þáttum, sem sinna þarf af hálfu þings og stjórnarvalda til þess að efla velmegun og jöfnuð þegnanna í landinu og sem getur átt þátt í því, að okkar áliti, flm., að stöðva hinn mikla straum til höfuðborgarinnar og nálægra byggðarlaga. Ég tel, að eins og þeim, sem enn dvelja í strjálbýlinu, hlýtur að vera það mikið áhugamál, að byggðarlög þeirra fari ekki í eyði, heldur blómgist og fólk stöðvist þar, þá tel ég einnig, að íbúum höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins hljóti að vera það áhyggjuefni hversu margir leita þangað, því að þar eru ekki óþrjótandi lindir auðs og atvinnu. Landið allt með skilyrðum hvers byggðarlags til lands og sjávar verður að leggja þjóðinni allri til lífsbjörgina. Þar verður höfuðborgin einnig að njóta af, en því aðeins getur hún þrifizt, að landið allt sé byggt og nytjað með nútímaaðferðum. Því eru hagsmunir strjálbýlisins mál þjóðarinnar allrar, einnig þeirra, sem í höfuðborginni búa. Ég veit, að á þessu er nú vaxandi skilningur hjá öllum hugsandi mönnum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða tíma Alþ. í það að flytja lengri framsöguræðu fyrir þessu frv. Ég vil leyfa mér að óska þess, að þegar þessari umr. er lokið, verði málinu vísað til athugunar í allshn.