03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

169. mál, uppeldisstyrkur búfjár vegna kals í túnum

Jónas Pétursson:

Herra forseti. „Misvitur er Njáll,“ var einu sinni sagt. Einhvern veginn datt mér þessi setning í hug,þegar ég las þetta frv. Ekki vegna þess, að það hreyfi ekki við máli, sem vissulega þarf að skoða, heldur vegna þess, að mér finnst að sú leið, sem þarna er valin til þess að ráða bót á þessu, skjóti nokkuð skökku við. En ég kom hingað í ræðustólinn aðeins til þess að segja frá því, að ég hef líka verið að velta fyrir mér þessu vandamáli, sem sannarlega er mikið. Það eru áföllin, sem ýmsir bændur, oft ár eftir ár, hafa orðið fyrir vegna gróðurdauðans í túnunum.

Á s. l. sumri var það m. a., að bóndi vék sér að mér og sagði: „Hvað eigum við að gera fyrir þá bændur, sem enn þá búa við kalið og grasleysið — eða algeran dauða á miklum hluta túnanna? Það er e. t. v. hægt að útvega þeim hey til kaups, en það er þýðingarlaust, þegar þeir geta ekki borgað lengur, — þeir, sem eru búnir að búa við þetta í mörg ár.“ Út af þessu fór ég að hugleiða það, að eina leiðin, sem mundi verða fær í þessu, væri byggð á sama grundvelli og t. d. brunatryggingar hafa verið byggðar upp. Það vita allir, að það er til skyldutrygging gegn bruna, en það, sem ég á fyrst og fremst við, er það, að þeir, sem brennur hjá, þeir fá bætt án þess að þurfa að greiða fyrir bæturnar. Þeir greiða iðgjald og það tryggir þeim réttinn til bótanna. Í þessu formi, sem er í raun og veru það eina, sem til greina getur komið að geti komið að viðhlítandi notum, þyrfti tryggingin að vera. Og út af þessu fór ég að hugleiða heyjatryggingar, svæðisbundnar heyjatryggingar, þar sem meiri hluti bændanna á viðkomandi svæði ákvæði það, hvort þeir vildu taka upp þessar tryggingar. Ég tók það ráð að semja frv. um þetta, en í staðinn fyrir að leggja það fram hér á Alþ. strax, sendi ég Búnaðarþingi því, sem nú situr, málið til athugunar, og ég verð að segja það alveg ákveðið, að það er þessi leið, sem mér finnst að hljóti að verða farin, ef við ætlum að taka beint á þessu vandamáli, sem er skorturinn á heyskap. Það er skorturinn á heyskap, — og við eigum að reyna að ráða fram úr honum einmitt með heytryggingum, tryggingum, sem væru með svipuðum hætti og brunatryggingarnar, þannig að menn greiði iðgjald. Og ég hafði hugsað mér, að það yrði greitt í heyi, — að mestu leyti a. m. k. — til þess að tryggja, af því að það er ekkert nema hey, sem kemur að gagni í þessum efnum. Og þá yrðu bæturnar endurgjaldslausar, þar sem tjónið hefði orðið fram yfir eitthvert ákveðið mark, sem miðað yrði við. Ég hef hugsað, að þetta væru svæðisbundnar tryggingar, vegna þess að mér er það alveg ljóst, að það er mjög nauðsynlegt, að þarna njóti við allmikils kunnugleika. Það hefur nú stundum verið talað um siðleysi kunningsskaparins og það kann að vera rétt í sumum tilfellum, en kunningsskap fylgja líka viss siðalög og í þessum efnum álít ég, að þau séu nauðsynleg og æskileg, þannig að svæðin séu yfirleitt ekki stærri en það, að þeir,, sem þarna búa, hafi kunnugleika nokkurn hver af annars högum. Annars yrði þetta að verulegu leyti undir stjórn búnaðarsambandanna, og svo ætlast ég til, að Bjargráðasjóður komi til með að aðstoða og auka þessar tryggingar.

Mér er það ljóst, að þegar kal og gróðurdauði kemur á sömu byggðir ár eftir ár, þá muni þetta ekki hrökkva til, en þá verða líka önnur ráð að koma til. Ég vil leggja talsverða áherzlu á eitt atriði í sambandi við þetta form, að bændurnir greiði sjálfir sitt iðgjald, sem yrði þá miðað við heyfeng hjá hverjum. Með því tel ég, að komizt yrði fram hjá því, sem er nokkur hætta á t. d. með sífelldum lánum Bjargráðasjóðs, — sem enda oft á þann veg, að það verður að gefa þau eftir — og það er særður metnaður hjá þeim bændum, oft og tíðum, er fyrir þessu verða. Ég held, að metnaður bændastéttarinnar sé það, sem við þurfum hvað mest að halda í, og við vitum það, að slík samfélagsstarfsemi eins og tryggingar, eins og t. d. brunatryggingar, brjóta engan metnað. Þar hafa allir jafnan rétt, leggja allir jafnt af mörkum, ef svo má segja, og það er þessi grundvallarhugsun, sem mér finnst, að við þurfum að byggja þessar öryggisráðstafanir á.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram við umr. um þetta mál, enda þótt þetta komi til n., sem ég starfa í, — væntanlega — og láta þess getið, að ég kaus nú að láta mitt mál ganga til Búnaðarþings og til yfirlits bændasamtakanna áður en það kæmi fyrir Alþingi. Ef það verður dæmt ónothæft og ekki þess virði, að komi til kasta Alþ., þá það, en samt sem áður er það mín hugsun, að í því felist mikilvæg búbót.