03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

169. mál, uppeldisstyrkur búfjár vegna kals í túnum

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Hv. 3. þm. Austf. (JP) hóf mál sitt með því að segja, að misvitur væri Njáll. Ég er ákaflega hræddur um, að sumir af búnaðarþingsfulltrúunum, sem fengju hans mál til meðferðar, hafi kannske hugsað eitthvað á þá leið, að misvitur væri Njáll. En annað var eftirtektarverðara hjá þm., að hann reyndi ekki að finna orðum sínum stað og útskýra, við hvað hann ætti. Hann ræddi ekkert um frumvarpsgreinarnar eða hvað það væri, sem hann átti við í þessu sambandi. Hann ræddi um allt annað, þannig að það er ekki hægt að taka mikið mark á þessu, sem þm. sagði, og ég hefði nú eiginlega vænzt þess, að hann endi ekki hér að þessu sinni á þingi með því að reyna að bregða fæti fyrir þetta mál, því að mér er a. m. k. ljóst, að stór hluti af bændastéttinni hefur einmitt fylgzt með þessu máli og telur, að þeir eigi dálitla von í áframhaldandi búskap, ef þetta verður að lögum, og það mun vera bæði í því kjördæmi, sem hann er fulltrúi fyrir, og víðar á þessum svæðum, sem verst hafa orðið úti á undanförnum árum.

Ég tel, að það særi ekkert metnað bændanna frekar en annarra stétta, þó að ríkið hlaupi undir bagga við svona áföll. Ég hef ekki minnzt á það áður hér í umr., en þetta hefur komið fyrir alveg eins í sambandi við útvegsbændur. Þegar t. d. þurrafúinn kom upp, þá var ekki talað um það, að þeirra metnaður væri særður, þó að ríkið hlypi þar undir bagga, enda er þetta sjálfsagt mál, og það á að eyða þessum gamla hugsunarhætti, að það sé í raun og veru verið að særa metnað manna, þó að það opinbera hlaupi undir bagga, þegar þeir verða fyrir stóráföllum í sínum rekstri. Og er ekki meira særður metnaður bændanna, ef þeir, sem eru búnir að vinna í mörg ár á jörðum sínum og berjast þar harðri baráttu, ef þeir verða svo að bregða búi, vegna þess að stjórnarvöld sína ekki skilning á þeirra vandamálum, þegar þeir verða fyrir svona áföllum ár eftir ár? Er ekki með þessu móti verið að særa meira þeirra metnað heldur en þó að þeir fengju einhverja aðstoð til þess að koma bústofninum aftur upp, ef þeir verða fyrir því að þurfa að skerða hann að einhverju marki? Ég mun ekki bregða fæti fyrir neitt frv., hvort sem það kemur frá hv. 3. þm. Austf. eða öðrum, ef ég held, að það verði til þess að draga úr þeim erfiðleikum, sem eru í þessum atvinnurekstri eða öðrum. Hitt er annað mál, að ég er á því, að þessi lausn, sem þm. var að minnast á í sambandi við heytryggingar, — á þann hátt, sem hann hugsar sér, — leysi engan vanda. Það er áreiðanlega allt of smátt í sniðum til þess að það leysi þann vanda, sem þarna er við að etja.