03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

169. mál, uppeldisstyrkur búfjár vegna kals í túnum

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætlaði raunar ekki að taka til máls í þessu máli, en af því að nafn mitt dróst inn í umr., þá finnst mér, að ég þurfi að segja fáein orð.

Tveir hv. þm., hv. 3. þm. Austf. og hv. 2. þm. Sunnl., véku hér að einu atriði, sem ég tel, að sé afskaplega stórt í okkar augum, sem teljum okkur til hinna dreifðu byggða, og það er það, að metnaður bændastéttarinnar geti haldizt eins og verið hefur og gott, ef hann gæti aukizt heldur en hitt. Eitt af því, sem jafnan hefur sært minn metnað fyrir hönd bændastéttarinnar, eru alls konar tillögur og frv. og kröfur um styrki í öllum mögulegum efnum. Smástyrkjamjatl til bænda er til þess fallið að særa eða a. m. k. að draga úr metnaði þeirra, þegar til lengdar lætur, og ég er hjartanlega sammála þessum hv. þm., sem ég minntist á, að það er metnaður bændanna, sem þeir verða að halda í í lengstu lög, metnaður fyrir sína hönd.

En varðandi ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég segja, að honum hættir svo mjög til í svo til hverri ræðu, sem hann flytur hér í þessari hv. d., að skammast eitthvað út í hæstv. landbrh., að ég held, að orð hans á því sviði séu frekar tekin að sljóvgast. Það er að vísu sagt, að endurtekning vinni á, en það er líka hægt að ofnota endurtekninguna þannig, að orð manna, sem stagast sífellt á því sama, verði ekki til eins mikils framdráttar þeim kenningum, sem verið er að flytja, og ella hefði orðið. Hann vitnaði hér í ræðu, sem ég flutti í þessari deild núna ekki alls fyrir löngu, þar sem ég vakti athygli á því, hversu illa margir bændur á Norðurlandi eystra, Austurlandi og hér og þar um Norðurland, Norðvesturland og allt Vesturland, — sérstaklega í þessum landshlutum, sem eru meiri hluti, a. m. k. yfirborðsins á landsbyggðinni — hefðu orðið úti af kali í túnum, sem búið er að gera meira og minna vart við sig í sumum þessum landshlutum a. m. k. í áratug. Út af þessu vildi hann draga þá ályktun, að ég hefði verið að ráðast á stefnuna í landbúnaðarmálum, sem hæstv. landbrh. hefur að mestu leyti mótað nú um áratug. Þetta var misskilningur hjá hv. þm., því að ég lít svo á, að stefnan í landbúnaðarmálum s. l. 10 ár hafi verið þannig, að stefnt hafi verið að því, að bændurnir kæmu sem bezt fótum fyrir sig, stoðum undir sinn atvinnurekstur, til þess að þeir þyrftu sem minnst að vera háðir árferði og áföllum og um leið ná viðunandi tekjum af búum sínum. Og ég þykist þekkja svo mikið til landbúnaðarstarfa og kringumstæðna bænda, ekki aðeins í mínu byggðarlagi, heldur og um allt land, að ef bara venjulegt meðal-árferði hefði verið nú hin síðustu ár, þá hefði þessi stefna í landbúnaði verið það jákvæð, að mér er nær að halda, að í meðalárferði hefði bændastéttin aldrei staðið eins vel að vígi eins og hún gerir í þeim byggðarlögum, þar sem ekki hefur orðið mikið um áföll, en árferðið hefur orsakað mikil vandræði hjá sumum bændum. Þessi hv. þm. var eitthvað að bera saman ræðu, sem hv. 9. landsk. þm. hefði flutt hér í fyrra, og það, sem ég hefði sagt hér um daginn, og taldi, að við hefðum verið sammála um það, að landbúnaðarstefnan hefði verið slæm. Ég vil algjörlega neita því fyrir mína hönd, að ég hafi talið, að svo hafi verið. Og ég ætla, að skoðanir okkar hv. 9. landsk. séu sízt af öllu hinar sömu að því er snertir landbúnaðarstefnu ríkisstj., sem hefur haft völd hér um 10 ára bil. A. m. k. er svo að heyra á Alþýðublaðinu, og það nokkuð oft, að sú stefna hafi verið meira en lítið varhugaverð.

Ég vil aftur koma að því, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan og það er það, sem hann sagði um grænfóðurræktunina út af þeim miklu vandræðum, sem íslenzk bændastétt er stödd í í sumum landshlutum, — ég tek það hreinlega fram, að ég geri þar mikinn mun á eftir landshlutum, — að það er langhelzta bráðabirgðaúrræði, að veruleg grænfóðurræktun takist, og ég veit, að margir bændur hafa hreinlega haldið sér uppi á því að rækta verulega mikið grænfóður þessi seinni ár, þegar kalið hefur herjað á. Þess vegna held ég, að það eigi að stuðla sem allra bezt að því, að þeir geti notfært sér þennan möguleika og það verður gert aðeins með því að vinna land og sá í það og auka möguleika til þess að nota grænfóðrið. Það er langt síðan ég kom auga á, að þetta er langskásta úrræðið, sem enn hefur fundizt, og þá er þar bæði um hafra að gera og einnig bygg. Það mun vera rétt hjá honum, að bygg spíri fljótar og það sé fljótlegra að koma því í gagnið. Hins vegar eru hafrarnir taldir heldur betra fóður. Hv. 5. þm. Norðurl. e. las langan lista um frv., sem framsóknarmenn hefðu flutt hér á þingi til þess á ýmsa lund að reyna að létta undir með bændum, og ég er ekki að lasta það. Og þessum hv. þm. hefur einnig þótt ég sem formaður landbn. vera heldur seinn til að taka afstöðu til sumra mála, sem fram hafa komið, og það er í fyrsta lagi fyrir það, að ég hef lagt mikla áherzlu á, að fram kæmi á þessu þingi frv. það, sem nú var lagt fram í gær eða fyrradag um breyting á stofnlánadeildinni og landnáminu. Ég vildi sjá, hvað kæmi út úr þeim till., sem kæmu þar fram, því að ég vænti þess, að þær mundu verða til einhverra bóta í sambandi við þá miklu örðugleika, sem sumir bændur eiga í vegna grasleysis, sem ég held, eins og ég sagði áðan, að helzt verði ráðin bót á í bili með grænfóðurrækt. Nú er þetta frv. komið fram, en ég hef ekki haft tíma til að skoða það. Ég mun sem formaður landbn. leggja mikla áherzlu á, að það fái afgreiðslu, að skoðun þess og athugun í n. verði hraðað eins og mögulegt er og ég fyrir mitt leyti mun leggja áherzlu á, að það nái fram að ganga, ef mér sýnist frv. vera þannig, að að því sé verulegur vinningur.

Ég læt svo þetta nægja. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara neitt að skattyrðast út af einhverjum oftöluðum orðum, ég hef enga minnstu löngun til þess. Við erum hér að tala um mál, sem er mikið alvörumál fyrir bændastéttina í heild, og ég vil taka það aftur fram, að ég hefði ekki verið kvíðinn fyrir bændastéttinni nú, ef við bara byggjum við venjulegt meðalárferði og hefðum ekki orðið fyrir þessari stórkostlegu skemmd á ræktaða landinu, sem mætti margt fleira um segja, en það er mál út af fyrir sig, mikið vandamál, hvernig sem á það er litið.