03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (3050)

169. mál, uppeldisstyrkur búfjár vegna kals í túnum

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er sú, að inn í þessar umr. var blandað orðum höfðum eftir mér, sem ég lét falla í sambandi við mál, sem ekki kom neitt við því, sem þau voru látin eiga við hér áðan. En á sínum tíma, 1968-1969, lá hér fyrir Alþ. frv. til l., flutt af mér, sem ég kallaði hagtryggingu, frv. til l. um hagtryggingarsjóð landbúnaðarins. Þar var hreyft þeirri hugmynd, að bændur eða landbúnaðurinn sjálfur ætti að byggja upp eins konar tryggingarkerfi til þess að mæta ýmsum áföllum eins og t. d. þeim, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Þessari hugmynd var lítt tekið, ef ég man rétt, af ýmsum alþm., og t. d. flutti hv. 5. þm. Norðurl. e. allhvassyrta ræðu gegn þessu frv. En orð mín, sem hann vitnaði í áðan, voru einmitt um það, að það skorti yfirstjórn í þessum málum, tryggingarmálum, hagtryggingarmálum landbúnaðarins. Þar var ég ekkert að víkja að hv. landbrh. þeim, sem þá sat og nú situr. Þetta vildi ég að kæmi fram, ekki sízt vegna þess, að hæstv. landbrh. er nú ekki við og mér þætti síður, að þeim orðum væri ómótmælt hér, sem látin voru falla um hann, höfð eftir mér, en snertu hann alls ekki á sínum tíma.

En fyrst ég er kominn hingað upp, þá þykir mér vænt um að geta bent á það, að einmitt ýmsir þeir ræðumenn, sem nú hafa talað, hv. 2. þm. Sunnl., 3. þm. Austf. og jafnvel 11. landsk. þm., létu í það skína, að þeir hefðu nokkuð svipaðar hugmyndir um þau mál, hagtryggingu landbúnaðarins, eins og ég var að hreyfa fyrir einu eða tveimur árum, og kannske á hugmyndin eftir að vinna sér land, þó að henni væri lítt tekið á sínum tíma.