14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

171. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Magnús Hjartarson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagðist skyldu muna eftir því, hvað ég hefði sagt um verðlag á sígarettum, ef hann vantaði peninga í kassann. Ég bar ekki fram till. mína til þess að hjálpa hæstv. ráðh., ef hann vantaði peninga í kassann, heldur þvert á móti. Ég benti hæstv. ráðh. á það, að það væri hægt að haga verðlagi á sígarettum þannig, að það drægi úr neyzlunni og það drægi jafnframt úr tekjum ríkissjóðs. Það er þar, sem reynir á þennan hæstv. ráðh., hvort hann er reiðubúinn til þess að beita áhrifum sínum til þess, að sígarettureykingar verði minni á Íslandi. Það reynir mjög mikið á þennan hæstv. ráðh., vegna þess að ég tel, að hann hafi í sínum höndum mjög mikilvæg völd hvað þetta snertir.

Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að hæstv. ráðh. skýrði frá því hér, og mér skilst, að hann hafi gert það áður, að frv., sem hann hafi flutt um bann gegn tóbaksauglýsingum í blöðum, hafi verið stöðvað af umhyggju fyrir blöðunum. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Ég veit ekki til þess, að a. m. k. það blað, sem ég vinn við, hafi beitt sér nokkurn skapaðan hlut gegn því frv. Mér hefur ekki dottið það í hug, m. a. vegna þess að mér kemur ekki til hugar, að þessi hæstv. ráðh. eða aðrir þm. ætlist til þess, að blöð, sem eru rekin með halla, taki á sig sérstakar byrðar í sambandi við þetta stórmál. Ef gerðar eru ráðstafanir til þess hér á Alþ. að draga úr tekjum slíkra blaða, þá hlýtur þar eitthvað að koma á móti. Þetta er vitanlega alveg sjálfsagt mál og eðlilegt og mér hefur ekki dottið annað í hug. Það kemur vissulega vel til álita að banna auglýsingar í blöðum, en þá skulu menn hyggja að því, að það þyrfti að banna æði margt fleira. Hér eru á hverju einasta heimili, hygg ég, erlend blöð, t. d. dönsk vikublöð, amerísk blöð, þýzk blöð, barmafull af auglýsingum um tóbak. Ef bannað væri einvörðungu að auglýsa í íslenzkum blöðum, þar sem ég hygg nú, að einna dauflegustu auglýsingarnar birtist, en ekki gerðar ráðstafanir gagnvart þessum erlendu aðilum, þá hugsa ég, að árangurinn yrði fjarskalega lítill hvað þetta snertir. En sem sagt, ég er ekki að segja þetta vegna þess, að ég sé að andmæla þessari hugmynd. Ég vil, að þarna haldist allt í hendur, sem hægt er að láta haldast í hendur. En sérstaklega tel ég, að þessi hæstv. ráðh. þurfi að beita aðstöðu sinni í stað þess að vera hér með ósannar getsakir í garð annarra.