01.03.1971
Neðri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (3071)

188. mál, loðdýrarækt

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þegar um það var rætt hér á þingi að leyfa minkaeldi á nýjan leik, þá voru látnar í ljós allmiklar efasemdir um, að það væri skynsamleg ráðstöfun. M. a. héldu ýmsir því fram, að hætta væri á því, að minkar tækju að losna úr búrum á nýjan leik og það gætu hlotizt af því nýjar hættur fyrir náttúru landsins, vegna þess að minkar úr búrum hegða sér öðruvísi en villiminkar gera, þegar þeir eru búnir að dveljast í landinu um alllangt skeið. Hins vegar héldu forsvarsmenn þessarar hugmyndar því fram af miklum þunga, að það yrði gengið svo tryggilega frá búrum, að engin hætta væri á því, að minkar gætu losnað. Því miður hefur nú reynslan þegar leitt í ljós, að þetta öryggi er ekki eins fullkomið og áhugamenn um minkarækt ímynduðu sér eða vildu vera láta. Það hefur nú þegar sloppið einn minkur, svo að vitað sé, og valdið allmiklum usla, áður en hann var felldur. Og eftir að þessi atburður gerðist, var hafin lögreglurannsókn, æði umfangsmikil og kostnaðarsöm, en það tókst ekki að sanna, hvaðan minkurinn hefði sloppið, vegna þess að þessi dýr eru á engan hátt merkt eigendum sínum. Ég held, að það væri sjálfsögð ráðstöfun að mæla svo fyrir í lögum, að það verði að merkja þessi dýr. Í því er ekki aðeins fólgið það öryggi, að þá geta þeir menn, sem kunna að verða fyrir tjóni af völdum minka, sem sleppa úr búrum, þá geta þeir gert kröfur til eigendanna, heldur væri einnig í þessu fólgið mikið aðhald. Það er nauðsynlegt, að hægt sé að sanna það með skýrum rökum, hvaðan minkar sleppa, ef til þess kemur oftar. Og þess vegna held ég, að þessi litla tillaga, sem ég flyt hér á þskj. 310, sé sjálfsögð ráðstöfun. Ég er ekki svo sérfróður, að ég geti komið með tillögu um það, hvernig haga eigi slíku marki á minkum, en samt segja fróðir menn mér, að það muni vera auðvelt að koma því við á fleiri en einn hátt. En um það munu fróðari menn en ég vafalaust leggja á ráðin, ef Alþ. fellst á, að þessi skipan verði upp tekin.

Við skulum gera okkur það ljóst, að hættan á því, að minkar sleppi, er að sjálfsögðu langsamlega minnst í upphafi. Þegar þessi búrekstur er hafinn á nýjan leik, þá er unnið að því máli af miklum áhuga og miklu kappi og hættan á, að eftirlitið minnki mun aukast eftir því sem tímar líða, og sérstaklega mun þessi verða raunin, ef í ljós kynni að koma á einhverjum tímabilum, að minkaeldi verður ekki eins arðvænlegt og menn gera sér vonir um nú. Ef það gerist, að menn hafi ekki arð af þessu, heldur jafnvel tap, þá er ósköp hætt við því, að eftirlitið minnki að sama skapi. Og einmitt þess vegna held ég, að það sé skynsamlegt, að Alþ. mæli svo fyrir nú þegar, að hægt sé að þekkja dýr og rekja dýr, sem sleppa, til eigenda sinna. Um það fjallar þetta litla frv., og ég vil leggja til, að að umr. lokinni verði því vísað til 2. umr. og hv. landbn.