01.03.1971
Neðri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (3072)

188. mál, loðdýrarækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil styðja þetta frv., ef unnt er að framkvæma lög í þessa átt. En mér þykir ástæða til, um leið og þetta frv. er til umr., að geta um það, að þegar stjórnskipuð n. samdi reglugerð við þessi lög, þá kom það til umr., hvort ekki væri unnt að merkja dýrin. Yfirdýralæknir og veiðistjóri voru í þessari n. og þeir höfðu kynnt sér erlendis merkingar á minkum og þar var talið miklum vandkvæðum bundið að merkja dýrin og því fylgdi talsverður kostnaður. Eigi að síður tel ég sjálfsagt, að þetta verði athugað til hlítar, því að sjálfsagt er, að ef dýrin eru merkt, þá er hægt að koma ábyrgð á hendur eigendum, ef dýrin sleppa út. Og það vitanlega skapar það aðhald, sem ætti að duga. Og hver er það, sem ekki vill skapa fyllra aðhald í þessum efnum?

Það var sagt, þegar lokið hafði verið við að semja reglugerðina, að hún væri svo vel úr garði gerð, að það kæmi ekki til, að dýr gætu sloppið út. Frágangur á búrunum væri margfaldur, þannig að þetta ætti ekki að geta skeð. En eigi að síður hefur það sýnt sig, að það hefur sloppið út dýr, og úr því að það hefur gerzt einu sinni, þá getur það gerzt aftur. Og það er rétt, sem hér var sagt áðan, að það er miklu hættara við því þegar frá líður, að það verði slappara eftirlitið heldur en í fyrstu, og þess vegna á að gera allt, sem unnt er, til þess að koma í veg fyrir, að þetta endurtaki sig. Það er enginn vafi á því. Þess vegna er það, að ég vil, að þetta frv. verði athugað í n., n. kalli til sín þá menn, sem líklegastir eru til að hafa þekkingu á þessum málum, og menn leggi ráð sín saman til þess að finna þá lausn á þessu máli, sem dugar, annaðhvort með merkingum eða þá á annan hátt.

Hér er brtt. á þskj. 331 flutt af tveimur hv. framsóknarmönnum, en ég ætla, að hvorugur þeirra sé við í dag, þannig að sú till. kemur ekki til umr. og ætla ég þá ekki að hefja umr. um hana. Sjálfsagt er, að atkvgr. og umr. um þá till. verði frestað til 2. umr. N. hefur hana þá einnig til athugunar, en hún er nokkuð öðruvísi heldur en frv., þannig að það er lögð samábyrgð á alla minkaeigendur í landinu og það getur náttúrlega talizt að ýmsu leyti kannske óréttlátt. En ég ætla ekki að ræða þá till. Ég vildi aðeins láta skoðun mína í ljósi á þessu, að ef það er framkvæmanlegt, eins og hér er lagt til í þessu frv., þá er ég mjög fylgjandi því, að slíkt verði gert.