11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru í rauninni aðeins örfá orð í tilefni af brtt. þeirri, sem hér hefur verið flutt af hæstv. iðnrh. og er á þskj. 230. Eins og hefur komið hér fram í umr. áður um þetta mál, hefur verið vakið máls á því, að e. t. v. væri rétt að gefa sveitarfélögunum á Austurlandi tækifæri til þess að gerast aðilar að rekstri rafmagnsveitnanna á Austurlandi. Það var skýrt frá því hér við 1. umr. málsins, að fram hefði beinlínis komið ósk um slíka aðild frá einu sveitarfélagi á Austurlandi, þ. e. frá Reyðarfirði, en þar er um að ræða einu sjálfstæðu rafveitustjórnina, sem nú er til á Austurlandi, því að allt hitt rafveitukerfið er komið undir sameiginlega stjórn Rafmagnsveitna ríkisins. Í sambandi við virkjun Lagarfoss og raforkumálin á Austurlandi hefur æði oft verið minnzt á þennan möguleika ekki sízt á fundum samtaka sveitarstjórnarmanna þar austur frá, og satt að segja hefur sú skoðun verið ráðandi meðal manna, að úr því, sem komið væri, væri eðlilegast, að Rafmagnsveitur ríkisins ættu raforkukerfið á Austurlandi og önnuðust rekstur þess, því að fyrir nokkrum árum var beinlínis stefnt að því af hálfu ríkisvaldsins að ganga mjög fast á sveitarstjórnirnar til að fá þær til að afhenda þau raforkumannvirki, sem sveitarstjórnirnar áttu, og nú um alllanga hríð hafa Rafmagnsveitur ríkisins átt allt raforkukerfið á Austurlandi fyrir utan litlu rafveituna á Reyðarfirði. Ef til þess ætti nú að koma, að sveitarstjórnir á Austurlandi yrðu að nýju meðeigendur að raforkuverum þar í fjórðungnum með ríkinu, þá skilst mér, að að því væri raunverulega stefnt, að Rafmagnsveitur ríkisins legðu niður starfsemi sína þar í fjórðungnum. Þá færi nú að verða heldur lítið eftir af Rafmagnsveitum ríkisins, þegar svo væri komið. Það má vel vera, að reynslan sýni það, að stefnt verði aftur í þessa átt.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að það væri miklu réttara að stefna að hinu, sem hér var ákveðið áður fyrr, að ríkið ætti sem mest af aðalorkuverunum í landinu og allar aðaldreifilínur og um séreign væri varla að ræða nema aðeins á einstökum dreifiveitum í sveitarfélögum. Og ég er enn á þeirri skoðun, að það væri í rauninni æskilegast að halda sig við þessa gömlu stefnu. En af því að nú er komin hér fram till. í þá átt að gera það mögulegt, að sveitarfélög á Austurlandi geti gerzt eignaraðilar og rekstraraðilar að orkuveitunum þar, þá vil ég ekki standa á móti slíku.

Fyrsta spurningin, sem vaknar auðvitað í því sambandi, er þessi: Hvað hefur ríkisvaldið, sem nú á orðið orkuveiturnar á Austurlandi, hugsað sér í þessum efnum, þegar það gerir ráð fyrir þessum möguleika? Gerir það ráð fyrir því, að sveitarfélögin á Austurlandi leggi fram einhvern verulegan hluta af stofnkostnaði hinnar nýju Lagarfossvirkjunar, sem mun kosta í kringum 200 millj. kr.? Ég hygg, að geta sveitarfélaganna þar sé ákaflega lítil til þess að leggja fram stofnfé til þeirrar nýju virkjunar.

Og eins vaknar auðvitað sú spurning: Er til þess ætlazt, að sveitarfélögin á Austurlandi taki í sínar hendur það raforkukerfi, sem fyrir er, en þar er um eina vatnsvirkjun og margar dísilstöðvar að ræða og allmikið línukerfi, sem kostar nokkur hundruð millj. kr., eins og þetta er sett fram á reikningum Rafmagnsveitna ríkisins? Er til þess ætlazt, að sveitarfélögin á Austurlandi greiði við yfirtöku einhvern tiltekinn hluta af þessum eignum, um leið og þau gerast eignaraðilar? Ég er líka mjög hræddur um það, að geta þeirra í þeim efnum sé ekki mikil.

Og svo vaknar síðast en ekki sízt sú stóra spurning: Hvernig er ætlunin að fara með það mikla vandamál, sem menn standa frammi fyrir varðandi rekstur þessarar veitu, þar sem nú er um mikinn hallarekstur að ræða, sem skiptir tugum millj. kr. á ári? Og ríkið hefur notfært sér sína sterku aðstöðu til þess að vega upp þennan halla með því að leggja á alveg sérstaka skatta til þess að standa þar á móti. Sveitarfélögin á Austurlandi hafa vitanlega enga slíka aðstöðu, að þau geti ráðið yfir neinni slíkri skattlagningu nema þá með því að selja raforkuna þar um slóðir á hærra verði en annars staðar. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það eru litlar líkur á því, að hægt verði t. d. fyrir Austfirðinga að ná jöfnunarverði á raforku með því að taka Austurland — svo dreifð og fámenn sem byggðin er þar í raun og veru — út úr heildarkerfi landsins. Það eru litlar líkur á því — ef það veitukerfi á að standa undir öllum sínum stofnkostnaði, t. d. stofnkostnaði við linur — að þessi svæði geti nokkurn tíma búið við raforkuverð, sem er hliðstætt því verði, sem er á öðrum svæðum, þar sem þau þannig yrðu hlutuð út úr heildarkerfinu.

En engar upplýsingar hafa enn fengizt um það í rauninni, hvað á bak við stendur, þegar veitt er heimild eins og þessi. E. t. v. er það hugmynd þeirra, sem að þessu standa, að gefa t. d. Austfirðingum í þessu tilfelli kost á mjög hagkvæmum kjörum, þ. e. að gerast hér eignaraðilar án þess að leggja fram mikið stofnfé og gerast eignaraðilar að því, sem fyrir er, án þess að leggja fram í rauninni nokkurt fé, og einnig með þeim kjörum, að a. m. k. fyrstu árin, meðan um er að ræða hallarekstur, hlaupi ríkið þar undir bagga á svipaðan hátt og verið hefur. Ef svo er, þá er ég síður en svo á móti því, að sveitarfélög á Austurlandi eigi þess kost að gerast eignaraðilar að þessu veitukerfi — ef sem sé þarna gæti verið um að ræða verulega hagstæða skilmála. En ekkert slíkt liggur enn þá fyrir.

Ég mun því fyrir mitt leyti, eins og þetta ber hér að, þar sem hæstv. iðnrh. sjálfur — sá, sem hefur yfirstjórn þessara mála með höndum — leggur til að taka inn í frv. þessa heimild, greiða þessari heimild atkvæði og sjá síðan til, upp á hvaða kjör verður boðið, þegar kemur til þess, að það á að fjalla um samninga um þessi mál. En ég legg að sjálfsögðu áherzlu á það, að þessi heimild verði ekki á neinn hátt til þess að tefja þær framkvæmdir, sem hér er fyrst og fremst verið að ákveða að ráðast í, og það megi ekki á neinn hátt draga úr Rafmagnsveitum ríkisins að hefja framkvæmdir í þessum efnum, þó að jafnvel sé komin fram till., sem raunverulega stefni að því að leggja Rafmagnsveitur ríkisins niður. Ég hef skilið hæstv. iðnrh. þannig, að það sé hans ætlun að standa þannig að verkinu, að það eigi ekki að verða hætta á því, þó að þessi till. verði samþ., að á nokkurn hátt verði dregið úr framkvæmdum við Lagarfossvirkjun.

En ég tel einnig alveg óhjákvæmilegt að breyta lítillega orðalagi í þessari till. frá því orðalagi, sem á henni er á þskj. 230. Þar segir nú: Óski samtök sveitarstjórna á Austurlandi að gerast eignaraðilar að virkjun Lagarfoss o. s. frv. Ég tel, að þetta orðalag komi ekki til mála, heldur eigi hér að standa: Óski sveitarstjórnir á Austurlandi eftir eignaraðild o.s.frv. Samtök sveitarstjórnarmanna eru ekki þannig upp byggð, að það sé hægt að gera ráð fyrir því, að þau sem slík gerist hér eignaraðilar og síðan rekstraraðilar að slíkum fyrirtækjum sem þessum. Hér verður vitanlega að vera um að ræða ákvörðun hinna einstöku sveitarfélaga hvers um sig og þeirra af þeim, sem vilja vera með í svona rekstrarfélagi við ríkið. En samtök sveitarstjórnarmanna geta hér ekki orðið aðilar, enda er þar auðvitað einnig um að ræða ýmsa aðila í samtökunum, sem eru utan þess veitusvæðis, sem hér verður um að ræða á a. m. k. alllöngu tímabili. Ég er þess alveg fullviss, að a. m. k. stærstu og öflugustu sveitarfélögin á Austurlandi mundu vilja ganga þannig frá hlutdeild sinni, ef til kæmi, í rekstri og eignaraðild að þessum orkuverum, að það lægi alveg skýrt fyrir, hvaða fjárhagsskuldbindingar hvíldu á þeim og hvaða rekstrarkvaðir fylgdu. Þau mundu ekki sætta sig við það að vera þar í einhverri algerri samábyrgð með sveitarfélögum, sem eru í eðli sínu óskyld, því að þar er auðvitað mjög ólíku saman að jafna hjá hinum ýmsu aðilum.

Ég ætlaði því að óska eftir því, þar sem hér er aðeins um 2. umr. að ræða, að hæstv. iðnrh. féllist á það að draga þessa brtt. til baka nú við 2. umr. Það fengist þá tóm til þess að líta aðeins á þetta orðalag og víkja því þannig við, að það náist, sem ég hygg, að hafi alveg tvímælalaust verið ætlun hans í þessum efnum. Síðan mætti þá bera till. undir atkv. við 3. umr. En afstaða mín til till. er þessi, eins og ég hef sagt, að vegna þess, hvernig hana ber hér að og hver að henni stendur, og líka vegna þess, að ég hef ekki enn þá fengið neinar teljandi upplýsingar um það, hvaða kostakjör gæti verið hér um að ræða, þá mun ég greiða þessari till. atkv., svo að möguleikarnir liggi fyrir, þó að það sé mín skoðun, að það hefði verið miklu vitlegri stefna — sem almenn stefna í raforkumálum — að reikna með því, að veitukerfið væri rekið sem mest af ríkinu fyrir utan hinar einstöku dreifiveitur.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að fyrir viss svæði á landinu og fyrir þá, sem verst eru staddir, hefði slíkt fyrirkomulag raunverulega verið hagkvæmara. Ef til þess kæmi, að hér yrði um að ræða sameign sveitarfélaganna og ríkisins, fylgir þessu einnig sá kostur — sem ég álít, að hefði verið hægt að ná eftir öðrum leiðum, eins og ég hef minnzt hér áður á í umr. um þessi mál — að með því réðu heimamenn, þ. e. fulltrúar sveitarfélaganna, nokkru meira en nú er í reynd um uppbyggingu og framkvæmd þessara mála í sínum heimahéruðum. En ég álít, að það hefði verið lítill vandi að breyta l. um Rafmagnsveitur ríkisins á þann veg að tryggja það, að um verulega heimastjórn hefði getað verið að ræða á hinum einstöku veitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins, þannig að hægt hefði verið að komast yfir þann vanda, sem þar hefur komið í ljós í sambandi við rekstur á rafmagnsveitunum.

Ég vænti svo, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að draga till. til baka til 3. umr., því að það getur varla skipt miklu máli, hvort hún er borin undir atkvæði nú við 2. eða 3. umr.