11.02.1971
Neðri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (3081)

192. mál, tollskrá

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 315 hef ég leyft mér ásamt hv. 5., 6. og 9. þm. Reykv. að flytja frv. til l. til breyt. á l. um tollskrá. Efni þessa frv. er það að lækka toll á bifreiðum, sem notaðar eru til leiguaksturs, í 30%, en núna mun innheimtur af þeim 70% tollur, og af sendiferðabifreiðum, einnig verði innheimt af þeim 30%. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er, að ekki þarf orðum að því að eyða, að þjónustustétt eins og leigubifreiðarstjórar er mikil nauðsynjastétt í þessu landi og gegnir þýðingarmiklu þjónustuhlutverki. Á síðari árum hafa bifreiðar hækkað mjög í verði vegna gengisbreytingar, svo að þær bifreiðar, sem keyptar voru fyrir þremur árum og seldar væru nú verðhækkunin ein, sem á þessum bifreiðum hefur orðið, mundi gleypa verð hinnar gömlu bifreiðar. Það þýðir það, að bifreiðarstjóri, sem hefur stundað atvinnu sína í leiguakstri, væri hér eins og nýliði, sem væri að byrja án þess að hafa notið þess að eiga bíl áður. Afskriftirnar, sem áttu að verða til þess að endurnýja bifreið hans, hefur verðbólgan hirt í sína hít. Bifreiðarstjórar telja þetta mál sér mjög í hag og hafa óskað eftir því, að það verði flutt hér á hv. Alþ., sem það er og gert. Þeir benda á það í rökstuðningi sínum, að þó að tollar yrðu lækkaðir svo sem hér er gert ráð fyrir, mundi það ekki þýða verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð, þar sem innflutningur á bifreiðum mundi þá verða meiri heldur en hann yrði að öðrum kosti.

Þegar tollskráin var til meðferðar á s. l. ári, voru athugaðir möguleikar á því að koma þessari breytingu í framkvæmd, en það tókst ekki, en mér segir svo hugur um, að það muni verða miklu meiri líkur fyrir því, að það muni takast að þessu sinni. Það stóð til, að fleiri flm. yrðu að þessu frv., en af ástæðum, sem ég mun ekki greina hér nú, gat ekki orðið af því, en ég vonast til þess, að á síðara stigi málsins geti fleiri komið til liðs við það.

Eins og eðlilegt er, mun ríkissjóður að einhverju leyti tapa tekjum við þetta, a. m. k. þegar litið er á pappírinn, þó að það geti hins vegar jafnað sig, með því að fleiri bifreiðar verði fluttar inn heldur en að öðrum kosti mundi verða. Ég hef kynnt mér þetta og hef fengið um það álit frá Hagstofunni og miðað við það, að fluttar væru inn 280 bifreiðar til leiguaksturs á ári hverju, — á s. l. ári voru fluttar inn um 170 bifreiðar, en þessi tala, 250–280, er talin eðlileg endurnýjunarþörf á þeim leigubifreiðum, sem nú eru í landinu, sem eru 900 — ef svo væri, sem hér er gert ráð fyrir, sem sagt hámarkstölu endurnýjunar og hámarksverð eftir þeirri áætlun, sem Hagstofan hefur gert, þá mundi hér vera um 21 millj. kr. að ræða. Og ef sendiferðabifreiðarnar eru teknar með og svipaður útreikningur á þeim, þá yrði málið allt um 21.8 millj. kr. Nú er við þetta að athuga, að ekki þarf að gera ráð fyrir því, að innflutningurinn yrði svo mikill, a. m. k. á þessu ári eins og hér er gert ráð fyrir, svo að gera má ráð fyrir, að þetta mundu verða 10–15 millj. kr., sem þetta munaði í tekjum hjá ríkissjóði. Þegar á það mál er litið, þá er það ekki stærra mál en svo, að það mundi ekki skipta neinu sem heitir fyrir tekjur ríkissjóðs, enda væri tekjuáætlunin naum, ef svo væri, að 10–20 millj. kr. frá eða til hefðu þar verulega þýðingu. Hins vegar er líka því við að bæta, að með þeirri stefnu, sem hér hefur verið tekin upp á hv. Alþ., að innheimta af bifreiðunum háa benzínskatta eða af þjónustu þeirra, þá er ekki hægt á sama tíma að taka há aðflutningsgjöld af bifreiðum, það væri ósanngjarnt með öllu og gæti haft þau áhrif, að úr þessari þjónustu drægi. Það er ekki hugsun þeirra, sem að því hafa staðið að reyna að byggja vegakerfið upp með tekjum frá umferðinni, að framlag leigubifreiðarstjóra til þessara mála ætti að vera meira en annarra manna í landinu nema að því leyti, sem notkunin er. Þess vegna treysti ég því, að hið háa Alþ. sjái sér fært að samþykkja þetta frv. nú á þessu þingi, svo að með þeim hætti verði stuðlað að því, að þessi stétt geti haldið uppi eðlilegri þjónustustarfsemi í landinu og hún efld bæði sjálfri sér og öðrum þegnum þjóðfélagsins til hagsældar. Ég er sannfærður um, að það er okkur mikils virði, Íslendingum, að þjónustustétt slík sem leigubifreiðarstjórar efli sína starfsemi eins og aðrar þjónustustéttir, sem við þurfum að hafa í okkar þjóðfélagi. Þetta frv. er flutt til þess að mæta brýnustu þörf leigubifreiðarstjóranna og ég verð að segja það, að ekki hefur sá háttur verið á, að þeir hafi oft knúið hér á dyr Alþingis um sín mál, og því er sanngjarnt, að þegar þeir gera það, verði við því orðið.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.