18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (3093)

196. mál, þjóðgarður á Vestfjörðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það urðu fyrir nokkrum dögum nokkrar umr. um frv. um þjóðgarð á Vestfjörðum, og lét ég við þá umr. það álit mitt í ljós, að ef þetta frv. væri ekki flutt 5 samráði við þá menn, sem eiga hagsmuna að gæta á því landsvæði, í þeim landshluta, sem frv. ræðir um að gera að svokölluðum þjóðgarði, þá teldi ég, að það væri þess eðlis í heild, að ég mundi ekki veita því stuðning. Nú er komið í ljós, að málið hefur áreiðanlega ekki verið flutt í samráði við landeigendur eða eigendur fasteigna í þessum landshluta, því að hv. Alþ. hafa borizt mótmælaskjöl frá hátt á 5. hundrað manns, fyrrv. íbúum Sléttuhrepps eða fólki, sem á einn eða annan hátt er tengt þessum byggðum. Öll eru þessi skjöl, sem borizt hafa, þess efnis, að frv. er mótmælt og mér finnst a. m. k., að þar séu borin fram skynsamleg rök á margan hátt gegn nauðsyn þess að grípa þarna inn í af hendi hins opinbera og beita eignarnámsheimildum til þess að taka persónulegan eignarrétt fólks þarna og leggja hann fyrir róða. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa hér bréf, sem borizt hefur frá stjórn Átthagafélags Sléttuhrepps, en þar segir:

„Við undirrituð, sem erum upprunnin í Sléttuhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu eða tengd þeirri byggð á annan hátt, leyfum okkur hér með að mótmæla frv. því til laga um þjóðgarð á Vestfjörðum, er alþm. Matthías Bjarnason og Pétur Sigurðsson hafa flutt. Jafnframt viljum við vekja athygli hins háa Alþ. á eftirtöldum atriðum:

1. Landsvæði það, sem frv. gerir ráð fyrir að verði friðlýst sem þjóðgarður, hefur verið öllum heimilt til umferðar og dvalar, síðan byggð lagðist þar í eyði.

2. Jarðrask og mannvirkjagerð á svæðinu getur ekki talizt yfirvofandi í náinni framtíð. Ágangur sauðfjár hefur heldur enginn verið á þessu svæði, síðan byggðin fór í eyði. Verður því ekki séð, að sérstök friðlýsing sé nauðsynleg.

3. Landsvæði þetta er víðáttumikið og erfitt yfirferðar og hlýtur því að verða ærið kostnaðarsamt að veita því þá vernd og umhirðu, sem þjóðgarður þarfnast. Rétt er einnig að benda á verulegan kostnað, sem leiða hlýtur af kaupum á eigum þeirra, sem nú eiga lönd á þessum slóðum, „þar sem fögur vötn, ár og ósar með miklum silungi, stórfengleg björg iðandi af fugli og lífi“ eru auk fjölmargra annarra náttúrugæða.

4. Um mörg undanfarin sumur hefur nokkuð af fólki leitað á vit hinna eyddu byggða í Grunnavíkur- og Sléttuhreppi til að njóta þeirrar friðsældar og náttúrufegurðar, sem að nokkru er lýst í grg. frv. Sumt af þessu fólki á þangað rætur að rekja, en aðrir náttúruunnendur hafa fylgt í slóð þess og oft notið leiðsagnar þeirra, sem kunnugir eru staðháttum. Samgönguerfiðleikar eru hins vegar illur þrándur í götu fólks, sem „þráir nú að leita að sumrinu til slíkra landsvæða.“ Einhver fyrirgreiðsla af hálfu opinberra aðila á þessu sviði væri líklegri til að auðvelda fólki að leita á „vit ósnortinnar náttúru við nyrzta haf“ en friðlýsing svæðisins ein saman. Með örlitlu broti af því fé, sem samþykkt frv. mundi kosta ríkissjóð, mætti vafalítið tryggja ferðafólki samgöngur milli Ísafjarðar og umræddra eyðibyggða tvo til þrjá mánuði á sumri hverju gegn hæfilegu fargjaldi. Væri horfið að því ráði, verður ekki betur séð en megintilgangi frv. verði náð.

5. Síðustu íbúar byggðarlagsins og niðjar þeirra, sem nú eiga lönd og mannvirki á þessu svæði, hafa margir lagt verulegt fé og fyrirhöfn í viðhald eigna sinna. Það er því ofmælt, sem segir í grg. frv., að mannvirki séu víða hrunin eða í slæmu ástandi. Ekki verður séð, að almenningsheill krefjist þess, að þessir menn séu sviptir eignum sínum með svo víðtæku eignarnámi, sem stefnt er að með frv. Hins vegar munu fáir líklegri til að sýna þessum slóðum umhirðu og ræktarsemi en einmitt þeir, sem þar eiga fornar rætur.“

Undir þetta rita Ingimar Guðmundsson, Dalbraut 3, Kristinn Gíslason, Hofteigi 52, Gunnar Friðriksson, Hjarðarhaga 31, Reidar G. Albertsson, Langholtsvegi 42, Sigurjón Ingi Hilaríusson, Hjallabrekku 15 og Birgir G. Albertsson, Álfhólsvegi 38.

Sumpart eru þessi mótmæli frá fyrrverandi íbúum Sléttuhrepps búsettum á Ísafirði, eða fyrir vestan, en mikill hluti þessa fólks er búsettur hér í Reykjavík eða sunnanlands. En svo mikið er víst, að tengsl þessa fólks við sínar byggðir hafa ekki rofnað og það eitt torveldar mjög framkvæmd frv. og gerir það nærgöngulla við þetta fólk, að svo skammt er liðið frá því að byggðin eyddist og fólkið er enn þá í nánum tengslum við þessi byggðarlög. Ég fæ heldur ekki séð, að sú forsenda stjórnarskrár fyrir eignarnámsheimildum sé fyrir hendi, að almannaþörf geri nauðsynlegt að svipta einstaklinga eignum sínum, og teldi, að það eitt út af fyrir sig væri mikið vafaatriði um framkvæmd frv.

Það þykir sjálfsagt hverjum sinn fugl fagur. Ég heyrði það á hv. fyrri flm., að hann taldi þetta stórt og mikið mál, sem ætti jafnvel að skipta mönnum í flokka, en ekki fæ ég nú séð, að það sé þess eðlis, málið. Hins vegar játa ég það, að ég er ekki meiri þjóðnýtingarmaður en svo, að ég vil, að einhver tilgangur sé með því, að ráðizt sé á eignarrétt einstaklingsins. Það verður að þjóna einhverjum tilgangi. Ég vil ekki láta slíkt gerast að nauðsynjalausu. Og dálítið er mér það nýstárlegt, ef það gerist nú mjög algengt innan Sjálfstfl., að þeir telji persónulegan eignarrétt ekki helgan og að ekki þurfi eitthvað til, til þess að þeir vilji, að hann sé afmáður. Það er þá orðið eitthvað breytt andrúmsloftið innan Sjálfstfl., ef svo er, að þær skoðanir vaði mjög uppi, að það beri, án þess að nauðsyn krefjist, að ganga gegn rétti manna til þess að eiga persónulegar eignir, og megi taka þær af þeim að nauðsynjalausu. Þá er hann orðinn meiri þjóðnýtingarflokkur heldur en ég mundi a. m. k. geta aðhyllzt. En það eru sjálfsagt ýmsir kvistir til í þeim flokki og kannske er hann orðinn það kaos, að hann rúmi líka innan sinna vébanda þjóðnýtingarmenn öðrum fremri. Ég hef þess vegna ekki skipt um skoðun við þær upplýsingar, sem fram hafa komið í þessu máli síðan um daginn.

Mér þykir leitt, að það skuli vera í uppprentaða frv. áfram talað um Hestfjörð á þessu svæði, en að svo miklu leyti, sem ég veit, er enginn Hestfjörður til á þessu svæði, hins vegar langt inni í Ísafjarðardjúpi er Hestfjörður og þetta sýnist ekki vera prentvilla, því að það hefur ekki verið leiðrétt í hinu uppprentaða frv. Mér liggur nú við að segja, svo að ég bregði á gaman, áður en ég lýk máli mínu: „Þjóðgarðsstjórn er heimilt að auka fjölbreytni dýralífs á hinu friðlýsta svæði innan þeirra marka, sem gildandi lög leyfa.“ Þjóðgarðsstjórninni er heimilt að auka fjölbreytni dýralífs. Það minnir mig á prestinn og bóndann, sem voru nágrannar, og presturinn mætir bóndanum einu sinni fyrir utan sáluhliðið, þegar hann er aðkoma frá messu og segir við bóndann: „Ég á fylið í merinni þinni.“ Og þá sagði bóndinn: „Margt berið þér nú við, prestur minn.“ En sem sé, ég er andvígur þessu frv. og sé ekki, að það sé ástæða til að Alþ. afgreiði það, heldur beri að vísa því frá afgreiðslu eða fella það.